31.8.07

Hrakningar og heiðavegir...

heitir ritsafn sem ég hef að vísu aldrei lesið, en titillinn, sem mig minnti reyndar að væri Hrakningar á heiðavegum og hefði átt aðeins betur við þessa færslu, kom upp í hugann eftir hrakninga mína um heiðavegi í nágrenni Reykjavíkur í gær.

Ég á ekki mjög langan bílstjóraferil að baki og undanfarin ár hef ég ekki þurft að nota bíl neitt óhóflega mikið því ég vinn heima hjá mér. Þess vegna finn ég stundum fyrir dálitlum ugg í brjósti þegar ég þarf að hætta mér út í alvöruumferðina hér í Reykjavík, ég tala ekki um "og nágrenni". En í gær brá ég mér sem sé í Smárabíó með yngri dótturinni og vinkonu hennar. Við höfðum fengið ókeypis miða frá Glitni og og okkur fannst líka sniðugt að fá okkur að borða fyrir sýninguna. Maturinn og bíóið var allt í lagi, þó að mér fyndist reyndar Smáralind voða stór og ókunnugleg, enda hef ég ekki komið þangað í marga mánuði, jafnvel ár.

Það var komið myrkur og þokusúld þegar bíóið var búið. Þá upphófust hrakningarnir. Fyrst varð mér það á að taka vitlausa beygju svo að ég stefndi upp til heiða en ekki í átt til Reykjavíkur mið- og vestur þegar ég ók frá Smáralind. Skilti leiðbeindu þó um að Reykjavík nálgaðist aftur. Þá urðu mér á önnur mistök. Í slaufunni niður á Miklubrautina tók ég stefnuna austur en ekki vestur, þó mér fyndist skiltið sýna afdráttarlaust (í myrkrinu og þokusúldinni) að þarna ætti að beygja ef maður ætlaði í mið-vesturbæ. Ég keyrði upp að Húsgagnahöll til að snúa við!

Það voru fegnar manneskjur sem stigu út úr bílnum á Kvisthaganum kl. rúmlega 10, í hér um bil heiðskíru veðri.

Um daginn fór ég með mömmu upp á Landspítala, sem er ekki í frásögur færandi, nema að á leiðinni þaðan rambaði ég á vitlausa slaufu og keyrði alla leið að hringtorginu við Suðurgötu til að snúa við. Nýi Hringbrautarhryllingurinn er þannig að ef maður ekur hann ekki hér um bil daglega er nær öruggt að maður fattar ekki réttu leiðina.

Á maður ekki bara að flytja til Ísafjarðar?

Web Counter

22.8.07

Ísafjörður og nágrenni

Við vorum tæpa viku á Ísafirði um daginn, í íbúð sem BHM leigir þar á staðnum. Þetta var frábær vika; yndislegt veður, stórkostlegar móttökur hjá Diddu og Kalla og svo öll berin!
Didda og fjölskylda voru á fótboltamóti þegar við komum. Fyrstu tveir dagarnir voru því nokkuð hefðbundnir enda réð Óli að mestu ferðinni, fórum í sund á Suðureyri, keyrðum út í Bolungarvík o.s.frv. Reyndar skruppum við á söngtónleika í bænum á sunnudagskvöldið, sem er ekki hefðbundið í okkar tilfelli.
Svo hófst opinber heimsókn okkar á Ísafirði þegar heiðurshjónin í Stakkanesi 6 komu heim. Það voru auðvitað höfðinglegar veislur eins og þeirra er von og vísa og í kaupbæti fékk Óli leiðbeiningar um grillun á nautakjöti og fleira. Svo var auðvitað farið með okkur á merkilega staði eins og aðra höfðingja. Aðalferðalagið var í Lokinhamradal. Önnur myndin hér fyrir ofan sýnir Kalla við Lokinhamrabæinn. Þarna var hann í sveit sem strákur, við ansi frumstæðar aðstæður (t.d hálfgerða baðstofu og kamar sem var að vísu í húsinu en gengið inn að utan). Hin er af okkur Diddu og Óla að dást að tignarlegu landslaginu á Lokinhömrum.
Það var alveg ótrúlega fallegt að sjá Arnarfjörðinn opnast þegar maður kom af versta óveginum. Ég ætla ekki að fara út í nánar lýsingar á því hvernig okkur Óla leið í mjósta og hæsta hlutanum af veginum sem hann Elías ástríðuýtumaður ruddi forðum. (Börn voru ekki með.) En þetta var frábær ferð í frábæru veðri og ekki spilltu frásagnir Kalla af fólki og fjöllum á þessum slóðum.
Við ætluðum að skreppa í bátsferð á Hesteyri en þegar til kom var ekkert sæti laust svo að í staðinn var farið á Bolafjall og í Skálavík. Þar tók Kalli mynd af jeppanum okkar til sannindamerkis um að Óli hefði farið þarna upp.
Daginn áður en við fórum fórum við systur á berjamó - nema hvað! Oft hefur verið blátt í nágrenni Ísafjarðar en sjaldan víst eins og nú. Á gönguferð höfðum við rekist á ótrúlega bláar þúfur rétt áður en komið er að gangamunnanum. Þar settumst við og þurftum lítið að hreyfa okkur úr stað eftir það. Við týndum þarna heilmikið af bláberjum á stuttum tíma. Innfæddir Vestfirðingar fussuðu eitthvað yfir því að týna ekki aðalbláber en við létum sem við heyrðum það ekki.
Okkur tókst að halda dálitla lundaveislu í íbúðinni (þau hjón útveguðu lundann, ekki að spyrja að því) þótt aðstæður væru dálítið frumstæðar. Lundi er, eins og annar villtur fugl, mikill uppáhaldsmatur okkar hér á Kvisthaganum. Og þessi sveik sko ekki!
Við sáum örn á vesturleið í Djúpinu og fálka (höldum við) á heimleiðinni, rétt hjá Kolbeinsá í Hrútafirði. Við komum aðeins við á Melum í bakaleiðinni og vökvuðum, nóg vatn núna! Þar var svo fínt og fallegt og grænmetisbeðið sem hún Didda útbjó um daginn svo fínt að mig dauðlangaði að vera áfram í nokkra daga.
Best að hætta áður en þetta verður eins og hjá Leifi Sveinssyni (kannski orðið það) og þakka þeim heiðurshjónum enn einu sinni fyrir okkur!

Web Counter

9.8.07

Opinberunarbækur

Hér er orðið opinberunarbók notað um bækur sem mér hafa reynst mér opinberun, þetta er ekki Biblíustúdía (síðbúinn ritdómur um þá bók birtist kannski seinna). Þarna eru t.d. Íslandsklukkan (í heild) og Gerpla. Ég var í menntaskólanum á Laugarvatni þegar ég las þessar tvær sögur og ég datt í þær, lá bara uppi í rúmi og las, fór ekki í kvöldmat og vakti langt fram á nótt. Sjálfstætt fólk var líka opinberunarbók, samt enn meiri þegar ég las hana rígfullorðin. Mér dettur í hug enn ein opinberunarbók frá Laugarvatni. Sú lét nú ekki mikið yfir sér; þetta var þunnt fjölritað hefti sem Ólafur Briem hafði tekið saman með íslenskum nútímaljóðum. Þetta voru fyrstu kynni mín af flestum þessum skáldum og eiginlega þau bestu um leið, því Kristinn skólameistari kenndi kverið meistaralega. Ég varð fyrir vonbrigðum veturinn eftir þegar ég settist í íslenskudeildina þar sem ríkti allt annað hugarfar, einhvers konar napur marxismi, og það hjá Silju, þessari flinku og fínu konu. Nenni ekki að ræða það frekar.

Ég hlýt að hafa hitt einhverjar opinberunarbækur í millitíðinni en næst staldra ég við Villta svani. Hrikalega er það góð bók! Ég hafði lesið fullt af bókum eftir Pearl S. Buck heima í gamla daga (dálitlar opinberanir þar) svo saga ömmu höfundarins kom ekki svo mjög á óvart. Ég var spenntari fyrir sögu móður hennar og hennar sjálfrar og auðvitað allra mest hissa á menningarbyltingunni og því fári öllu. Mér fannst meira að segja eins og menningarbyltingin hefði náð pínu á Laugarvatn því lesturinn kallaði fram myndir af ungum mönnum veifandi Rauða kverinu og Kommúnistaávarpinu og hvað þetta nú hét allt saman. Helvítis karlinn komst meira að segja þangað! Já, það er sniðugt að nota unga bjána til að vinna ill verk!

Saga litlu strákanna frá Afganistan, Flugdrekahlauparinn, er síðasta alvöru opinberunarbókin mín. Ég fékk hana lánaða á ferðalagi í fyrra og gleypti hana í mig, gat ekki stoppað. Nú er ég búin að kaupa hana og hlakka til að lesa hana aftur.

Jú, jú, ég viðurkenni að það kom margt skemmtilega á óvart á þessum 2000 síðum eða hvað Biblían nú er. Til dæmis þessi partur úr uppskrift að tjaldbúð:

1Tjaldbúðina skaltu gera úr tíu tjalddúkum úr tvinnuðu, fínu líni, bláum og rauðum purpura og skarlati. Þú skalt vefa kerúba með myndvefnaði í dúkana. 2Hver dúkur á að vera tuttugu og átta álna langur og fjögurra álna breiður. Allir dúkarnir eiga að vera jafnstórir. 3Fimm tjalddúkanna skaltu tengja hvern við annan og hina fimm skaltu einnig tengja hvern við annan. 4Þú skalt gera lykkjur úr bláum purpura á jaðri annarrar samfellunnar og eins skaltu gera á jaðri endadúksins í hinni samfellunni. 5Þú skalt gera fimmtíu lykkjur á annan tjalddúkinn og fimmtíu lykkjur á jaðar endadúksins í hinni samfellunni og skulu lykkjurnar standast á. 6Þú skalt einnig gera fimmtíu króka úr gulli og festa dúkana saman með krókunum svo að tjaldbúðin verði ein og óskipt.

Og svo lýsingin á því hvernig var farið eftir uppskriftinni:

8Hagleiksmennirnir á meðal þeirra, sem verkið unnu, gerðu tjaldbúðina úr tíu tjalddúkum úr tvinnuðu, fínu líni, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati. Þeir glitófu kerúba í dúkana. 9Hver dúkur var tuttugu og átta álna langur og fjögurra álna breiður. Allir dúkarnir voru jafnstórir. 10Hann festi fimm tjalddúka hvern við annan og hina fimm tjalddúkana festi hann einnig hvern við annan. 11Síðan gerði hann lykkjur úr bláum purpura á jaðar annars tjalddúksins á samfellunni og eins á jaðar endadúksins á hinni samfellunni. 12Hann gerði fimmtíu lykkjur á annan tjalddúkinn og fimmtíu lykkjur á jaðar endadúksins í hinni samfellunni. Lykkjurnar stóðust á. 13Síðan gerði hann fimmtíu króka úr gulli og krækti dúkana saman með krókunum svo að tjaldbúðin varð ein og óskipt.
(tölurnar eru versanúmer sem ég nennti ekki að laga)

Web Counter

1.8.07

Hvern langar í ristilskolun?

Ekki mig, og enn síður eftir að hafa séð þetta. Furðulegt uppátæki að mynda svona athöfn og setja á Netið. Kannski þó ekki, það er fullt af fólki sem horfir á Formúluna, sem mér fyrir mína parta finnst jafnspennandi og að fylgjast með þvottavél að þvo. Það virðist vera skóli sem kennir svona skítaskolun. Flest er nú til!

Web Counter