12.12.05

Sambandsleysi eða lögmál Murphys

Var það ekki ef eitthvað getur klikkað þá klikkar það? Þetta sannaðist með eftirminnilegum hætti í gær þegar heimasíminn gaf upp öndina rétt þegar gsm-símar heimilisins voru að geispa golunni einn af öðrum af því að hleðslutækin eru ýmist fyrir norðan (af því við erum alltaf svo hrædd um að gleyma að fara með tæki norður) eða kisa búin að naga þau sundur. Mér leið svolítið eins og í grínþættinum hjá guð má vita hverjum hérna um árið þegar Óli Jó (var það ekki örugglega hann?) sagði alltaf "þetta er sjálfvirkur símsvari hjá Óla..." þegar Steingrímur hringdi, eða var það öfugt? Jæja, manni fannst það minnsta kosti fyndið þá. Og svona þurfti ég að rjúka í símann í gærkvöldi og í dag og segja út í bláinn "æ, síminn er bilaður er að fara að fá mér nýjan, hringdu seinna". Það heyrðist sem sé í okkur en við heyrðum ekki í hringjendum. Svo fór ég að fylgjast með mikilvægu sjónvarpsviðtali á Netinu kl. 14 og í miðju viðtali, hvað haldið þið - þá hrekkur Netið út! En það kom nú fljótt aftur eins og sjá má.

Ég vona bara að ég hafi ekki misst af milljónaverkefni vegna þessara tæknilegu örðugleika.

Nú stendur þetta allt til bóta. Ég fór áðan og fékk mér nýjan heimilissíma með númerabirti, sem ég var ekki með áður, sms og guð má vita hverju. Hann hitar þó ekki kaffi, held ég, en gái að því í leiðbeiningunum, sem ég les auðvitað alltaf spjaldanna á milli, eða þannig!

Web Counter

3 Comments:

At 12 desember, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Já það er alveg ótrúlegt hvað hægt er að gera með þessum nýju græjum. Nú ef nýji síminn lagar ekki kaffi þá hlítur að vera hægt að senda kaffivélinni sms skilaboð um að gera það hið snarasta...
Kveðjur að vestan.
Kalli kokkur.

 
At 14 desember, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Ég hef oft verið að hugsa um hversu gott það væri að hafa fjarstýringu á náttborðinu og ýta á takka til að kaffivélin fari af stað á morgnana. Svo bölva ég öllum þessum fjarstýringum sem liggja á sófaborðinu og ég ruglast alltaf á hver á við hvaða tæki, afruglara, video og sjónvarp, útvarp og geislaspilara. Það væri kannski best að hafa þetta allt í símanum, en svo getur hann bilað eins og sýndi sig hjá þér, vona að þú hafir ekki misst stóra samninginn og hvað verður þá um þægindin?
Kveðja,
Ína

 
At 15 desember, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Já Helga mín, þú hefur þó mailið ég var að senda ykkur systrum brandara sá svo að Birna sendi mér hann og ykkur systrum líka auðvitað en hvað um það. Getur verið að eftirtektin sé eitthvað farin að gefa sig? það er ótrúlegt maður yngist alltaf með árunum!!
Kv. til allra frá Elsu frænku

 

Skrifa ummæli

<< Home