27.8.06

Vitleysingar hafa sem rithöfundar dálítið skemmtanagildi - þrátt fyrir allt

Fréttablaðið er í dag með stutta hugleiðingu eftir Álfrúnu Pálsdóttur um kindur og hættuna sem þær skapa á þjóðvegum landsins. Þetta er athyglisverð lesning:

"Þar sem ég þeystist um sveitir landsins sem farþegi í bíl gat ég gefið náttúrunni gaum og það eina sem ég virtist sjá voru kindur. ... Kindur hafa sem dýr lítið skemmtanagildi enda gera þær lítið annað en að standa kyrrar, bíta gras og gefa frá sér hljóð stöku sinnum. En sveitin er full af þeim, hvert sem maður lítur er kind að gera nákvæmlega ekki neitt gagnlegt og stígur ekki beint í vitið. En á hverju einasta sumri er þúsundum kinda sleppt lausum út í náttúruna þar sem þær spranga um fjöll og firnindi og valda mörgum ökumanninum vandræðum á þjóðveginum enda láta þær bíla ekkert á sig fá."

Líklega er það trú þeirra sem stjórna fréttablaðinu að heppilegt sé að láta vitleysinga skrifa ofan í vitleysingana. Ég "virðist ekki sjá" aðra skýringu á þessum ósköpum, svo ég noti orðalag höfundar.

Web Counter

26.8.06

Fallegur maður og fönguleg kona á Ægisíðunni

Ég hljóp Ægisíðuna í gær út í Nauthólmsvík og til baka. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að sem ég hleyp þarna í austurátt, farin að nálgast víkina, sé ég aftan á svona ljómandi lögulegan ungan mann. Hann var ber að ofan, enda heitt og logn, og með sítt, ljóst og liðað hár (minnti á Smith hennar Samönthu í Sex and the City). Ég kunni nú ekki við að gá hvort hann væri jafn sætur að framan og aftan þegar ég hljóp framúr honum (enn hleyp ég fram úr gangandi vegfarendum). Svo kom ég í Nauthólsvíkina í logninu og blíðunni, sólarlaust að vísu. Þá sé ég að þar hefur þessi líka föngulega stóra kona tekið sig til og vaðið út í sjóinn á ylströndinni. Væskillinn maðurinn hennar beið fullklæddur í flæðarmálinu með fötin hennar. Sem ég stend þarna og dáist að konunni, kemur ekki ljóshærða goðið og býður góðan dag sisona og hvað veðrið sé gott og ég veit ekki hvað. Og laglegri að framan en aftan ef það var hægt.

Ég fylltist bjartsýni og nýrri tiltrú á unga menn yfirleitt þegar ég skokkaði heim á leið.

Web Counter

25.8.06

Spakmæli dagsins

Það erfiðasta við það að vera einn er sennilega að vera einsömul.

Getið nú hver lét þessi fleygu orð falla!

Web Counter

24.8.06

Tæknin að stríða

Ósköp getur maður verið lengi að fatta sumt, eða tekst það bara alls ekki. Nágranni minn benti mér á skýringuna á ótrúlegum tíma mínum í títtnefndu hlaupi. Við Óli höfum óvart víxlað númerum og örflögum þannig að ég fékk tíma hans og hann minn. Samt sem áður er ég ánægð með tímann, heilmikil bæting síðan í fyrra, en hrapa að vísu úr öðru niður í 20. sæti á úrslitalistanum.

Hér er svo mynd af afrekskonunni. Og vænti ég að þar með sé þetta tekið af dagskrá.

Web Counter

22.8.06

Stórglæsilegur árangur minn í Reykjavíkurmaraþoninu ...

er nokkrum mínútum aukinn. Það stenst sem sé ekki að ég hafi farið þetta á 55:14 eins og segir á úrslitasíðunni og verið í öðru sæti í mínum aldursflokki. Óli, sem mörg vitni eru um að kom nokkrum mínútum á undan mér í mark, er á þessum lista sagður með tímann 1:03:25, en var að sögn vitna og hans sjálfs rétt yfir 50 mín. Þetta er mjög dularfullt mál en skemmtilegt. Það eru aðeins hinir örfáu en dyggu lesendur mínir sem fá að vita sannleikann - aðrir geta óáreittir haldið áfram að velta fyrir sér hver hún er, þessi nýja stjarna á hlaupahimninum.

Web Counter

21.8.06

Blandað á staðnum

Í gær fór ég ein upp í Heiðmörk á berjamó. Veðrið var yndislegt og ekki spillti fyrir að ég fann þónokkuð af bláberjum. Það kom mér þægilega á óvart því ég bjóst við hörmulegu berjasumri eftir allar rigningarnar. Ég frysti helminginn af berjunum og bjó til sultu úr restinni. Ég held svei mér að bláberjasulta sé besta sultan, hún er kröftugri og bragðmeiri en aðalbláberjasulta og hefur líka meiri karakter en rifsberjahlaup og sólberjasulta.

Í eftirrétt í kvöld fékk ég svo hraðútgáfu mína af ris a la mande, blandað á staðnum:
Hrísgrjón (sem voru með pottréttinum sem ég eldaði í kvöld)
ný bláberajsulta eftir smekk
rjómi eftir smekk (beint úr fernunni).

Ég sé að ég er svolítið í sporum litlu gulu hænunnar þessa dagana, tíni berin sjálf, bý til sultuna og ét hana ein. Eini munurinn að "hin dýrin" hafa ekki girnst berin, sultuna eða eftirréttinn.

Web Counter

19.8.06

Reykjavíkurmaraþon

Ég skrölti tíu eins og ég kalla það. Ég hef auðvitað verið í ræktinni að undanförnu svo þetta var engin ofraun. Tíminn held ég að hafi verið alveg í mínum stíl, ca. 63 mínútur. Ég er þessi týpa sem gefur sér ekki undir 60 mínútum í 10 km. ferðalag. Sem er í rauninni skynsamlegt ef út í það er farið. Mér finnst þetta bara ágætt. Ef ég tek dæmi af "Laugarvatnsstelpunum" sem voru flestar íþróttafíklar á yngri árum þá eru þær margar búnar að stríða við ýmsa íþróttatengda áverka og slit, eins og liðþófa, álagsbrot og fleira og fleira. Ég sparaði mig hins vegar til efri áranna og var sú eina sem "hljóp" núna! Sjö, níu þrettán.

Sem sé, bara ánægð með minn hlut!

Web Counter

17.8.06

Hentirðu sósunni ...?

Ég sá í ræktinni í morgun brot úr raunveruleikaþætti, innlimað í þátt Mörtu Stewart sem að þessu sinni snerist um "roasting". Raunveruleikaþátturinn er um kokk sem reynir að kenna ungmennum kokkamennsku og um alla þá miklu konflikta sem við það geta skapast. Brotið hófst á háværri, reiðiþrunginni upphrópun ungs manns: Hentirðu sósunni! - Auðvitað; enginn fær að stinga puttanum í sósu hjá mér, hreytti kokkurinn út úr sér. Svona héldu þeir áfram að þrasa dágóða stund um sósuna en þá var brotið guði sé lof búið og Marta tók við aftur, ekki svo sem að það hafi verið nein sérstök skipti.

Sósudramatíkin plús roast-þema Mörtu rifjaði upp fyrir mér raunverulegt sósu- og roast-atvik af heimili mínu. Þetta var á gamlárskvöld fyrir nokkrum árum. Ég var með svínasteik með pöru í aðalrétt, eiginlega í fyrsta skipti sem ég spreytti mig á því, og hafði tekist svona ljómandi vel, paran stökk og allt það. Ég var búin að hella soðinu í pott og sía það, setja steikina inn í ofninn aftur og ætlaði að snúa mér að sósugerðinni. Sem ég sný mér við sé ég að Óli stendur kampakátur með sósupottinn tóman og tandurhreinan í lúkunum og er að þurrka hann, óskaplega glaður yfir (óvæntum) dugnaði sínum í eldhúsinu. Ég ætla ekki að reyna neitt að lýsa yfirhalningunni sem hann fékk fyrir "hjálpina".

Það er merkilegt, en svipað atvik henti á heimili systur Óla um þetta leyti. Maður hennar hugðist búa til humarsúpu og hafði í því skyni soðið humarskeljar og fleira góðgæti í stórum potti klukkustundum saman. Hann fékk frúna til að hjálpa sér að sía dýrmætt soðið frá skeljunum og er rétt að snúa sér við þegar hann sér að hún stendur með pottinn tóman og er að þurrka hann en soðið, og þar með súpan, farið í vaskinn.

Nokkru áður en þessi atvik urðu gerðist það, á nær sama tíma, að systkinin voru send út í búð og áttu m.a. að kaupa niðursoðna tómata en komu til baka með Hunts-tómatasósu í dós, og þótti okkur "svilunum" mikil heimska.

Það er margt líkt með skyldum.

Web Counter

16.8.06

Skrautlegt lið

Veit ekki hvort mig langar eða langar ekki út á galeiðuna aftur eftir að hafa lesið þessa ágætu lýsingu frábærs bloggara og útvarpskonu. Líklega þó ekki.

Web Counter

15.8.06

Flugdrekahlaup á Ægisíðu

Við Lilla systir fórum á ylströndina í dag í góða veðrinu með nokkrar dætur okkar. Svo tókum við systur góða rispu um Skjólin og -vallagöturnar. Þegar Lilla var farin hjóluðum við Óli austur í Fossvogskirkjugarð. Sólin var komin langleiðina niður að sjónum á bakaleiðinni og það voru þónokkrir flugdrekar á iði á Ægisíðunni. Við tókum sérstaklega eftir tveimur litlum systkinum með mjög sprækan dreka. Ég er viss um að þau muna alltaf þessa stund, flugdrekann, vindinn, sólina, sjóinn og grænt grasið á Ægisíðunni.

Web Counter

10.8.06

Byggðir og óbyggðir

Nýja IKEA-skemman í Garðabænum er í rauninni uppi í Heiðmörk. Hugsið ykkur, að fara í IKEA í Heiðmörk! Þar ekki langt frá er Hvaleyrarvatn, til skamms tíma afskekkt, og ekki langt frá vatninu ekur maður allt í einu fram á fótboltavöll, grænan og fagran, og ekkert nema hraun allt í kring. Þetta upplifði ég í smábíltúr eftir kvöldmat í gær. Þetta var svolítið súrrealískt, get ekki neitað því.

Því miður fundum við ekki sæta sumarbústaðahverfið þeirra Hafnfirðinga sem við ókum í gegnum fyrir nokkrum árum. Kannski það sé orðið að miðju einhvers nýja hverfisins?

Web Counter

8.8.06

Harpa og Hús og híbýli leggja saman

Enn leggur Harpa blessunin mér til efni. Á föstudaginn var hún með enn eina langlokuna í Fréttablaðinu um ástamál. Eftir fimbulfamb um það hvað fólk sem vinnur við kvikmyndagerð er mikið skorpufólk, bæði í vinnu og ástamálum, koma lokaorðin: "En hvað sem öðru líður verður að teljast skiljanlegt að með fólki í þessum stífu verkefnum takist ástir [komst einhver roskinn prófarkalesari í þessa setningu, mér finnst ólíklegt að stúlkan hafi fundið þetta orðalag sjálf], fólkið eru jú saman öllum stundum og kynnist á ótrúlega marga og mismunandi vegu sem gerist sjaldanst[svo] hjá hinum venjulega vinnumanni. Nú er til dæmis nótt hjá mér og dagur hjá ykkur... eigið góðan dag." Prófarkalesarinn hefur örugglega verið dáinn, hættur, farinn eða ekki nennt að vera lengur með í leikritinu þegar kom að því sem er fyrir aftan fyrri hornklofa mína, annars hefði hann kippt sögninni með fólkinu í eintölu og bjargað vinnumanninum frá merkingarbrengluninni (sem ég hef stundum orðið vör við hjá smábörnum).

Hlýtur fólk bráðum sömu örlög og people? Það eru fleiri en Harpa sem hallast að sögn í fleirtölu. Á forsíðu tímaritsins Hús og híbýli stendur (ég held að ég muni þetta orðrétt): "Fólkið sem settu garðinn á vegginn". Ég er viss um að ritstjórinn sem var rekinn frá þessu tímariti hér um árið fyrir óléttu, Lóa Aldísardóttir, hefði ekki látið þetta henda sig. Blaðið var fjandi gott hjá henni, bæði vel frá því gengið og skemmtilegur frjálslegur andi yfir því.

Web Counter

3.8.06

Í sporum Sigurjóns digra, eða Borðeyrarhátíð 2

Þið munið hann í Með allt á hreinu, þar sem hann kvartaði yfir vörusvikum hljómsveitarinnar: Hvar er Dýrleif og töfrabrögðin, hvar ... (var það ekki þannig) - hvað um það. Einhvern veginn þannig leið mér á Borðeyrarhátíð um daginn þegar Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvalds upphófu skemmtiatriði sitt. Ég veit að Raggi Bjarna er rúmlega sjötugur. Ég heyrði líka um daginn að Raggi Bjarna hefur alltaf átt erfitt með að muna texta. Ég heyrði líka þá að Raggi Bjarna á gommu af gulnuðum textablöðum(kannski í hagkaupspoka) sem hann grípur til þegar allt um þrýtur. Þess vegna varð ég öskureið þegar karlhróin spiluðu á það á umræddri hátíð að Raggi á svona gasalega erfitt með að muna texta! Hann byrjaði á hverju laginu á fætur öðru en rak svo í vörðurnar og lét kerlingakrans úr sveitinni bjarga sér. Ég veit hins vegar að hann var keyptur á staðinn fyrir heilmikinn pening. Þá var lágmark að hann tæki helvítis textapokann með. Ef hægt er að tala um vörusvik þá var það þarna. Ég er viss um að Ellý Vilhjálms og Svavar Gests hefðu snúið sér við í gröfinni ef þau hefðu heyrt þetta. Raggi Bjarna og hinn, nenni ekki að nefna hann, ættu að skammast sín. Þetta var líka svo mikill óþarfi því Raggi er flottur enn - ef hann vandar sig.

Web Counter