5.11.08

Bankaræningi - skilgreining nr. 2

Gamla Íslenska orðabókin er ekki með orðið bankaræningi, en hins vegar bankastjóri, -seðill, -stjórn og -vextir. Þetta er svo sem skiljanlegt, en í ljósi stöðugra tíðinda af þessum vettvangi er greinilegt að í næstu útgáfu (hvar í dauðanum sem á að fá pening í hana) þarf að hafa orðið með, og hina nýju merkingu þess.

Flettan (það orð nota orðabókarmenn) gæti orðið einhvern veginn svona:

bankaræningi K 1 maður sem ræðst inn í banka, oft vopnaður, og rænir þaðan peningum, sjaldan háum fjárhæðum. 2 hátt settur bankastarfsmaður, til dæmis bankastjóri, stjórnarmaður í banka eða annar sá sem í skjóli aðstöðu sinnar getur rakað saman fé á kostnað bankans; yfirleitt með samningum sem kveða á um ævintýralegan gróða á meðan bankinn hagnast en lausn undan öllum skuldbindingum ef hagur bankans versnar.

Web Counter

1 Comments:

At 05 nóvember, 2008, Blogger Þóra said...

Sæl frænka,

Ákvað að kvitta hér og óska þér til hamingju með daginn. Hér er ég ekki að vísa til úrslita nýafstaðina forsetakosninga í Bandaríkjunum heldur til þess að í kvöld hefjast sýningar á 14. þáttaröð Bráðavaktarinnar í sjónvarpi allra landsmanna. Sjaldan hefur það verið mikilvægara en á þessum síðustu og verstu að geta gleymt sér yfir gleði og sorgum heilbrigðistarfsmanna í heimaborg tilvonandi forseta. Njótum!!

Kveðju,
Þín frænka Þóra.

 

Skrifa ummæli

<< Home