26.2.07

Bannaðar bækur og ekki bannaðar

Ég man í svipinn eftir þremur* bókum sem voru bannaðar börnum á Melum. Sem auðvitað varð til þess að um leið og fullorðna fólkið brá sér af bæ voru skruddurnar kraflaðar fram úr hillu og leitað að dónaköflunum. Annars lásum við allt sem okkur datt í hug, barna-, unglinga- og fullorðinsbækur. Það var mörg matarholan hjá Lilju, konu Sigga frænda, hún átti t.d. margar bækur eftir Theresu Charles og einhvern Cavling í eins bandi. Svo átti hún Rósu Bennett frá því hún var stelpa, og einhverjar skátastúlknabækur og Þrjár tólf ára telpur, um jafnöldrur í sama húsi sem bjuggu við ólík kjör (nema þetta hafi verið sama bókin, skátarnir og þessar tólf ára...).

Ég var ekki gömul þegar ég las Súsönnu Lennox (Greta Garbo lék hana víst í mynd sem var gerð eftir sögunni); ætli bókin hafi ekki verið svona 500 bls., og hún var í stóru broti. Á Hellubæjarbækur hefur verið drepið áður í þessum pistlum. Heilmikið var til af þýddum bókum, t.d. Fjötrar eftir Maugham, og bækur eftir Cronin. Grænlandsvinurinn Peter Freuchen var þarna líka en ég entist illa við að lesa hann; var ekki mjög spennt fyrir snjó og kulda. Bækur Stefáns Jónssonar voru þarna og ýmsar aðrar ævisögur sem komu út á þessum árum.

Bækur Halldórs Laxness komu ekki inn á heimili foreldra minna fyrr en ég var löngu farin að heiman; þá datt karli föður mínum í hug að kannski væri gaman að lesa Gerplu, og mamma gaf honum hana í jólagjöf. Fjallkirkjan, sem mamma fékk að gjöf fyrir fáeinum árum, er held ég eina bók Gunnars Gunnarssonar á heimilinu.

Vorið sem ég varð átta ára þurfti ég að vera hjá afa og ömmu á Hvammstanga meðan mamma var á spítala fyrir sunnan. Þá hafði amma miklar áhyggjur af mér af því að ég sótti svo í fullorðinsbækur og óholl tímarit sem Anna móðursystir mín átti í haug niðri í kjallara.

Eldri dóttir mín fermist í vor og sú yngri næsta vor. Ég hef reynt eins og ég get að fá þær til að lesa "fullorðinsbækur", bent t.d. á Sálminn um blómið (sem Stína las reyndar eitthvað í fyrir nokkrum árum), og bækur Laxness og Ísabellu Allende, svo að fátt eitt sé nefnt. Þetta hafa þær látið sem vind um eyrun þjóta og haldið staðfastar áfram að lesa sinn Harry Potter, Guðrúnu Helgadóttur, Steinsdæturnar og aðrar bækur sem eru gefnar út handa börnum og unglingum þessi árin - en í síðustu viku rofaði til: sú yngri er byrjuð á Sölku Völku og skemmtir sér vel. Guð láti gott á vita.

Ég hefði kannski átt að harðbanna þeim að lesa "fullorðinsbækurnar".

*Á Melum 1: Dóttir Rómar, á Melum 2: Messalína, á Melum 3: Klíkan.

Web Counter

19.2.07

Hvataferð klámstjarna

Það eru allir að tala um þetta stórhættulega klámlið sem er væntanlegt hingað í hvataferð, sem verður víst ægileg orgía, vændiskaupstefna, klámmyndagerð og ég veit ekki hvað. Það er bara eitt sem ég skil ekki í sambandi við þetta: Af hverju er klámframleiðslufólki sem gerir ekkert annað en að framleiða svoleiðis alla vikuna boðið í ferð þar sem það þarf að gera enn meira svoleiðis? Þiggur það yfirleitt svoleiðis ferð?

Ef t.d. ætti að bjóða mér í hvataferð fyrir að hafa verið dugleg að þýða allt mögulegt og prófarkalesa biblíuna og svoleiðis, þá mundi ég örugglega setja upp hundshaus ef hvataferðin fælist í því að "fá að" prófarkalesa t.d. vænan slurk af Kóraninum heila langa helgi (mér skilst reyndar að ekki veiti af að taka í gegn þá útgáfu, en það er önnur saga), eða þýða svo sem eins og 5000 orð af forritahjálp.

Þar af leiðir að ég trúi ekki öðru, ef þetta er hvataferð hjá klámliðinu, en að það fái að gera eitthvað huggulegt og saklaust eins og að skreppa í sund, á Gullfoss og Geysi, og kannski jafnvel í messu á sunnudeginum.

Web Counter

Einnota bækur og margnota

Ætli ég hafi ekki kynnst fleiri einnota- en margnota bókum um ævina? Það eru ansi margar bækur sem ég á einhvers staðar en langar lítið til að lesa aftur, jafnvel nokkrar sem mér hefur aldrei tekist að klára. Á ekki-aftur- listanum eru sögur eins og "Eftirþankar Jóhönnu". Þarna er líka smásagnasafn eftir sama höfund, man ekki hvað það heitir. Fleiri bækur frá húsmóður-í-Breiðholtinu-raunsæistímabilinu um 1975 eru á þessum lista. "Bréfin hans Þórbergs" var hræðilega aum bók, ræfilsleg bréf og fyllt upp í með endursögnum úr bókum karlsins. Einhver jólin fékk ég heljardoðrant eftir Birgi Sigurðsson sem ég man ekki hvað heitir en reyndist óttalega plebbaleg. Sama get ég sagt um Oddaflug Guðrúnar Helgóttur; það var í henni einhver tónn sem ég fæ best lýst með því lýsingarorði (eins og ég hef verið hrifin af flestum barnabókunum hennar). Í jólagjöf núna fékk ég enn eina vonbrigðabókina, Tryggðapant eftir Auði Jónsdóttur. Kannski bjóst ég við of miklu, eftir allt umtalið og lestur fyrstu bókanna hennar, en ég verð að segja það sama um "Fólkið í kjallaranum", sem ég las loks núna um daginn. Báðar þessar bækur set ég á ekki-aftur -listann.

En svo er einn og einn gimsteinn inni á milli. Ég fékk "Sumarljós og svo kemur nóttin" í fyrra og las hana aftur eftir áramótin. Þá var hún jafnvel enn betri. Þetta er frábærlega vel skrifuð bók, og full bæði af húmor og hlýju, bæði lýsingar á persónunum og svo þessi frábæru innskot eða útleggingar sögumanns. Ég ætla bara að vona að hann fái Norðurlandaverðlaunin, að minnsta kosti frekar en hinn íslenski höfundurinn. Mér tókst reyndar að klára fyrstu tvær bækur Hallgríms Helgasonar og fannst "Þetta er allt að koma" á köflum hrikalega fyndin og kvikindisleg en hann hefði þurft styrka hönd eða kannski vönd (svo ég noti lúðalegan orðaleik eins og hann gerir sjálfur svo oft) til að hjálpa sér að stytta bókina um helming eða svo. Ljóðmæli Hallgríms eru afspyrnuvond, eiginlega svo að maður hefur ekki brjóst í sér til að rekja það frekar og enn síður lyst á að lesa þau til að tína til dæmi því til sönnunar. Þau eru einfaldlega ort af manni sem yrkir án þess að geta það. 101 Reykjavík glímdi ég við nokkur kvöld en ákvað svo að lífið væri til að hafa gaman af því, að minnsta kosti stundum, og hætti. Sama verð ég að segja um doðrantinn sem kom á eftir, ég hætti einhvers staðar um miðja bók, glóandi af bræði yfir egótrippinu og gagnrýnisleysinu sem skein út úr hverri setningu. Hvaða forlag gefur þetta annars út?

---

Nú er hafin hjá mér dálítil atlaga að Þórbergi. Ég verð að viðurkenna að ég hef gefist upp á sumum bókum hans, t.d. Suðursveitarbókunum, þótt þær heldur langdregnar, og ekki reynt að lesa aðrar, t.d. séra Árna, en nú er ég byrjuð á því mikla verki og skemmti mér bara vel. Kannski meira um það síðar

Web Counter

15.2.07

Vetrarkyrrð

Mikil lifandis ósköp var fallegt fyrir norðan um helgina, logn frost og bjartviðri. Svo var dálítill snjór yfir öllu og hann var af mjög svo óvenjulegri gerð, í flögum frekar en kornum, sem gerði það að verkum að það glitraði á hann eins og demöntum hefði verið stráð yfir allt og þetta sat á öllum stráum líka. Úti um allt voru refaslóðir og fugla- og þegar við Ingunn gengum gamla-nýjavegarhringinn sáum við fullt af ótrúlega fíngerðum sporum í vegkantinum út að Fögrubrekku sem við giskuðum á að væru eftir hagamýs.

Auk þess að dást að þessum listaverkum náttúrunnar dáðumst við að bústað þeirra systra við ána sem er alveg að verða tilbúinn, borðuðum góðan mat og drukkum ágætis vín.

Þegar við renndum af stað upp heiðina á leiðinni suður hafði hvesst svolítið og allt var fokið af stráunum, eins og hendi væri veifað.

Web Counter

5.2.07

Verðlagseftirlit mitt og viðskiptabann við Norðurlönd

Ég skrapp í Bónus í dag, sem er varla í frásögur færandi, það geri ég líklega tvisvar í viku að jafnaði. Mér finnst nefnilega matvara og annar hversdagsvarningur nógu andskoti dýr þó maður reyni nú ekki að kaupa þetta þar sem það er ódýrast.

Ég rak augun í skilti yfir frystikistunni sem á stóð: KF (eða eitthvað svoleiðis, ekki KFHB, Kaupfélag Hrútfirðinga Borðeyri) lambalæri tilboð 878 kr. Ég veit að lambalæri hefur verið langt yfir þúsund kall lengi, svo ég ákvað að kaupa eitt, passar vel því við ætlum að skreppa norður um næstu helgi og þá verður að vera læri. Þá sá ég að það voru tvær sortir af lærum í kistunni. Mig fór að gruna margt, kippti með mér einu af hvorri sort, óð með þau að kassanum og spurði hvað þau kostuðu. Stúlkan brá lesaranum á, 1080 kr. kostaði annað og enn meira hitt. Ég sagðist ekki sátt við þetta og það endaði með því að verslunarstjórinn, unglingur en Íslendingur, kom þarna að. Ég spurði hann út í tilboðið, það kom svolítið á hann, en svo sagði hann stúlkunni að þetta væri rangt verð, það ætti að vera 20% afsláttur, sem gerir samkvæmt mínum útreikningum, 864 kr. pr. kíló.

Dætur mínar prísuðu sig sælar að hafa ekki verið með mér en þetta sýnir vel hvernig alltaf er verið að reyna að leika á mann. Tilboðsverðið látið hanga yfir vörunni og svo treyst á það að ræflarnir þori/nenni ekki að vera með neitt múður þegar kemur á kassann, eða hafi ekki vit á að gá á strimilinn.

Svo er það annað mál sem snertir viðskipti:
Ég fylltist allt í einu óviðráðanlegri löngun um daginn til að hlusta á einhverja hjartnæma og fallega norræna (vísna)tónlist, t.d. Haustvísu eftir Tove Janson. Það er lítið að fá af slíku í plötubúðum hér, telst líklega "útlent". Ég fór inn á Netið og fann fljótlega álitlega diska á einhverri netverslun, setti í "körfuna" og ætlaði að fara að gefa upp númerið á kortinu en þá kom babb í bátinn: þú ert ekki með IP-tölu frá réttu landi og mátt því ekki versla við okkur. Ég prófaði Danmörku og Svíþjóð, held ekki Noreg, enda líklegt að þeir séu enn strangari, ef þeir eru þá búnir að fatta Netið. Ég er búin að kvarta við sérfræðing minn í rafrænum viðskiptum en hann yppir bara öxlum og segir að ég geti prófað að fá mér norrænan beini (router)!

Mér finnst þetta með ólíkindum, á 21. öld og Amazon og e-bay og hvað þetta heitir búið að selja allan fjandann árum saman!

Best að hætta þessu svo þrýstingurinn fari ekki upp úr öllu valdi.

Web Counter