7.9.08

Útivistarhelgi

Nú kom loksins að því, sem svo lengi hefur verið á dagskrá, að úrval Laugarvatnsstúlkna, útskriftarárgangur 1976, hittist á ættaróðali mínu og færi í góða gönguferð. Forföll voru nokkur svo að á endanum urðum við fjórar með tveimur mökum og börnum sem lögðum af stað á laugardagsmorguninn um ellefuleytið í göngu á Geldingafell. Við gengum alla leið að fjallinu og þar sem ungu stúlkurnar voru orðnar dálítið leiðar á göngunni á hálfflötu Melafjallinu varð úr að þær færu ekki á fjallið. Óli minn kom svo á jeppanum og fór með þær niður í byggð. Við hin héldum áfram alla leið á toppinn. Útsýni var fínt í norður- og austurátt en nokkur móða og súld á Haukadalsskarði og yfir Kirkjunni en við sáum þó bærilega yfir Haukadal og vatnið. Melafjall hefur oft verið fallegt og gróðursælt en sjaldan sem nú. Gróður á Geldingafelli er ótrúlega mikill upp eftir öllu fjallinu. Sérstaka athygli mína vöktu svargráar skófir og fíngerður blaðgróður sem var að finna efst í fjallinu, áður en kom að urðinni. Þar var líka ótrúlega mikið af sveppum í fjölbreyttum litum, bleikir, rauðir og gulir.

Flóarnir á fjallinu minntu sums staðar á akra, svo sléttir voru þeir, störin þétt og liturinn bleikur eins og hjá Gunnari forðum.

Gangan á Geldingafell er ekki sérlega erfið. Ef marka má kort GEODÆTISK INSTITUT blað 34 er komið í 370 m. hæð á veginum þegar ganga hefst á fjallið. Það er 820 m. hátt.

Við gengum hratt og rösklega niður að Melum og þar var snæddur hátíðarkvöldverður eftir að dreypt hafði verið á hvítvíni sem Óli reiddi fram þegar við komum. Ég hef aldrei áður teyga hvítvín um leið og ég teygi, en mæli með því við hátíðleg tækifæri eins og þarna. Og pallurinn kom sér vel við teygingarnar!

Kvöldverðurinn endaði á írsku kaffi, vel sætu með miklum rjóma. Svo var farið í pottinn til að láta líða úr sér og þar var setið og skrafað og hlegið til klukkan rúmlega tvö.

Hópurinn var sammála um að gönguferð sem þessi væri nú orðin hefð. Takk, stelpur, sem þetta lesið. Og reynið endilega að vera með næst, þið sem misstuð af núna.

Web Counter

2 Comments:

At 15 september, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl

Það er þetta leiðindavandamál að geta ekki verið á tveimur stöðum í einu ;)

Kv.
Lilja

 
At 17 september, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Skil þig, hef einstöku sinnum lent í þessu.
Helga

 

Skrifa ummæli

<< Home