29.12.05

Jóladagskrá sjónvarpanna og við

Það mætti halda að Ríkissjónvarpið og Skjár1 hefðu valið jóladagskrár sínar nokkurn veginn upp úr myndbanda- og DVD-skúffum þessa heimilis. Þarna var t.d. Love Actually, Skrímsli hf, Harry Potter eitthvað og sitthvað fleira. Svo er stöðugt verið að sýna Beðmál í borginni á Skjá einum; ég á safnið - með bleika lokinu!

Það sem mér fannst skemmtilegast í fjölmiðlum þessi jólin var reyndar ekki af kvikmyndataginu heldur hið sígilda verk Skugga-Sveinn í útvarpinu. Ég var svei mér búin að gleyma hvað það eru margir skemmtilegir kaflar í því stykki, bæði hnyttinn texti og afskaplega fallegur víða. Á milli verður það kannski svolítið þunnildislegt en það fyrirgefst margfaldlega þegar maður heyrir í fólki eins og Grasa-Guddu, Gvendi smala, Katli skræk og Jóni sterka. Frásagnarmáti Guddu - sagði ég - sagði hann - er algjör snilld, því miður nær útdauður. Kjartan Guðjónsson gerði henni líka alveg ljómandi góð skil. Svo voru sönglögin svo sæt og flest svo vel sungin að það var algjört jólasælgæti, sérstaklega hjá Björgvini Frans Gíslasyni og Jóhanni Sig. Mikill snillingur var annars Matthías Jochumsson, þetta samdi hann ungur skólasveinn. Kominn tími til að hann fái uppreisn æru - ég er farin að bíða spennt eftir ævisögu hans eftir Þórunni Valdimarsdóttur.

PS
Kom svo ekki Miranda úr Beðmálunum nær dauða en lífi inn á bráðavaktina í gærkvöldi! Við vorum svolítið óttaslegnar mæðgurnar (heimilisfaðirinn var í bíltúr eins og venjulega þegar þetta er á dagskrá), en eins og ég sagði - þeir fara nú varla að drepa konuna, einu sinni þegar hún kemur í þáttinn! Tveimur öðrum persónum úr þessari ágætu seríu brá svo fyrir í öðrum sjónvarpsþáttum í gærkvöldi. Þetta er lítill heimur, sjónvarpsheimurinn.

Web Counter

1 Comments:

At 30 desember, 2005, Blogger Þóra said...

Ég var búin að sjá þennan ER þátt út í Danmörkunni. Óttast það mest að ég sé búin að sjá restina af seríunni og fái þar af leiðandi ekki nýjan skammt fyrr en næsta haust. Alveg hræðileg tilhugsun það.

Annars gleðileg jól og takk fyrir góðar kveðjur.

Þóra frænka

 

Skrifa ummæli

<< Home