28.5.07

Allt í drasli

Slíkt þykir ekki gott á heimilum en rusl og drasl úti virðist vera "inni" núna. Ægisíðan, Nauthólsvíkin og svæðið þar fyrir austan kemur illa undan vetri. Eða kannski fyrsta ári nýja borgarstjórnarmeirihlutans. Það hefur ekkert verið hreinsað meðfram stígnum á Ægisíðunni; þar ægir saman þara- og spýtnabraki, grjóti, skít, plasti og bréfarusli. Fjaran er full af spýtnabraki, plasti og öðru drasli. Ég keyrði Suðurgötuna í gær, fallegustu götuna í Reykjavík. Ég held að hún hafi ekki verið sópuð í vor. Ég fór í yndislega gönguferð í Öskjuhlíðinni í dag með dóttur minni og vinkonu hennar. Okkur blöskraði ruslið og draslið. Tómir plastbrúsar undan guð má vita hverju, einnota grill, bjórdósir og alls kyns aðrar umbúðir skreyttu eitt hólfið í "gjánni" - líklega úr partíi frá í fyrra eða kannski hitteðfyrra. Þegar við vorum að koma upp úr "gjánni" að Keiluhöllinni tók steininn úr. Vírar, net, teinar, pokadræsur - tveir tómir pokar undan steinum frá MB-Vallá - kannski að Árni Johnsen hafi hent þeim þarna? Við Keiluhöllina sjálfa var fullt af timbri, vörubrettum og slíku dóti, eins og hráviði um allt.

Þegar maður upplifir svona reynir maður að finna einhverja skýringu. Getur þetta verið vegna þess að það kemur enginn út úr bílunum lengur? Finnst fólki umhverfið fyrir utan bílinn vera einhvers konar blindur sjór, gímald sem gleypir við öllu og ekki þarf að hafa áhyggjur af af því maður kemur þangað aldrei, eða í mesta lagi einu sinni á ári til að halda villt partí í Öskjuhlíðinni, sem maður passar sig á að heimsækja aldrei aftur?

Samt er eins og þversögn í þessu - mér sýnist t.d. miklu minna rusl núna með fram veginum fyrir norðan en var þegar ég var krakki. Kannski er skýringin sú að það er lengi búið að reka stífan áróður fyrir hreinu og fögru landi - úti á landi - en menn fatta ekki að Reykjavík er líka land.

Það er sektað fyrir of hraðan akstur, fyrir að nota ekki belti, fyrir að tala í farsíma, fyrir að leggja ekki rétt eða borga ekki í stöðumæli. Nú er kominn tími til að svífa á helvítis sóðana sem láta hamborgaraumbúðirnar gossa út um bílgluggann á Miklubrautinni (sá það sjálf) eða djúsfernurnar fjúka frá 10-11 yfir til mín og SEKTA ÞÁ.

Web Counter

22.5.07

Ingibjargarfóbía íhaldsins

Voða er það nú fyndið hvað sumum á mogganum og annars staðar í sjálfstæðisflokknum er illa við Ingibjörgu Sólrúnu. Björn Bjarnason segir að hún sé sjálfhverf - einhverrra hluta vegna datt mér í hug þetta með að kasta steini úr glerhúsi! Eða skáldsagan um það hvernig Ingibjörg gæti orðið forsætisráðherra á miðju tímabilinu! Er þetta einhver kvennafóbía, svona svipað og hommafóbía? Sumir skýra þetta með sárindunum frá því þeir misstu borgina ("sína") um árið. Það er að vissu leyti skiljanlegt, þegar hugsað er til þess hvernig þeir fengu hana aftur - steinrunninn kerfiskarl verður að reiða sig á einn yfirmáta smeðjulegan og örugglega tækifærissinnaðan framsóknarmann (sem getur hvenær sem er flúið flokkinn í feitara embætti eins og hinir ungu og efnilegu strákarnir).

Web Counter

15.5.07

Stjórnmálafræðingar og aðrir álitsgjafar

Þið kannist við þá. Þeir verða æ meira áberandi eftir því sem nálgast kosningar og blómstra svo, rétt eins og sumar fágætar kaktustegundir, eina nótt, kosninganóttina. Reyndar eru eftirhreytur meðan stjórnarmyndunarviðræður fara fram. Með auknum aldri og þroska hef ég tekið æ betur eftir því hvað flest það sem þessir menn segja er yfirleitt ófræðilegt, oft staðreyndir sem eiga að vera hverjum manni ljósar eftir eins og fjóra til fimm vetur í grunnskóla. Sem dæmi get ég nefnt að einn lýsti því yfir, í fyrra vetur minnir mig, að rúmlega 50% væri meira en helmingur! Önnur hlið á þessu er svo hvernig fréttastofurnar matreiða "fróðleikinn". Í gær var sagt frá því í helstu fréttum að sagnfræðingur segði að fordæmi væru fyrir því að stjórnarsamstarfi hefði verið hætt með jafn nauman meirihluta og nú. Ég fiskaði hana upp af vef ruv og dæmið fyrir ykkur:

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, segir að stjórnarskipti hafi orðið við aðstæður eins og nú eru, fleiri en eitt fordæmi séu fyrir því að 1 þingmanns meirihluti teljist ekki nóg til að halda áfram sama flokkasamstarfi í ríkisstjórn.
Guðni nefnir að áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf hafi heldur ekki orðið þegar Viðeyjarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks náði 1 manns meirihluta. En sitji þessi stjórn Sjálfstæðiflokks og Framsóknar yrði það met.
Áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf hafi heldur ekki orðið þegar Viðeyjarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks náði 1 manns meirihluta.
(Hér lýkur tilvitnun)

Hvað verður næst? Stjórnmálafræðingur segir að Davíð Oddsson sé seðlabankastjóri. Sagnfræðingur segir að Halldór Ásgrímsson hafi verið formaður framsóknarflokksins mjöög lengi! Ólafur Þ. Harðarson telur að Jónína Bjartmars sé mjög svekkt.

Web Counter

7.5.07

Pólitískt próf

Ég tók þetta próf sem á að sýna hvar maður á heima í pólitík. Útkoman:
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 6.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 10%
Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 18.75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: -1%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 20%
Það sem kemur mér mest á óvart er íslandshreyfingarblóðið í mér, framsóknarblóð vissi ég að rynni mér í æðum, en greinilega er það farið að þynnast. Annars staðfesti prófið nokkuð vel það sem ég þóttist vita; að ég sé einhvers konar krati með ólæknandi óbeit á sjálfstæðisflokknum.

Web Counter

1.5.07

Blokkablogg

Munið þið þegar allir gerðu allt sjálfir? Þegar sjálfs höndin var hollust? Konurnar voru heima og ólu upp börnin, eða leyfðu þeim að gera það sjálf, og elduðu, bökuðu, prjónuðu og saumuðu. Hvar voru karlarnir? Nú, að vinna fram á kvöld og eftir það í húsgrunninum að byggja, sjálfir. Það er svo sem óþarfi að rifja þetta upp; svo var flutt inn í húsin hurðalaus, innréttingalaus, jafnvel ómáluð. Stundum voru þau enn hálfkláruð þegar viðhald fór að verða brýnt.

Nú er öldin önnur. Engum leikmanni dettur í hug að byggja sjálfur. Það gera verktakarnir. Það er líka farið að móta borgina. Nú er ekki lengur klambrað upp lágreistum húsum eftir efnum og ástæðum og séð til hvenær verður klárað. Nei, nú verður þetta að borga sig. Það verður að gjörnýta lóðirnar og koma öllu upp á sem stystum tíma. Þá er ráðið að hafa hæðirnar sem flestar svo að gróðinn verði sem mestur og rétt eins og í bankastarfseminni er best að þetta sé sem frjálsast og reglurnar sem sveigjanlegastar. Frjálsast er þetta og sveigjanlegast í Kópavogi. Þar eru komnar nokkrar nýjar blokkir í hvert skipti sem ég hætti mér inn í bæinn. Ein hálfköruð blasir við manni strax niðri í Fossvogsdalnum og ég sá ekki betur í kvöld en að önnur eins sé að rísa við hliðina. Hvar endar þetta? Þetta er subbulegt skipulag. Gunnar Birgisson er subba.

Svo keyrði ég framhjá fínu ríksibubbablokkunum við Lindargötuna áðan. Þær eru farnar að hrópa á viðhald og fólkið varla flutt inn, sem keypti til að losna við allt viðhaldsvesen næstu áratugina.

Web Counter