25.3.08

Einn í Hafnarfirði

Ég get ekki neitað því að það var með örlitlum ugg sem ég samþykkti að panta síma handa afmælisbarni gærdagsins á Netinu, nánar tiltekið hjá Farsímalagernum. Og af því ég var nú farin að spara svona með netviðskiptunum ákvað ég að spara mér heimsendingarkostnaðinn og sækja símann sjálf - í höfuðstöðvar fyrirtækisins að Miðhrauni 14 í Garðabæ. Pöntunin gekk alveg smurt, gleypt við kortanúmerinu og allt það og mér ráðlagt að prenta út síðuna þar sem ég gekk frá pöntuninni, sem ég gerði. Vopnuð þessari síðu hélt ég svo í Garðabæinn síðdegis í dag. Reyndar var ég búin að reyna að hringja til að tékka á því hvort hægt væri að sækja símann á einhvern stað nær mannabyggð en þá mætti mér undarlegasta símsvörunarapparat sem ég hef kynnst: Ýttu á 1 til að ná sambandi við farsímalagerinn eða Hans Petersen - ég ýtti á 1. Þá kom: Ýttu á 1 til að ná sambandi við verslanir Farsímalagersins. Ég nennti ekki að bíða eftir frekari sundurliðun apparatsins, enda að verða of sein með fermingarbarnið í skraf og ráðagerðir á hárgreiðslustofu.

Að sjálfsögðu komst ég ekki í Miðhraun í Garðabæ fyrr en eftir smákrók til að njóta útsýnisins við Vífilsstaðavatn - við kipptum okkur ekki mikið upp við það mæðgurnar. Þegar ég orðaði það hugboð mitt að kannski væri engan síma að hafa í þessu nápleisi ákváðu dæturnar að bíða í bílnum meðan ég færi inn. Þeim leiðist svo þegar ég geri ískaldar, gáfulegar og hæðnislegar athugasemdir yfir vondri þjónustu.

Á dyrunum var miði: Verslunin er hætt, farið í verslanirnar í Hafnarfirði, á Laugavegi 178, Kringlunni, Akureyri... Ég ákvað samt að tölta upp stigann og fann þar skrifstofufólk fyrirtækisins. Já, því miður höfðu þeir gleymt að breyta netviðmótinu þegar þeir lögðu búðina niður, svo enn var fólki vísað á þennan stað, og því miður áttu þeir engan svona síma á lagernum þarna en einn í Hafnarfirði!!! Ég spurði manninn hvort honum fyndist virkilega hægt að fara fram á það, eftir að ég væri búin að sveima óratíma um í leit að þessari holu (nefndi ekki Vífilsstaði), að ég þyrfti svo að hrekjast í Hafnarfjörð líka. Ég nefndi líka að ég væri í vinnu hjá sjálfri mér svo ég væri ekki einu sinni að sóa annarra tíma í þetta. Manngreyið féllst á að líklega væri sanngjarnt að ég fengi símann sendan heim eftir þessa fýluferð. Merkilegt nokk þá kom ungur efnispiltur með símann nú um kvöldmatarleytið.

Aðallærdómurinn sem ég dreg af þessari sögu, fyrir utan það hvað þjónusta fyrirtækja hér er yfirleitt arfavond og menn illa búnir að læra á Netið, er þetta: Það er með ólíkindum hvað verslunarfólki finnst alltaf sjálfsagt að maður sé tilbúinn að endasendast milli bæjarhluta þegar vara er búin á einum stað en til á öðrum (eða maður er sendur á rangan stað eftir henni). Það er ekki blikkað auga yfir því að skór eru búnir í Kringlunni en til í Smáralind eða öfugt, eða peysur eru uppseldar á Laugavegi en til í Glæsibæ. Heldur það að maður geri hvort eð er ekkert annað en keyra stefnulaust um göturnar allan daginn?

Veit það, það er fáránlegt að panta eitthvað á Netinu og sækja það svo sjálfur. Eina afsökunin er að akkúrat þessi tegund fékkst ekki í Kringlunni, þar sem við leituðum á laugardaginn, og við héldum að svona fengist síminn fyrr.

Web Counter

21.3.08

Mía litla og kynningarmál

Nanna tók þetta próf og ég hermdi eftir henni. Ég hugsa að heimilismönnum komi úrslitin ekki á óvart. En kannski er bara farið eftir svarinu við fyrstu spurningunni (ertu lítil, stór, ...). Þannig er resúltatið:

Lille My (Mía litla)
Du er Lille My! Du elsker spenning og er veldig rampete. Du er også veldig direkte og sier ofte ting rett frem uten å tenke over hvem du kan såre.

24.76% har falt innenfor denne kategorien.

Og af því ég er enn í heilögu stríði á móti Cleese, hér gæti Kaupþing fengið tvær persónur í kynningarmálin, miklu ódýrari og normalli en karltuskuna!

Web Counter

20.3.08

Ímynd

Ýmsir hneykslast á óljósum fregnum um hópuppsögn kvenna hjá sparisjóðnum Byr. Þetta voru víst konur á mínum aldri, reyndar í starfi, öruggur vinnukraftur, hættar að vera óléttar, hættar að þurfa að vera heima yfir veikum börnum - og þá er þeim sagt upp - til að bæta ímyndina, og ráðnar 25 25 ára í staðinn. Í ljósi síðustu tíðinda úr fjármálaheiminum hér er ég ekki frá því að skynsamlegra hefði verið að láta 25 25 ára krakka fara og ráða 15 rúmlega fimmtugar í staðinn. Og þetta hefðu fleiri fjármálastofnair átt að gera og það fyrir nokkrum árum. Þá værum við kannski ekki í alveg eins djúpum skít og núna.
Það er annars alveg stórmerkilegt þetta með konur, karla, ímynd og aldur. Það þarf að yngja upp kvennahópinn til að bæta ímyndina en svo hangir Kaupþing á þessum heimska, gamla og ljóta Cleese og heldur að það sé svakalega flott (sbr. fyrri pistil frá 14. janúar í fyrra).

Þetta er skrifað á ættaróðalinu, komum í fyrradag og ég er búin að vera hálflasin síðan, með kvef og þvílíkan rolluhósta að hann ætlar mig lifandi að drepa og einnig alla nærstadda. Það fer því lítið fyrir fjallgöngum og annarri útivist að þessu sinni. En þetta er ósköp notalegt samt.

Web Counter

17.3.08

Velt hefði ég mér, væri ég dauð...

"Eitthvað er diskurinn ekki að höndla að vera spilaður" - þetta sagði ungur maður í Lögum unga fólksins áðan. Dauðir (og sumir lifandi) málverndarmenn hafa líklega velt sér við í gröfinni.

Web Counter

13.3.08

Ný göng og tvöföldun

Þegar ég sá ofangreinda fyrirsögn í 24 stundum í morgun gat ég ekki stillt mig um að senda eftirfarandi póst til frægs fjölmiðlamanns:

Sæll og blessaður.
Ég sendi þér póst um daginn um Hafnarfjarðar-hafnarbakkahryllinginn; mér eru sem sé umhverfismál hugleikin. Þau snerta mig reyndar líka persónulega. Þannig er að ég á sjötta part í þriðjungi jarðarinnar Mela í Hrútafirði og þar er Vegagerðin að breikka veginn fyrir neðan túnið vegna þess að gera á nýja brú yfir Hrútafjarðará nálægt Stað (sbr. Staðarskála) og færa alla umferð norður í land þarna vestur fyrir ána. Við erum svo sem ekki hrifin af því eigendurnir en getum ekkert gert til að sporna við þessu. Ef við neitum að afhenda land og efni í veginn er það bara tekið eignarnámi – og það þýðir enn lægri greiðslur en ella – en alltaf verða þær svo sem smánarlegar. En þá kem ég að sjálfu efninu: Vegagerðin virðist geta vaðið yfir allt og alla og er undanskilin öllu umhverfismati vegna þess að yfirleitt eru teknir fyrir stuttir kaflar í einu og ef þeir eru undir 10 km (minnir að það sé markið) þarf ekki umhverfismat! Það sem Vegagerðin gerir af sér í mínu tilfelli er t.d.:

Skerðir tún jarðarinnar. (Látum það nú vera)

Heldur áfram að taka efni úr melunum vestan við veginn og eyðileggja þá, en þetta eru líklega (eða voru) einhverjar greinilegustu menjarnar um fornan sjávarbakka frá ísöld sem sjást frá þjóðvegi á Íslandi.

Virðist vera að fjarlæga fallegan hól í landi jarðarinnar Fögru-Brekku, hann heitir Tjaldhóll, og þeir byrja á honum að vestan svo að eyðileggingin sést ekki fyrr en síðustu leifarnar hrynja niður (eða háspennustaurinn sem Landsvirkjun kom svo smekklega fyrir þarna um árið).

Vegurinn hlykkjast um eyrar og hólma á vatnasviði Hrútafjarðarár og enginn veit hverjar afleiðingarnar verða fyrir fuglalíf og fiskigengd.

Skoðaðu svo forsíðu 24 stunda í dag – tvöföldun Suðurlandsvegar: “Framkvæmdin þarf ekki að fara í umhverfismat og því ætti að vera hægt að keyra hana nokkuð hratt áfram”. Svo er sagt frá fjölmörgum stuttum köflum hér og þar sem á að fara í: “Þessar framkvæmdir þurfa heldur ekki að fara í umhverfismat og því hægt að ráðast í þær fljótlega til að mæta niðursveiflu í atvinnulífinu.”

Það er sama gamla sagan, skítt með umhverfið, verktakarnir ráða.

Svo er ein ályktun sem má draga af þessari frétt – við fáum sjálfsagt ekki Sundabraut í þessu lífi.

Web Counter

12.3.08

Gamla Melahúsið 4 (búrið)

Það var gengið beint af ganginum í austur inn í eldhúsið og þar á hægri hönd voru dyrnar að búrinu. Þegar gengið var inn í það blasti við veggur á móti og eftir honum endilöngum var búrborðið og hillur fyrir ofan. Undir búrborðið var svo skotið ýmsum varningi, t.d. var alltaf hveitipoki (25 kg?) undir því beint á móti dyrunum. Ég man ekki jafn vel hvað var undir borðinu þegar austar dró (nú er ég farin að tala eins og Norðlendingur). Á hægri hönd, í norðausturhorni búrsins var sláturstunnan (sem áður hefur verið nefnd í pistli). Á norðurveggnum, bak við hurðina þegar opnað var, hékk haglabyssan hans pabba. Við vorum svo hrædd við hana krakkarnir að við þorðum varla að koma við hana, hvað þá meir, enda lítt menguð af stríðs- og bófasögum eða -kvikmyndum. Sjálfsagt hefði ekki verið jafn saklaust að hafa byssu svona á glámbekk nú á dögum.

Á búrborðinu voru kökudunkar geymdir og matarafgangar áður en ísskápurinn kom. Næst austurveggnum var líka lengi skilvinda, sem var reyndar æ minna notuð og loks hent (því miður!) um það leyti sem kýrnar fóru. Upp á borðið á móti dyrunum var nýsoðnu slátri staflað í sláturtíðinni áður en það var sett í súr. Svo mikið var soðið að staflinn náði alveg milli borðs og neðstu hillu. Hvað svo var geymt í hillunum er svolítið óljóst fyrir mér, eitthvað man ég eftir "sjúkrakassa", skókassa með plástri, joði og slíku dóti. Þarna voru líka geymd lyf, líklega bæði manna- og dýra, og vítamíni man ég eftir þarna, hóstasaft, spritti og dróma og germidíni sem við þvoðum okkur úr ef við óttuðumst að hafa snert hundaskít eða hundsrass. Man einhver sigtisbotna? Þeir voru geymdir þarna, og blöð til að gera júgurbólguprufur. Þarna var líka kassi með uppskriftum og öðrum úrklippum úr blöðum. Þarna var smápeningakrukkan líka geymd. Það var ekkert smámál þegar við Ína (eða var það kannski Krummi eða Þóra?) stálum tveimur krónum til að kaupa tvær karamellur í sjoppunni en rákum okkur óvart í fat með matarleifum þegar við vorum að stela krónunum og brutum það. Einhvers staðar þarna geymdi pabbi líka fátæklegt verkfærasafn sitt (skrúfujárn og tangir).

Eftir því sem ofar dró varð dótið sjaldnotaðra, til dæmis berjatínur, leifar af mekkanói strákanna, skrúfusafn heimilisins og annað skran sem mamma tímdi ekki að henda.

Svo verð ég að lýsa skotinu. Það var á hægri hönd þegar gengið var inn í búrið, myndað þar sem innbyggðu skáparnir í herberginu suðurí sköguðu inn í búrið. Upplagt hefði verið að setja djúpar hillur í skotið til að gera það örlítið aðgengilegra sem geymslupláss en það var aldrei gert. Í stað þess var dóti staflað þar upp við vegginn, ýmist í kössum eða pokum. Þetta voru t.d. gömul föt og tuskur, blöð og tímarit í kössum og fleira. Einhvern tíma var sett þarna gömul mubla, svokallaður rúmfataskápur, sem fylltist fljótt af fötum. Best man ég eftir nokkrum kjólum af Önnu móðursystur minni; líklega hafa þeir verið frá sjötta áratugnum. Þetta man ég af þeim: rauð og svartköflóttur úr þunnu silkikenndu og hömruðu efni, með hringskornu síðu pilsi og þröngum hálflöngum ermum. Svartur kjóll, svipaður í sniðinu, með örlitlum grænum doppum, þykkt gljáandi silkikennt efni. Grá- og hvítyrjóttur kjóll með víðu pilsi og stuttum ermum. Við vorum oft að druslast í þessum kjólum í leikjum og enduðum á að eyðileggja þá með því að reyna að sauma upp úr þeim þegar við urðum stærri.

Við gaflinn á rúmfataskápnum var kartöflupokinn geymdur (25 kg eða 50?) og þegar fór að minnka í honum varð til ágætt sæti, með gaflinn sem bak. Þarna sat ég löngum í frístundum og blaðaði í gömlum eintökum af Samtíðinni sem þarna voru í kassa. Má til með að segja svolítið frá efni sem ég man úr þessu ágæta tímariti:

1. Dægurlagatextar (t.d. Söngur villiandarinnar sem kom út á okkur frænkum tárunum).
2. Einhvers konar heilræðaþáttur, minnir að "Freyja" hafi verið ráðgjafinn. Þetta voru vandamál eins og: "ólétt en hrædd um að maðurinn minn eigi ekki barnið" eða "hrædd um að maðurinn minn haldi fram hjá mér" eða "maðurinn minn er vondur við mig" eða "tengdamamma er hræðileg" o.s.frv.
3. Tískuþáttur - myndir og ráðleggingar, t.d. að rauðhærðar ættu að klæðast grænu en ekki rauðu, hvað virkaði grennandi o.s.frv. Líka heimatilbúnir maskar, heimatilbúin leikfimi og þess háttar. Líklega hafa megrunarkúrar verið byrjaðir þarna.
4. Framhaldssögur - man sérstaklega eftir einni um konu sem langaði svo óskaplega til að viðhalda æskunni að hún lagði af stað í geimferð og ætlaði að spila einhvern veginn á afstæðiskenninguna - en það endaði með ósköpum þannig að hún fór að eldast með ógnarhraða og varð held ég loks að dufti.

Fleira get ég nú ekki rifjað upp í fljótu bragði en sé að það væri þess virði að fara í Þjóðarbókhlöðuna og kíkja á þetta.

Kartöflupokinn góði kom sér líka vel ef maður þurfti að fara í fýlu. Ég man það til dæmis vel þegar ég var að glíma við þá skelfilegu þraut að taka til láns í Talnadæmunum. Þá var gott að fara inn í búr, skella á eftir sér og grenja hraustlega sitjandi á kartöflupokanum - kannski hef ég svo gripið í Samtíðina þegar tárin fóru að sjatna.

Web Counter

10.3.08

Ýmsir merkir áfangar ...

... hafa náðst hér undanfarna daga, svo sem stórafmæli húsbóndans á laugardaginn, sem fór vel fram og var skemmtilegt. Haldiði svo ekki að arkitektinn hafi komið hér presíst kl. 14.00 í gær með "fagteikningar" sínar eða hvað það nú heitir, nákvæmlega eins og hann lofaði fyrr í vikunni, að vísu eftir að hafa dregið skil oft og lengi á þessu og ýmsu öðru sem títtnefndu risi viðvíkur.

Það voru því fegin hjón, en kvíðin, sem gengu með teikningasúpuna inn til byggingarfulltrúa í dag. En viti menn; móttökurnar voru allt aðrar en ég bjóst við, allt að því vinsamlegar, ef ekki kumpánlegar. Það var svolítið eins og við værum komin í nýjan flokk viðskipta"vina", þeirra sem ætla að hafa það af, búin að læra á kerfið, ekki lengur talin algjör fífl eða eitthvað til að skeyta skapinu á.

Það verður þó að viðurkennast að við vorum sérlega vel undirbúin; með kvittanir fyrir því sem við vorum búin að borga og ýmsa aðra pappíra. Þegar eignaskiptayfirlýsingin var nefnd hafði ég tromp uppi í erminni og sýndi forsíðu vitlausu eignaskiptayfirlýsingarinnar sem byggingarfulltrúaembættið stimplaði TVISVAR, þótt hún væri öll í rugli. Aðalkonan í afgreiðslunni varð eins og smjör við það og ég varð svo ánægð að ég komst á trúnaðarstigið og sagði konunni að mig hefði dreymt um daginn að ég ætlaði að fara að byggja heilt hús, var komin með öll tilskilin leyfi en áttaði mig þá á því að ég var ekki búin að fá lóð undir það. Velti fyrir mér Garðabæ og Hrútafirði og hallaðist frekar að síðari staðnum. Þetta með staðsetninguna nennti ég reyndar ekki að segja konunni, enda fólk farið að hlusta með andakt á söguna. Konan virtist alveg skilja líðan mína og átta sig á því að það er mjög eðlilegt að mann dreymi svona drauma ef ekki verri meðan maður á allt sitt undir skipulagsyfirvöldum Reykjavíkur.

Samskiptum okkar lauk á léttu nótunum; hún minnti okkur á að koma sem fyrst með staðfestingu á byggingarstjóra og svo þyrfti að tilgreina alla iðnaðarmenn og fá undirskrift þeirra. Ég taldi upp: smiður, rafvirki, pípari ... En múrari, sagði hún þá. Ég sagðist tæplega þurfa múrara nema kannski til að leggja flísar á baðið, þetta væri allt úr timbri, hvort ég myndi þurfa múrara til að byggja timburhús. Kannski sökkulinn, sagði hún. Hann var nú gerður fyrir rúmum fimmtíu árum, sagði ég og þar með féllst konan á að kannski bráðlægi ekki á múrara.

En það væri svo sem alveg eftir því að ég þyrfti einn slíkan.

Web Counter

4.3.08

Jón og séra Jón?

Þegar við sóttum um að fá að hækka risið á húsinu okkar um ca. tvo metra þurfti að breyta deiliskipulagi og kynna það og allt mögulegt - ferli sem tók nokkra mánuði.

Ég gat ekki betur heyrt í fréttum í dag en að ekki þyrfti að breyta deiliskipulagi vegna álversbáknsins sem á að koma í Helguvík. Er einhver þarna úti sem getur útskýrt þetta?

Web Counter

Minning

Þar sem ættingjar mínir, og í þeim hópi er stærstur hluti lesenda þessa bloggs, eru ekki allir áskrifendur að mogganum, og eins og allir vita fer áskrifendum að mogganum óðum fækkandi, birti ég hér orðin sem ég skrifaði í minningu hans Jónasar frænda míns. Þetta er lengri útgáfan, eins og ég ætlaði að hafa greinina, en almenningur má nú ekki skrifa nema 3000 slaga minningargreinar, að bilum meðtöldum, og því varð ég að stytta þá sem mogginn birti.


Á Melum í Hrútafirði var þríbýli í nokkra áratugi um og eftir miðja síðustu öld. Þar byggðu þeir allt upp frá grunni bræðurnir Jón, Jónas og Sigurður. Þetta voru oft erfið ár en um leið ár framfara og skemmtileg voru þau líka oft; ég er viss um að Jónasi frænda mínum fannst það, því hann var hugsjónamaður og tók þátt í uppbyggingunni af lífi og sál. Þau Ella Dís kona hans hófu ung búskap og annir kölluðu fljótt að; börnin urðu fimm, þrjú þau fyrstu fædd sitt á hverju árinu, íbúðarhús var byggt og búið þröngt fyrstu árin, seinna var byggt við það, og byggja þurfti útihús og rækta tún og fjölga skepnunum.

Þegar mesta uppbyggingarstarfinu var lokið fóru félagsstörfin, framgangur hugsjónanna, að toga æ meira í hann. Hann varð því aldrei mosavaxinn á sinni þúfu; nei, ekki aldeilis, Framsóknarflokkurinn kallaði, SÍS, Stéttarsamtök bænda, sýslunefndin ... þetta voru heilmikil ferðalög og fjarvistir þegar leið á búskaparárin. Hann naut þessara starfa því hæfileikar hans lágu mjög á þessu sviði enda maðurinn greindur, rökfastur, skemmtilegur og afburða góður ræðumaður. Í öllum þessum störfum átti hann að sína góðu konu, hana Ellu Dís, sem studdi hann með ráðum og dáð og tók öllu stússinu með óbilandi jafnaðargeði. En það var ekki aðeins að Jónas færi af bæ og hitti menn; gestagangur var alltaf mikill því þau hjónin voru miklir höfðingjar og skemmtileg heim að sækja.

Félagsstörfin voru ekki tóm alvara. Í nokkur ár var hann ein aðalsprautan í blómlegri leiklistarstarfsemi Ungmennafélagsins Dagsbrúnar í Hrútafirði þar sem settir voru á svið gamanleikir og sýndir í Reykjaskóla og nærsveitum við góðar undirtektir. Einnig var hann ómissandi á þorrablótum, gjarnan með annál um helstu atburði liðins árs, og ógleymanlegur er mér eftirhermuþáttur sem þeir sömdu og fluttu eitt árið hann og Jón faðir minn. Á þorrablótum og öðrum mannamótum í sveitinni fengu menn einnig að kynnast því hvað hann var góður hagyrðingur. Þá má nefna að hann var mikil hestamaður og átti nokkra afbragðs góða hesta, frægastur var stóðhesturinn Stjarni. Rétt eins og með hestana vildi hann líka vera vel akandi. Bronkójeppinn hans var með þeim fyrstu í sveitinni og annar jeppi engu síðri tók við af honum.

Árið 1989 brugðu þau hjón búi og fluttu til Reykjavíkur. Þau keyptu glæsilega og rúmgóða íbúð í Sólheimum og undu sér þar vel. Það var alltaf gott að koma til þeirra og mér fannst það aðdáunarvert hversu vel þau fylgdust með öllum sínum afkomendum og glöddust innilega yfir þroska þeirra og hæfileikum. Jónas unni sveitinni sinni og jörðinni og það var örugglega með eftirsjá sem hann fór frá Melum en nokkur léttir var þó að því að sonur hans, Hrafn, Krummi, tók við búskapnum. Þeim mun þungbærara var það því þegar Krummi varð að bregða búi á Melum og lést fáum árum seinna. Þá mun hann hafa heitið því að koma ekki framar að Melum. En þegar dætur hans Elsa og Ína reistu sér sumarbústað á einhverjum fallegasta bletti jarðarinnar stóðst hann ekki mátið og kom norður til vígsluhátíðar í sumar. Hann lét það ekki duga, því í farteskinu var hann með nafn, Gilsbakki heitir bústaðurinn eftir bænum í Miðdölum þar sem móðir hans Elísabet, amma okkar Melakrakkanna, ólst upp. Þetta var ógleymanleg kvöldstund í hinu glæsilega nýja húsi við Ormsárgil.

Menn eins og Jónas frændi minn eru stundum kallaðir gleðimenn. En líf slíkra manna er auðvitað ekki tóm gleði frekar en annarra. Hann var ekki skaplaus, skapið átti það satt að segja til að hlaupa með hann í gönur, og ekki ríkti nein lognmolla milli bræðranna. Heilsuhraustur var hann ekki og síðustu tíu árin eða svo má segja að hann hafi verið farinn að heilsu. Sárt var það fyrir þennan bókhneigða mann þegar hann hætti að geta lesið eftir eitt áfallið. Frá sonarmissinum var áður greint. En þrátt fyrir allt þetta andstreymi varð hann ekki önugt gamalmenni, heldur horfði til baka án kala til nokkurs manns. Þarna fór maður sem var sáttur við hlutskipti sitt og vildi öllum vel.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Svo segir máltæki sem mun vera upprunnið í Afríku og vísar til þess hversu margir eiga hlutdeild í uppeldi og menntun hvers barns. Sextán urðu börn þeirra Melabræðra alls og þeir létu sér sannarlega annt um allan hópinn. Ég vil að leiðarlokum þakka Jónasi föðurbróður mínum hans stóra hlut í uppeldi mínu og æsku og um leið færi ég Ellu Dís, dætrum þeirra og fjölskyldum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Web Counter