Gamla Melahúsið 6 (eldhúsið)
Hvers vegna ekki að hverfa aftur í tímann, þegar heimurinn var saklaus, DowJones var ekki til, eða Íslendingar vissu að minnsta kosti ekki af því, þegar maður átti reikning í KFHB, þegar séniver var drukkinn í afmælum, marengsinn var nýfundinn upp og hægt var að koma svo ótrúlega mörgu fólki fyrir og elda svo ótrúlega góðan mat í svo ótrúlega litlu og frumstæðu eldhúsi á Melum 1 í Hrútafirði.Það var beint inn af litla ganginum sem komið var inn á úr forstofunni, með glugga sem sneri í austur. Til hægri handar þegar gengið var inn var það sem nú væri kallað eldhúsinnrétting. Það orð held ég reyndnar að ég hafi ekki heyrt fyrr en nýja húsið var byggt. Kannski notuðum við ekki þetta orð af því að "innréttingin" var svo skelfilega lítil. Ef mig misminnir ekki var samsetning neðri skápanna þessi: Næst útveggnum að austan var skúffuröð. Hnífaparaskúffa, ausu- og sleifaskúffa þar fyrir neðan og önnur svipuð undir henni. Neðst var dýpsta skúffan og í henni voru um langt skeið minnar æsku geymdir ullarsokkar! En svo bilaði skúffan þannig að framhliðin liðaðist úr henni, og eftir það gapti hún gagnslaus á móti okkur í öllu plássleysinu, líklega þangað til við fluttum í nýja húsið. Mamma minnti á það af og til að þetta þyrfti að laga en það dróst - líklega af því að húsbóndinn á heimilinu treysti sér ekki til þess. Við hliðina á skúffuröðinni var pottaskápur, ég held að hann hafi verið einfaldur, tvær hillur, ein hurð. Og svo endaði þetta í mjóum vaskskáp, með ófrágengnum botni, það er að segja bert niður í óslétt steingólf. Þar var geymdur drullusokkur, þvottaefni og eitthvað slíkt. Efri skáparnir flúttuðu við þá neðri og náðu upp í loft. Þar voru að sjálfsögðu geymdir diskar og glös og slíkt, og yfir vaskinum minnir mig að hafi í neðstu hillunni verið þetta slysa og neyðardót, plástrar, tvinni og nálar (það komu oft göt og saumsprettur) og slíkt.
Vaskurinn var, þegar ég man fyrst, sérkapítuli. Hann líktist eiginlega mest þessum tískuvöskum núna, hvítur úr þykku postulíni og skagaði upp fyrir borðið. Það mátti ekkert detta ofan í hann, þá brotnaði það, og ef eitthvað harðara lenti á köntunum á honum varð það yfirleitt til þess að kvarnaðist úr þeim. Ofan á borðinu minnir mig að hafi verið gólfdúkur, blár eins og á eldhúsinu, eða kannski venjulegur brúnn (línóleum)? Seinna var skipt bæði um vask og yfirlag. Þá kom hvunndagslegur stálvaskur og plastplata var sett ofan á borðið.
Við vegginn undir glugganum, stutt frá "innréttingunni" var svo matarborðið. Þetta var fremur lítið borð en stækkanlegt um kannski 30 cm með plötu á hjörum. Það var rauðbrúnbæsað og mig minnir að það hafi komið litur í tuskuna þegar strokið var um fæturna. Frá borðinu var stutt í hornið við vegginn sem lá að þvottahúsinu. Þar var bekkur til að sitja á. Önnur sæti fyrst þegar ég man voru trékollar sem Guðmundur í Grænumýrartungu mun hafa smíðað (innréttinguna og borðið held ég jafnvel líka). Seinna komu stálkollar með vínýlklæddri svampsetu. Sætaskipan var þannig að pabbi sat alltaf við endann næst "innréttingunni". Við hinn endann, á bekknum, sátu strákarnir, ef báðir voru heima, svo fór það eftir stelpnafjölda heima hvort við gátum raðað okkur allar á langhliðina sem sneri út á gólfið eða borðið var dregið fram og einhver sat við gluggann. Mamma settist sjaldnast niður með okkur hinum hversdags, heldur stóð og fygldist með, eins og siður var margra sveitakvenna á þessum árum. Já, og meðan Didda, sú yngsta, var lítil sat pabbi alltaf með hana við borðið, engir barnastólar þá. Gestir voru sjaldan lántnir borða í eldhúsinu, nema þeir sem rákust kannski inn af næstu bæjum, svo sem Jósep á Fjarðarhorni eða Villi á Brekku. Lengra að komið fólk var látið borða og drekka í stofunni.
Fyrst þegar ég man voru eldhússkáparnir og skúffurnar grænlökkuð, ég man ekki litinn á veggjunum. Seinna var þetta málað í hutlausari lit, en nokkrum árum áður en við fluttum í nýja húsið var eldhúsið málað í dálítið skrítnum brúnbleikum lit, ég man ekki hvort allt var í sama litnum eða skáparnir öðruvísi.
Ein fyrsta minning mín tengist einmitt eldhúsinu. Þá var verið að skipta um eldavél, taka út kolaeldavélina, sem var í einhverjum tengslum við kolakyndinguna, og setja í staðinn rafmagnseldavél (Rafha með gormahellum) og olíufýringu. Líklega hefur heita vatnið í kranana komið þá um leið. Eða var það seinna? Þessu fylgdi mikill kláði því einangrað var með glerull kringum þessi tæki og kornin eða flísarnar úr ullinni ertu húðina heil ósköp. Rafha-eldavélin entist vel og lengi þótt heita mætti að hún væri í stöðugri notkun frá morgni til kvölds. Hún tók líka minna pláss en sú gamla, en reyndar fylltist það að nokkru leyti því lítil gasvél með tveimur hólfum var höfð við hliðina á henni að grípa til þegar rafmagnið fór eða óvenjumikið þurfti að elda. Varla þarf að taka það fram að við mæðgur vorum alltaf skíthræddar við gasið. Ég verð að geta þess að kolaeldavélin var mjög glæsileg útlits, með ljósbrúnni emaljeraðri framhlið og alls konar dúlleríi á lokum og hólfum. Því miður var hún látin grotna og grafast niður einhvers staðar utan við heimatúnið. Vöfflujárnið sem fylgdi henni týndist einnig, því miður.
Á gólfinu var fyrst blár línóleumdúkur en seinna komu næstum hvítar vínýlflísar sem voru kaldari og ólíkt skítsælli. Það fór oft í taugarnar á mömmu.
Þetta litla og að mörgu leyti frumstæða eldhús var uppspretta mikils og góðs matar. Nokkrir réttir standa samt upp úr. Fyrst skal telja steiktu fiskibollurnar. Ég hef hvergi fengið betri bollur en hjá mömmu. Henni tókst einhvern veginn að hafa þær alltaf mátulega þéttar og steiktar og dásamlega bragðgóðar - sama hvert hráefnið var, stundum kannski eldgömul lausfryst flök úr kaupfélaginu. Úr fiskafgöngum bjó hún líka til steiktar bollur sem okkur fannst mjög góðar. Plokkfiskurinn hennar var hnossgæti og úr kjötafgöngum bjó hún stundum til hliðstæðu plokkfisks, hakkaði kjötið og setti hveiti og lauk út í og einnig kartöflubita. Svo voru það eggjakökurnar, eggjahvítur og -rauður þeyttar sér, svolítið hveiti og mjólk sett út í eggjarauðurnar, og kryddað, og hvítunum svo blandað varlega út í. Steikt á pönnukökupönnu og settar tvær og tvær saman með kjötafgöngum grænum baunum og slíku dóti á milli.
Bakstur (fór gjarnan fram eftir hádegið): formkökur, tertur, lagkökur, vínarbrauð, hafrakex, skonsur, hveitibrauð (með lyftidufti), pönnkökur, lummur, kleinur, ástarpungar - það var alltaf verið að baka - en þurfti samt að afsaka að ekkert væri til með kaffinu ef gestir komu.
Ísskápur kom í eldhúsið um 1970.
2 Comments:
Sæl og blessuð frænka,
Og takk fyrir pistilinn! Ég er nokkuð viss um að vöfflujárnið sem þú minntist á hafi endað sína ævi (eins og mörg heimilistæki) í 'búinu' sem var í bragganum fyrir ofan Siggafjárhús.
Vona að allt sé gott að frétta!
Bestu kveðjur,
Reynir Þór
Ó, hvað það svæði, og þar sem "gömlu fjárhúsin" voru gæti orðið spennandi fyrir framtíðarfornaldarfræðinga! En ætli þeir gæti ályktað: Já, hér var bú barna! Ég þyrfti annars að skrifa pistil um bú, minnsta kosti einn, og líka einn um endalok "gömlu fjárhúusanna". Það er sem sé ekki enn búið að drepa þig þarna í óvinalandinu, frændi minn? Hrikalegir tímar eru þetta!
Skrifa ummæli
<< Home