1.1.07

Gleðilegt nýtt ár

Lítið blogg að undanförnu skýrist ekki af jólastressi heldur tæknilegum örðugleikum. Einhverra hluta vegna hafa skiptin úr gamla bloggumhverfinu yfir í það gamla gengið brösulega.

Jólin voru ósköp notaleg. Að vísu kom upp svolítið tæknilegt vandamál við undirbúninginn. Húsbóndinn var tímanlega í því og fór (einn) og keypti jólatré um 10. des. Við sögðum ekki margt mæðgurnar, enda þöglar og dular týpur eins og allir vita, en stundum því þó upp hvort það væri ekki dálítið stórt. Ólafur viðurkenndi það, en eins og við vissum hefðu systurnar alltaf viljað stórt jólatré, eiginlega aldrei fengið nógu stórt tré ef út í það væri farið, svo hann hefði ákveðið að nú skyldu þær loksins fá nógu stórt tré.Tréð fékk að bíða úti á svölum með sinn tálgaða enda þar til þess tími kæmi. Tálgaði endinn er tilkominn vegna sárrar reynslu frá því í hitteðfyrra þegar óvenjuilla gekk að fá tréð til að passa í fótinn og ég eyðilagði forláta búrhníf þegar ég var að reyna að sarga utan af því. En á Þorláksmessu var tíminn sem sé kominn. Ég játa að við mæðgur voru dálítið skeptískar því tréð reyndist ótrúlega fyrirferðarmikið, breitt og þétt og sveiflaðist til þó í fótinn væri komið. Loks töldum við okkur vera búin að stemma það af, skrúfuðum allt fast og byrjuðum að tína á það allt skrautið. Það þykir okkur afar skemmtilegt því við eigum mikið af skrauti frá öllum tímum, í öllum stílum, sem stelpurnar bjuggu til í leikskólanum, skraut sem við keyptum einhvern tíma í Kaupmannahöfn og allt þar á milli. Þessar sögur allar reynum við að rekja um leið og við hengjum þetta á tréð. Loks var allt komið upp, við mæðgur snerum okkur að öðru en húsbóndanum dvaldist eitthvað áfram í stofunni. Allt í einu "vaknar hann upp við vondan draum", rýkur upp, en of seint. Tréð er oltið niður á gólf og allt fljótandi í vatni og brotnum kúlum. Ég get ekki sagt að ég hafi tekið þessu með jafnaðargeði, þusaði fyrst eitthvað um að við yrðum bara að henda þessu öllu út, en svo róaðist ég og við gripum til fyrirbyggjandi aðgerða. Tréð stendur í horni við opnanlegan glugga með tryggilegum festingum. Í þessar festingar batt ég vír sem ég síðan batt í tréð. Til öryggis hafði ég stögin tvö. Þetta dugði og engin hreyfing hefur verið á trénu síðan nema þetta óhjákvæmilega sig sem verður á greinum lifandi jólatrés eftir nokkra daga í yfir 20 stiga hita. Það verður samt óneitanlega léttir að geta húrrað ferlíkinu fram af svölunum eftir nokkra daga.

Að öðru leyti gekk þetta bara vel. Gjafir vel yfir meðallagi og mikið dáist ég að þeim feðginum að geta labbað sig inn í uppáhaldsfatabúðina mína í Kringlunni og komið þaðan með kjól sem smellpassar, upp á gramm (á aðfangadagskvöld)!

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla, systur, frænkur og annað fólk sem þetta les.

Web Counter

4 Comments:

At 03 janúar, 2007, Blogger Kristin Bjorg said...

Gleðilegt nýtt þar til þín og þinna. Dálítið skondin saga af jólatrénu. Við höfum haft gerfi í nokkur ár og erum ánægð með það. Fórum út í það þegar við föttuðum að stelpunum fannst ekkert merkilegt að fara í skóræktina og kaupa tré - það var einn af hápunktunum á aðventunni þegar ég var barn.

 
At 03 janúar, 2007, Blogger Harpa Jónsdóttir said...

Gleðilegt ár!

 
At 03 janúar, 2007, Blogger Unknown said...

Gleðilegt nýtt ár frænka !
Kveðja frá Baunalandi.

 
At 04 janúar, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Gleðilegt ár frænka mín. Alltaf jafn skemmtilegt að lesa bloggið þitt.
Kkv.
Þóra Jónasar.

 

Skrifa ummæli

<< Home