25.11.05

Að vera kona

Eitthvað það alskemmtilegasta við að vera kona er að geta verið í alls konar fötum. Og - fróðlegasta bók sem ég hef kynnst á fullorðinsárum er Villtir svanir. Hér er smásítat:

Mamma hætti að ýfa á sér hárið. Stuttklippt og sléttgreitt skyldi það vera. Hún hætti að vera í aðskornum blússum og jökkum í skærum litum. Sniðlaust litleysið tók við. Sérstaklega fannst mér leiðinlegt að hún skyldi hætta að ganga í pilsum. Ég man þegar hún kom hjólandi heim stuttu áður og pilsið hennar flögraði í golunni.

Þetta hefur orðið mér mjög minnisstætt, svo mjög að ég held að það hafi oftar en einu sinni ráðið því að ég hef keypt eitthvað skært, rósótt og glaðlegt sem stelpunum mínum hefur þótt fallegt af því ég vil að þær muni mig í fleiru en mismunandi blæbrigðum af svörtu, gráu og öðrum slíkum depurðarlitum. Ég man móður mína, sístarfandi saumakonuna í mörgum litum, t.d. ljósgrænni ullardragt með hvítum yrjum eins og hefði verið stráð kókosmjöli á hana (maður varð svangur!), í ljósgulum kjól (sem hún var að sníða þegar Kennedy var skotinn), í ljósgrænu krymplíni, bleiku örugglega líka...

Þegar þið sjáið þetta úr Villtum svönum, áttið þið ykkur á áhrifum Maós, eimir ekki enn eftir af þessu dapurlega og púrítaníska litavali... er þetta ekki of djarfur brúnn litur?

Jæja, hvað sem því líður. Ég fór í Kringluna í fyrradag og fékk mér frábært hálfsítt, vítt pils í "fiftís" stílnum, silfurgrátt og svart. Get ekki beðið eftir að skarta því í boðinu á morgun.

Web Counter

1 Comments:

At 26 nóvember, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Til hamingju með nýja lúkkið á blogginu, þetta er miklu flottara en þetta hvít-órans sem var á því síðast. Hjartanlega sammála þér um litagleði og svoleiðis, það er gaman að velja sér liti að ganga í, og ég held að strákarnir séu farnir að leyfa sér þetta líka, góðu heilli.

 

Skrifa ummæli

<< Home