30.12.08

Sýnishorn





Kalli bað um myndir og fékk slatta. Hér eru þrjár.

Web Counter

20.12.08

Risvandamál úr sögunni

Þetta með risvandamálið var sem sé brandari, vegna þess hversu langan tíma það tók hér í góðærinu að fá leyfi, gera nýja skráningartöflu, eignaskiptingasamning, burðarvirkisteikningu að ég tali nú ekki um arkitektsteikningu (samkvæmt skiplagi mínu) að hækkuðu risi hér á Kvisthaganum, þaðan af er dregið þetta orð, svona til að forðast allan leiðan misskilning. Nú er þetta vandamál sem sé úr sögunni. Heimasætur báðar sváfu í fyrsta skipti í sínum flennistóru herbergjumn í nótt og fjölskyldan er afar ánægð með hið nýja ris. Annað kvöld er áætlað að tilbehör verði flutt inn í nýju stofuna sem er milli herbergjanna og píparinn, sem er ekki sá áreiðanlegasti í heimi (eða eru kannski allir píparar svona?) ætlar að koma á mánudaginn og gera sturtu og vask klár; enn er bara hægt að pissa þar. Þeir fáu sem þetta blogg lesa eru velkomnir að líta inn og taka framkvæmdina út. Ég get ekki lofað smákökum eða slíku en sama ljúfa viðmóti, glaðværð og gáfulegu samræðum sem áður. Sem sé, ef ykkur er mál, að hitta okkur hér eða pissa, verið þá velkomin!

Web Counter

8.12.08

Frábær hugvekja

Lesið pistil Þórarins Þórarinssonar hér.

Web Counter

2.12.08

Gamla Melahúsið 7 (stofan)

Burt með allt nöldur í bili og hverfum aftur í tímann - í litla asbesthúsið sem nú er horfið. Rifjum upp hvernig var í stofunni, segjum að hún hafi verið hjarta hússins (eldhúsið þá munnur og magi).

Stofan var á hægri hönd þegar kom inn á ganginn. Á henni var horngluggi sem vissi í suður og vestur (þess má til gamans geta að ég var mörg ár að venjast áttskökkum plássum síðar, svo sem Laugarvatni og Reykjavík). Á suðurveggnum, austan við gluggann, var stofuskápurinn sem geymdi spariborðbúnað heimilisins og sitthvað fleira. Ég held að pabbi hafi keypt skápinn á uppboði, hann var þarna alveg frá því að ég man eftir mér. Skápurinn var svolítið eins og kirkja í laginu; hægri hlutinn, turninn, var með einni hurð og í honum voru nokkrar hillur. Í efstu hillunni voru geymd spil, bréf og svoleiðis dót, þar á meðal happdrættismiðarnir frá Möltu sem Jón Jónsson fékk einhvern tímann í pósti, og enginn gat útskýrt hvers vegna. Hillurnar þar fyrir neðan geymdu kaffistellið hennar mömmu, steintaustell með gráu blómamynstri. Hún á enn úr þessu stelli rjómakönnuna og tertudiskinn. Neðst var geymdur bunki af Burda-blöðum, en þau voru alger lífsnauðsyn á öllum Melaheimilunum í þá daga. Þær voru saman um eina áskrift, konurnar þrjár, og um hana var þetta fína samkomulag. Þegar til stóð að sauma eitthvað var einfaldlega farið yfir í hin húsin og fenginn bunki af nýjustu blöðunum og svo var farið í gegnum sameinaðan bunkann þar til rétta sniðið fannst. Svona hringsóluðu blöðin á milli. Svo ég komi mér aftur að efninu, þá var í lægri og vinstri hluta skápsins hólf með gleri fyrir þar sem helstu glerdjásn heimilisins voru geymd, en þau voru: glasasett með könnu úr þunnu grænu gleri með möttum og gylltum röndum, annað glært glasasett með könnu, ískorin rós prýddi það og loks karafla og snafsaglös (staup) sömu gerðar og síðarnefnda glasasettið. Glösin og könnurnar notuðum við eingöngu á stórhátíðum og það var mikil tilhlökkun að fá að drekka úr þeim. Gestkomandi karlar fengu einstöku sinnum brennivín úr staupunum. Í hólfinu var líka skrautbolli og eitthvað fleira brothætt sem mamma hélt sérstaklega mikið upp á. Undir glerhólfinu var annað hólf með hurð fyrir sem opnuð var að ofan. Í því voru geymdar þær bækur sem sjaldnast voru lesnar. Dúkar voru ofan á skápnum. Fyrst man ég eftir tilbúnum innfluttum dúkum úr einhverju gerviefni, gegnsæjum í grunninn með ógegnsæju mynstri, áferðin á því var svolítið lík flaueli eða filti. Ég man bæði eftir gulu- og ljósbláu mynstri. Slíka dúka hef ég ekki séð nema þarna en þeir hljóta samt að hafa verið keyptir í K.F.H.B. Seinna saumaði ég dúk og tvær dúllur í stíl hjá Jennu (handavinnukennara stúlkna í Barnaskólanum á Borðeyri) sem fengu að prýða skápinn, dúkurinn niðri og dúllurnar uppi. Tveir litlir kristalsvasar voru uppi á skápnum og í þá setti mamma stundum blóm úr garðinum á sumrin. Það var mjög fallegt.

Fyrst þegar ég man var dívan í stofunni og fyrir ofan hann veggteppið sem mamma saumaði í Reykjaskóla, þrír drekar saumaðir með nokkrum sporgerðum og í nokkrum litum í svart ullarefni. Mamma varð seinna leið á teppinu eða það fór eitthvað að láta sig á því frágangurinn. Alltént hafnaði það uppi á lofti og gleymdist eða var talið löngu ónýtt. Áður en húsið var rifið var farið í gegnum dótið á loftinu. Þeir sem það gerðu voru ekki í vafa um hver væri mesta gersemin sem þar var grafin upp. Jú, veggteppið góða, stráheilt nema rétt á jöðrunum og litir bæði í útsaumi og efni eins og það væri nýkomið frá forverði. Nú trónir það yfir borðstofuborðinu í íbúð foreldra minna í Bólstaðarhlíð og er sannkölluð stofuprýði.

Seinna kom sófi í stofuna, svefnsófi því ekki veitti af að nýta vel öll herbergi hússins.

Tveir svolítið lasnir hægindastólar voru í stofunni þegar ég man fyrst, líklega keyptir um leið og skápurinn. Skipt var á þeim og öðrum nútímalegri með tekkörmum og -fótum. Ég man það síðast eftir gömlu stólunum að við krakkarnir vorum að hoppa á þeim uppi við gömlu fjárhúsin. Ég man lítið eftir myndum á veggjum fyrr en pabbi keypti af farandsala eftirprentun af Heklumynd Jóns Stefánssonar og amma gaf svo syni sínum í fertugsafmælisgjöf málverk frá Þórsmörk með haustlitri hríslu í forgrunni. Einhverjir sem þóttust hafa vit á list sögðu að listamaðurinn væri frekar ófínn en við kærðum okkur kollótt og fannst myndin falleg. Hún er enn til.

Borstofuborð og -stólar voru í stofunni, líkast til á miðju gólfinu. Það fór ekki mikið fyrir borðinu óstækkuðu, platan var ferningslaga og féll saman á hjörum um miðjuna en svo var hægt að draga hana út og stækka þannig borðið um helming, svo að þrír komust fyrir sitt hvorum megin og svo auðvitað einn við hvorn enda, stundum vorum við þó fleiri. Stækkunin kom sér líka vel þegar saumakonan móðir mín var að sníða. Borðstofustólarnir voru upphaflega með flöskugrænu upphleyptu plussáklæði sem upplitaðist illa og varð eiginlega enginn litur (ég veit litinn af því að það sást í efnið undir setunni). Ætli þeir hafi verið nema fjórir, kannski sex?

Þegar sjónvarp kom var það haft í suðausturhorninu, minnir mig. Þar fyrir ofan, á austurveggnum, voru hansahillur eins og þá voru tísku, fullar af bókum því við vorum mikið bókafólk og alltaf gefnar margar bækur á jólum.

Fyrstu gardínur sem ég man voru rósóttar með rykktum köppum. Seinna komu nútímalegri brún- og hvítofnar gardínur úr ullarefni og kappar með brautum eins og þá tíðkaðist. Á gólfinu var í fyrstu blár línóleumdúkur en svo lasnaðist hann og þá var ljóst ullarteppi lagt yfir. Það reyndist erfitt að halda því eins hreinu og húsmóðirin hefði kosið.

Litir á veggjum: Man fyrst eftir þeim hverju í sínum litnum. Seinna minnir mig ljósbleikir og loks ljósgráir.

Klifurblóm, einhvers konar flétta líklega, var í potti við norðurvegg stofunnar og komst langleiðina hringinn upp við loftið fyrir rest. Seinna var hún fjarlægð.

Þetta var lítil og hlýleg alþýðustofa, ekki fullkomin stássstofa, til þess vorum við of mörg og húsið of lítið. En ótrúlega gat hún samt orðið fín, ekki síst um jól, þegar allt var nýþvegið, skreytt og dúkað. Þá varð hún okkar veislusalur.

Web Counter