18.12.07

Þáttur úr búningasögu Hrútafjarðar (aðallega kvenbúninga) á tímabilinu u.þ.b. 1950-1980; með aðferð einsögunnar

Nú ætla ég að bæta hinum fjölmörgu og áköfu lesendum mínum upp vanræksluna að undanförnu með dágóðum skammti sem ég fann á gömlum geisladiski við tiltekt á kontórnum í gærkvöldi. Efnið ber þröngu áhugasviðinu (fagurt) vitni og er því eiginlega aðeins við hæfi harðasta kjarna lesendahópsins. Ekki væri verra að fá athugasemdir frá þessum lesendum og það sem sannara reynist ef eitthvað "es missagt" í fræðum þessum.

Hefst þá pistillinn:

Klæðatal Þóru Ágústsdóttur

Þetta eru drög að skrá um þau föt, aðallega kjóla, sem Þóra Ágústsdóttir hefur saumað á lífsleiðinni.

1. Matrósaföt á synina.
2. Útigalli, dökkrauðbrúnn, líklega á Gústa. Ótal buxur o. fl. á strákana sem ég man ekki.
3. Fyrsti kjóllinn sem ég man eftir er hvítur, fisléttur og þunnur nælonkjóll með örlitlum flauelsdoppum og ótal pífum. Alveg draumur. Líklega saumaður ‘56-57.
4. Þarna er gat í minninu. Ég set næst doppótta, rifflaða flauelskjóla, við Ingunn fengum held ég bláa með dökkbláum doppum og Lilla rauðan með bleikum doppum (ef hún var ekki of lítil þá). (Jónasarstelpur áttu svipaða.)
5. Það sópaði að okkur á jólaballinu í þessum: ljósbláum ermalausum nælonkjólum með appelsínugulum (og bleikum) flauelsrósum. Kjólarnir voru með þremur pilsum og við fengum allar eins. Tölurnar voru sérkapítuli, úr gleri, eins og demantar.
6. Einhvern tíma komst eins konar damask í tísku. Þá fengum við gula kjóla, stutterma, með hvítum? krögum og böndum aftur fyrir í slaufu. Mjög klæðilegir.
7. Svo voru það bómullarkjólar, ermalausir með síðri blússu, ljósblá- og appelsínugulköflóttir.
8. Vorið sem ég var hjá ömmu (þegar ég varð átta ára) kom mamma með mikla nýjung í sveitina: evergleisið. Ég áttaði mig nýlega á því að það þýðir ‘eilífur gljái’. Þeir kjólar voru ermalausir, með rykktu pilsi, og efnið: hvítt í grunninn með raunsæislegum bleikum rósum. Bleikur mynsturbekkur á jöðrunum sem kom neðst á pilsunum og gaf þeim skemmtilegan svip. (Everglays var hamrað svo að í það kom upphleypt mynstur.) Ég man ekki hvort þetta voru jólakjólar eða ‘auka’, en set þá alltént í samband við sólskin og sumar.
9. Ef ég man rétt var Lilla í bleikum, þunnum nælonkjól þegar hún var skírð tveggja ára við fermingu Himma (og sagði nei).
10. Gústi var fermdur 1964. Þá var aldeilis ráðist í stórvirki. Dragtir á dömurnar. Úr grá- og grænköflóttu ullarefni (frá Sigurði Davíðssyni?) Pilsin voru með lokufellingum, jakkarnir með vasalokum ef ég man rétt. Svo voru saumaðar blúndu-pífublússur við, hvítar.
11. Árið eftir, Þegar Elsa var fermd og pabbi varð fertugur, fengum við nýjar nælonblússur við, hvítar með grænum doppum. Skjóllitlar en snotrar flíkur. Ég man að mömmu brá illilega þegar hún sá að hún hefði gleymt að sauma eina ermina fasta, einhver okkar hafði verið með hana þrædda alla veisluna.
12. Upp úr þessu hætta flíkurnar að verða eins á allar. Nú komust beinu kjólarnir í tísku og krymplínið og díólínið. Fyrir ein jólin fékk ég gulan díólínkjól ermalausan, rykktan undir berustykki og bundinn í hálsmálið að aftan. Ég taldi mér trú um að mér færi ekki vel gult og var því aldrei alveg sátt við kjólinn.
13. Fyrir einhver jólin fékk ég köflóttan kjól úr efni sem minnti á hör, í gráu og pastellitum. Einfaldur í sniði með stuttum ermum.
14. Fyrsti jólakjóll Diddu var gulur (sjö mánaða). Þegar hún var skírð og fór í brúðkaup Himma og Siggu var hún í yndislegum hvítum nælonkjól (örlítið hrufótt, matt efni) með pífu neðan á.
15. Ég fer allt of fljótt yfir sögu því nú er komið að fermingu minni. (Þá um vorið héldu afi og amma líka upp á gullbrúðkaup sitt með ógleymanlegum hætti.) Ég var send suður og saman keyptum við Sigga fagurblátt efni í kjól á mig, langerma með hringskornu pilsi. Í kjól á Diddu var keypt ljósgrænt glansandi efni sem varð að undurfallegum kjól með púffermum og blúndum á kraga og ermum og niður eftir blússunni. Efni okkar Sigríðar var sniðið en þótti eitthvað linkulegt. Elladís kom til skrafs og ráðagerða. Ég man að borinn var eldspýta að þráðum úr efninu. Og niðurstaðan: það var ekki gervi, það brann en bráðnaði ekki. Þá fermdust allar stúlkur í kjólum sem gátu bráðnað svo annað efni var keypt og saumaður í snatri fermingarkjóllinn (sem gat bráðnað): túrkisblár með blúndukraga, síðri blússu og lokufellingum. Hinn kjóllinn var líka saumaður og honum skartaði ég í gullbrúðkaupinu. Með löngum ermum með mjög breiðum líningum hnepptum og hringskornu pilsi. (Fallegri en fermingarkjóllinn.) Ingunn fékk svipaðan í sniðinu, fagurbleikan, breið líning, hneppt í mittið og púffermar. (Um þetta leyti köflóttar mjaðmabuxur.)
16. Þegar ég byrjaði í Reykjaskóla hafði ég með í farangrinum tvennar buxur og eitt vesti sem mamma hafði saumað. Fyrir árshátíðina fékk ég svo rautt buxnadress, svo vel lukkað að aðalfegurðardís skólans fékk það lánað hjá mér þegar efsti bekkurinn fékk að fara á ball á Blönduósi eða einhvers staðar þar. Það var mikill heiður.
17. Ingunn byrjaði árið eftir í Reykjaskóla. Þá komum við systur vopnaðar köflóttum buxum (ég brúnköflóttum, Ingunn svörtum og hvítum og peysum í stíl sem mamma prjónaði. Þá um veturinn fengum við rósótta síða kjóla, ég grænrósóttan, Ingunn blá. Púffermar, langar. Þetta voru 1. des eða árshátíðarkjólar.
18. Um vorið fermdist Ingunn í fjólubláum kjól með litlum rósum. Ansi laglegum. Það vor hófst, minnir mig, stuttbuxnatískan og voru þá saumaðar slíkar á okkur systur og blússur í stíl - ég get ekki með nokkru móti munað litinn á mínum - vil sjálfsagt gleyma því, en stígvélunum gleymi ég ekki. hvítum gervileður-, uppreimuðum, óþægilegum. Það verður að játast að þetta var ekki mjög klæðilegt, þótt saumaskapurinn væri góður eins og venjulega. Þetta vor fengum við systur kápur sem mamma saumaði, ég hvít og brúnmynstraða, Ingunn hvít og blá-?
19. 15 ára fór ég að vinna í sjoppunni í Brú og saumaði mamma af því tilefni tvo sloppa, annan gulgrænan, hinn bláan. Mér fannst ég rosafín í þessu og oft vandi að velja á morgnana.
20. Lilla fermdist í vönduðum, tvílitum krymplínkjól. Birna í svipuðum.
21. Í landsprófi? eða fyrsta bekk menntó? svart sítt pils (eins og allir voru í) sem rauð (keypt) blússa var höfð við.
22. Einn veturinn í menntaskólanum fékk ég síðan bláan kjól með löngum ermum.
23. Didda var fermd í bleikfjólubláu tvískiptu dressi, óhemju saumaskapur á, yfirdekktar tölur. Efnið glansandi.
24. Stúdentsdress Diddu sömuleiðis saumað, minnir mig, tvískipt grá-svartmynstrað.
25. Hér er loks samtíningur hversdags- og sunnudagsflíka: Rauðköflótt fellt pils, skokkur úr eins efni og kjóll sem mamma saumaði sér, grásvart hamrað glansandi efni og leggingar til skrauts. Í barnaskóla: köflóttir skokkar með lokufellingum og síðri blússu (Jónasarstelpur fengu svipaða). Rauð pífublúsa eða -blússur. Rykkt sumarpils úr skræpóttum efnum, svampskjört. Buxur voru stöðugt saumaðar alla okkar æsku, ég minnist svartra með köflóttum uppábrotum sem ég fór í nýjum í réttir. Diddu minnist ég í skemmtilegum grænum smekkbuxum með applíkeraðri rauðri dýramynd á. Ótal náttföt, hlýleg flónels. Bleikan náttkjól fékk ég einhvern tíma. Og svo voru öll sængurföt að sjálfsögðu saumuð heima.
26. Kjólar frúarinnar sjálfrar: Svart og hvítt hamrað efni (man ekki kjólinn en afgangana). Rósóttur greiðslusloppur. Svargrár glansandi kjóll (sbr. skokk sem áður var getið.). Yrjóttur ullarkjóll, stutt bönd hnýtt að framan, hálfermar. Ljósgræn ullardragt með hvítum yrjum (mér fannst það alltaf vera kókosmjöl). Svartur kjóll með glansþráðum í mynstri og bólerójakki yfir. Gulbrúnn krymplínkjóll, ermalaus. Gulur krymplínkjóll, upphleypt mynstur. Svart og hvít smáköflótt dragt (f. fermingu Himma?). Kjóll úr vönduðu svörtu efni með bláum doppum/rósum, jakki yfir. (Hafði verið dálítið lengi á Borðeyri og ég óttaðist mjög að efnið væri ekki nógu nýtískulegt, þegar pabbi gaf það í jólagjöf.) Ótal sirskjólar til að vera í hversdags og sloppar og svuntur, og óléttuföt, t.d. gulbrún- og svartröndótt dragt þegar Didda var leiðinni. Sjálfsagt má heilmiklu bæta við hér.

Af þessu má sjá að konan hefur sjaldan setið iðjulaus um dagana. Sumum hefði þetta eitt verið ærið æviverk en meðfram þessu var prjónað (efni í aðra skrá), þrifið, bakað, huggað, mjólkað og öðru því sinnt sem sinna þarf á stóru heimili. Í rauninni óskiljanleg afköst. Gleymum því ekki að framan af var allt saumað á forna handsnúna saumavél og allir saumar varpaðir í höndum. Enda fékk hún eins og rakettu í rassinn þegar pabbi færði henni ein jólin saumavél (úr Hagkaup) sem gat sikksakkað.

Web Counter