30.7.07

Gilsbakki

Það var óskaplega gaman að vera með frændfólkinu og fleiri Hrútfirðingum á formlegri vígsluhátíð húss þeirra Elsu og Ínu á Melum núna á laugardaginn. Því miður komust ekki allir á hátíðina, meðal annars vegna sjötugsafmælis Lilju á Melum, en henni var boðið í ferð til Vestmannaeyja í tilefni af því. Henni er hér með óskað til hamingju og beðist afsökunar á fálæti vegna þessa merkisatburðar en ég lofa að bæta henni það upp fljótlega.

Skemmtilegast af öllu var kannski að hitta hann Jónas frænda í sinni gömlu sveit í þessu nýja og glæsilega húsi. Hann lék við hvern sinn fingur og rifjaði upp gamlar veislur í sveitinni, tilsvör og tiktúrur gamalla sveitunga og fleira og fleira. Og óskaplega var gamli maðurinn ánægður með þetta framtak dætra sinna. Þær fólu honum að velja nafnið. Gilsbakki heitir húsið og er að sjálfsögðu dregið af staðarvalinu, á bakka Ormsárgils, en vísar einnig, og á það lagði hann áherslu, til uppruna okkar því að móðir hans Elísabet, amma okkar Melakrakkanna, ólst upp á Gilsbakka í Miðdölum.

Það sakaði svo ekki að veðrið lék við hátíðargesti, glaðasólskin og léttur norðanandvari fram eftir degi en blankalogn þegar kvöldaði. Í gærmorgun skein sól áfram í heiði og því kjörið að ganga upp í Kamba og taka út berjasprettuna, sem lítur bara ansi vel út. Til dæmis fundum við bláber á ólíklegustu stöðum þarna upp frá.

Það var því með nokkrum trega, jafnvel öfund, að við kvöddum Ingunni eftir hádegið í gær þar sem hún flatmagaði í sólbaði á pallinum og hugðist halda áfram sinni vikudvöl.

Web Counter

26.7.07

Er mark að draumum?

Í nótt dreymdi mig að Halldór Laxness væri hjá mér í mat. Hann var að vísu orðinn nokkuð aldraður (hafði lifað sitt fegursta, ef um það var yfirleitt að ræða) en var mjög ánægður með viðurgjörning allan. Með honum var Auður dótturdóttir hans sem ég reyndi af alefli að segja til um næstu skref á rithöfundarbrautinni, hvað hefði verið gott hjá henni hingað til og hvað ekki o. s.frv. (reyndar má geta þess að mér hefur, því miður, fundist téðri Auði hafa farið aftur sem höfundi með undanförnum bókum, þrátt fyrir ofboðslegt lof gagnrýnenda, en það er önnur saga).

Nú er spurningin af hverju draumurinn getur verið sprottinn eða fyrir hverju. Líklegast finnst mér að þetta sé birtingarmynd frústrasjónar prófarkalesara sem óvart las vitlausa útgáfu af mjög vondu handriti um síðustu helgi og stendur frammi fyrir því að þurfa að lesa það aftur, lítð betra. Nema þetta sé ábending frá HKL að handan um að halda hugdjörf áfram á sömu braut við þýðingar og prófarkalestur, heimurinn geti ekki farið öðruvísi en batnandi eins og herra Altunga sagði.

Web Counter

23.7.07

Af fóstrum, skunkum (og þýðingum)

Eldri heimasætan hér á bæ varð snemma bókhneigð og hafði bæði gaman af að hlusta á sögur og spinna upp sjálf. Við bulluðum stundum ýmislegt upp úr okkur hvor fyrir aðra. Einu sinni sagði hún mér mikla átakasögu sem gerðist í leikskóla, ég man ekki þráðinn en hitt man ég, hvað ég varð hissa þegar þar kom sögu að fóstrurnar "glottu illyrmislega". Bæði var að það var tæplega í takt við hlutverk fóstranna í sögunni að öðru leyti, og svo vissi ég ekki hvar í dauðanum barnið hefði lært þetta orð. Svo var ég að taka til nokkrum vikum seinna og krakaði þá undan sófanum litla Disney-bók um Pétur Pan. Bókin hafði greinilega legið þarna nokkra hríð og þegar ég fletti henni rann upp fyrir mér ljós: þarna glotti sem sé Kobbi krókur illyrmislega á æsilegu augnabliki í sögunni (í þýðingu Guðna Kolbeinssonar).

Lion King var í miklu uppáhaldi um þetta leyti og stundum bullaði ég okkur til gamans sögu um lítinn ljónshvolp sem hélt á veiðar en lenti óvart á skunki sem gusaði á hann og þegar hann kom heim tóku öll ljónin fyrir nefið (það gerðum við líka) og sögðu: "lentir þú í skunkabæli?" Stundum þótti henni þetta of tragískt og breytti þá þræðinum á þann veg að skunkurinn var af tegundinni "ilmvatnsskunkur" sem "gusaði góðri gusu".

Þetta hvort tveggja rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var beðin að benda á góðan þýðanda smábarnabókaflokks sem á að fara að gefa út, og benti auðvitað á Guðna sem þýðir vel, vandlega og er líka fljótur að því. Svo sakar ekki hvernig hann sáir stundum um leið góðum orðum í ungar sálir.

Web Counter

16.7.07

Ráðherra í maganum?

Mig dreymdi í nótt að Ingibjörg Sólrún hefði kallað mig til að verða ráðherra, tryggingamála- nánar tiltekið. Óneitanlega fannst mér þetta svolítið skrítið og því vöknuðu ýmsar spurningar eins og:

Er þetta ekki misskilningur, vilduð þið ekki nöfnu mína, bæjarstjórann fyrir austan?

Hvernig get ég verið innan um alla þessa sjálfstæðismenn?

Hvernig get ég brosað á mynd með öllum þessum sjálfstæðismönnum?

Hvern andsk... veit ég um tryggingamál? (Reyndi að hugga mig við það að ég var nýbúin að prófarkalesa kennslubók í lögum um almannatryggingar)

Er til leiðinlegri málaflokkur en tryggingamál, af hverju fékk ég hann?

Er ég ekki allt of óreynd og vitlaus til að geta orðið ráðherra? (Varð þá litið á alla meðráðherrana og hugsað til fólks eins og Guðna og Valgerðar, Jónínu og fleiri, svo það gat varla passað)

Er ég líka þingmaður, og ef svo er, á ég ekki að láta það duga í bili?

Fæ ég bíl og bílstjóra, hvernig? (Draumurinn varð ekki nógu langur til að það skýrðist)

-------------

Fyrir hverju skyldi þetta vera?

Web Counter

13.7.07

Eftir mánaðarhlé

Ég sé að það er akkúrat mánuður frá síðustu færslu. Svo menn haldi ekki að ég sé dauð er best að skella hér inn einni stuttri. Síðan síðast er ég búin að vera hálfan mánuð í Króatíu og viku norður í Hrútafirði, var að koma þaðan í dag. Króatíudvölin var fín, svona eins og slíkar dvalir eru, ég nenni ekki að rekja það.

Aldraður faðir minn og fyrrverandi bóndi í Hrútafirði var með okkur tvo fyrstu dagana fyrir norðan. Það var orðið ansi langt síðan hann kom síðast og því var mjög gaman að fá að vera með honum þessa daga.

Fjörðurinn heilsaði fallega á föstudagskvöldið fyrir viku en laugardagsmorgunninn var öllu kaldranalegri; þokumugga á brúnum og rétt um tíu stiga hiti. En eins og pabbi sagði einu sinni við Gísla á Hofi í Vatnsdal þegar hann var að býsnast yfir kuldanum alltaf í Hrútafirði: "Það er ekki fyrir neina aumingja að búa þar." Svo bætir karl alltaf við athugasemd um það að nú séu flestir bæir í Vatnsdal komnir í eyði en búið myndarbúi víðast hvar í Hrútafirði ennþá. Það var sem sé ekki annað að gera en að búa sig vel í hlaupa- og gönguferðir. Á sunnudeginum eftir hádegi brast á með sólskini, rétt eins og einhver hefði vitað af þeim gamla fyrir norðan og þá fórum við með hann upp að stíflu í Ormsá og skoðuðum líka Norðlingafoss sem við trúum að sé fossa hæstur í Hrútafirði - ekki þarf að deila um það að hann er fegurstur þeirra. Óli keyrði svo þann gamla suður yfir heiði síðdegis þennan dag.

Við vorum ýmislegt að sýsla fyrir utan göngur og hlaup, slá garðinn, bera á pallinn og svo voru það hannyrðirnar. Fyrst gekk ég frá krosssaumsmynd sem ég var að sauma og á sér nokkra sögu. Þannig var að þegar ég var í Reykjaskóla bjó ég til rýja-veggmynd sem var einkum ætluð litlu systur minni, Diddu. Þetta var heilmikill renningur sem skartaði myndum af uglu, pöddu (maríuhænu nánar tiltekið) og fiðrildi. Það var vani Diddu að leggjast á gólfið fyrir neðan myndina, horfa á hana (nudda jafnvel með fætinum) og söngla "ugla, padda, fiðrildi". Minnir svolítið á trans eða hugleiðslu. Jæja, svo flutti ég alfarin til Reykjavíkur, með umrædda mynd held ég, en hún glataðist. Svo var ég einu sinni sem oftar að fletta gömlum Burda-blöðum sem Krummi heitinn frændi var svo nærgætinn að henda ekki af loftinu hjá sér af því hann þekkti mig svo vel. Hvað sé ég þá nema þessa fínu mottu með þeim öllum, uglunni, pöddunni og fiðrildinu? Ég gat ekki stillt mig, tók blaðið með mér suður, fór í Erlu og keypti stramma og saumaði krossaumsklukkustreng með þessum fígúrum á. Hann er að vísu nákvæmlega helmingi minni en sá upphaflegi en litirnir eru þeir sömu og fígúrurnar skýrar. Verkið var svo vígt við hátíðlega athöfn í gær, að sjálfsögðu að Diddu viðstaddri (þau hjónin gistu hjá okkur í nótt á leið sinni í veiðitúr í Skagafirði). Ég held að stelpan hafi bara verið nokkuð ánægð með þessa endurreisn. Reyndar fylgdi þessari útgáfu verksins vísukorn sem er svona:

Uglan stendur efst með kurt.
Undir situr padda fín.
Fiðrildið vill fljúga burt.
Fædd er aftur myndin þín.

Ég byrjaði líka á lopapeysu á Óla en það er svo sem ekkert sögulegt við hana. Læt ég þá þessari stuttu færslu lokið.

Web Counter