29.12.05

Jóladagskrá sjónvarpanna og við

Það mætti halda að Ríkissjónvarpið og Skjár1 hefðu valið jóladagskrár sínar nokkurn veginn upp úr myndbanda- og DVD-skúffum þessa heimilis. Þarna var t.d. Love Actually, Skrímsli hf, Harry Potter eitthvað og sitthvað fleira. Svo er stöðugt verið að sýna Beðmál í borginni á Skjá einum; ég á safnið - með bleika lokinu!

Það sem mér fannst skemmtilegast í fjölmiðlum þessi jólin var reyndar ekki af kvikmyndataginu heldur hið sígilda verk Skugga-Sveinn í útvarpinu. Ég var svei mér búin að gleyma hvað það eru margir skemmtilegir kaflar í því stykki, bæði hnyttinn texti og afskaplega fallegur víða. Á milli verður það kannski svolítið þunnildislegt en það fyrirgefst margfaldlega þegar maður heyrir í fólki eins og Grasa-Guddu, Gvendi smala, Katli skræk og Jóni sterka. Frásagnarmáti Guddu - sagði ég - sagði hann - er algjör snilld, því miður nær útdauður. Kjartan Guðjónsson gerði henni líka alveg ljómandi góð skil. Svo voru sönglögin svo sæt og flest svo vel sungin að það var algjört jólasælgæti, sérstaklega hjá Björgvini Frans Gíslasyni og Jóhanni Sig. Mikill snillingur var annars Matthías Jochumsson, þetta samdi hann ungur skólasveinn. Kominn tími til að hann fái uppreisn æru - ég er farin að bíða spennt eftir ævisögu hans eftir Þórunni Valdimarsdóttur.

PS
Kom svo ekki Miranda úr Beðmálunum nær dauða en lífi inn á bráðavaktina í gærkvöldi! Við vorum svolítið óttaslegnar mæðgurnar (heimilisfaðirinn var í bíltúr eins og venjulega þegar þetta er á dagskrá), en eins og ég sagði - þeir fara nú varla að drepa konuna, einu sinni þegar hún kemur í þáttinn! Tveimur öðrum persónum úr þessari ágætu seríu brá svo fyrir í öðrum sjónvarpsþáttum í gærkvöldi. Þetta er lítill heimur, sjónvarpsheimurinn.

Web Counter

22.12.05

Fjölmenningarhvað?

Þetta er eiginlega uppáhaldsnútímaþjóðsagan mín. Líklega af því að ég er svo mikið jólabarn:

Verslanamiðstöð í Japan setti einu sinni upp stærðar útstillingu sem sýndi skælbrosandi jólasvein, krossfestan!

Nánar um uppruna og afbrigði þessarar sögu hér

Web Counter

21.12.05

Óskiljanlegt verðlag - eða hvað?

Við erum alltaf að kvarta yfir verðlaginu og alltaf að berast fréttir frá löndum þar sem verð er miklu, miklu lægra á mat og öllu. Fákeppni er kennt um, og auðvitað sjóðbullandi vitlausu landbúnaðarkerfi, en ég heyri næstum aldrei talað um afgreiðslutímann sem eina orsökina. Hér er næstum alltaf opið alls staðar og núna, mánuðinn fyrir jól er ekkert "næstum", það er opið til tíu vikum saman. Kannski þetta endi með opnum verslunum allan sólarhringinn eins og "skemmtistöðum". Skýringin yrði þá eitthvað í þá veruna að þannig yrði verslunarótt fólk viðráðanlegra eins og það hét þegar næturklúbbavæðingin fór fram þarna um árið.

Það sem ég vildi sagt hafa - fattar ekki blessað fólkið að það kostar að hafa allt opið alltaf alls staðar? Þó að krakkaálfarnir sem afgreiða fái lítið kaup.

(Heimsókn mín í Kringluna í dag varð tilefni þessarar litlu hugvekju.)

Web Counter

16.12.05

Að heilsast og kveðjast

Ég hef verið að pæla svolítið í því að undanförnu hvernig fólk heilsast og kveðst. Ég er til dæmis tíður gestur í ræktinni. Þegar ég kem (heilsa) segi ég yfirleitt góðan dag(inn) og stelpan í afgreiðslunni segir góðan daginn eða hæ. Ég tek samt betur eftir kveðjunni (þegar ég fer). Þegar ég hef sagt bless, sem ég hef gert í margar vikur, segir stelpan bæ. Svo prófaði ég í nokkur skipti að segja bæ. Hvað haldið þið að hún hafi sagt? Hún sagði bless! Þetta er orðið að dálítið pirrandi stærðfræði. Þegar maður heilsar er svarað í sömu mynt, þegar maður kveður er passað að svara ekki eins, eða hvað? Ég held að einhver verði að rannsaka þetta. Það eru örugglega ótal breytur sem skipta máli. Aldur heilsanda og kveðjanda. Augliti til auglitis eða sími (þekki einn gamlan sem segir alltaf sæl í síma en segjum það þegar hann kveður). Skiptir máli hvort fólk er jafnaldara eða misaldra, hvort er sumar eða vetur, nótt eða dagur...

Sé fyrir mér rannsakendur úti í horni með blokk að fylgjast með fólki. En er það annars nokkuð vitlausara en t.d. að mæla hrúta eða gefa út bókmenntir forsætisráðherra?

Web Counter

12.12.05

Sambandsleysi eða lögmál Murphys

Var það ekki ef eitthvað getur klikkað þá klikkar það? Þetta sannaðist með eftirminnilegum hætti í gær þegar heimasíminn gaf upp öndina rétt þegar gsm-símar heimilisins voru að geispa golunni einn af öðrum af því að hleðslutækin eru ýmist fyrir norðan (af því við erum alltaf svo hrædd um að gleyma að fara með tæki norður) eða kisa búin að naga þau sundur. Mér leið svolítið eins og í grínþættinum hjá guð má vita hverjum hérna um árið þegar Óli Jó (var það ekki örugglega hann?) sagði alltaf "þetta er sjálfvirkur símsvari hjá Óla..." þegar Steingrímur hringdi, eða var það öfugt? Jæja, manni fannst það minnsta kosti fyndið þá. Og svona þurfti ég að rjúka í símann í gærkvöldi og í dag og segja út í bláinn "æ, síminn er bilaður er að fara að fá mér nýjan, hringdu seinna". Það heyrðist sem sé í okkur en við heyrðum ekki í hringjendum. Svo fór ég að fylgjast með mikilvægu sjónvarpsviðtali á Netinu kl. 14 og í miðju viðtali, hvað haldið þið - þá hrekkur Netið út! En það kom nú fljótt aftur eins og sjá má.

Ég vona bara að ég hafi ekki misst af milljónaverkefni vegna þessara tæknilegu örðugleika.

Nú stendur þetta allt til bóta. Ég fór áðan og fékk mér nýjan heimilissíma með númerabirti, sem ég var ekki með áður, sms og guð má vita hverju. Hann hitar þó ekki kaffi, held ég, en gái að því í leiðbeiningunum, sem ég les auðvitað alltaf spjaldanna á milli, eða þannig!

Web Counter

5.12.05

Kitl

Við Ólöf vinkona mín erum síungar og til í að taka upp dynti ungu kynslóðarinnar á Netinu. Nýlegt, þori ekki að segja það nýjasta, er kitl:

Ætla:

1. Ég ætla að lesa meira eftir Kerstin Ekman
2. Ég ætla að klára I hate Christmas, til að vega upp á jólavæmninni í mér
3. Ég ætla að vera dugleg í ræktinni áfram
4. Ég ætla norður mjög fljótlega eftir áramót
5. Ég ætla að prjóna eitthvað mjög fljótlega
6. Ég ætla að ganga á Esjuna
7. Ég ætla að læra á píanó

Get:
1. Ég get hlaupið fjandi langt
2. Ég get prjónað og heklað og föndrað
3. Ég get eldað góðan mat
4. Ég get verið helvíti kjaftfor
5. Ég get haft gaman af fallegum fötum
6. Ég get endalaust gengið um Melaland
7. Ég get verið ansi dugleg í garðinum

Get ekki:
1. Ég get ekki dýft litla fingri hvað þá meira í jökulá
2. Ég get ekki hlaupið hratt
3. Ég get ekki saumað lengur - of fjarsýn
4. Ég get ekki dansað
5. Ég get ekki komist yfir lofthræðsluna (sem ég fékk með börnunum)
6. Ég get ekki sungið
7. Ég get ekki spilað á hljóðfæri

Hitt kynið:
1. Góð rödd
2. Snyrtilegur klæðaburður
3. Húmor
4. Drift
5. Þroski
6. Vönduð sviðsframkoma
7. Almenn glæsimennska í gamla stílnum

Segi oft:
1. Nú
2. Jæja
3. Jesús minn
4. Djísöss, eins og stelpurnar mínar segja (segi líka "eins og stelpunar mínar segja")
5. ... efðasé ..
6. þá má ... fara að vara sér
7. kerlingar-t-ið (þetta er mjög einkalegt, kannski bara Ólöf og Óli sem skilja)

Web Counter