15.4.09

Lesið þetta

Hnakkus er snillingur, bloggar bara allt of sjaldan. Hér er kosningapistill hans.

Web Counter

9.4.09

Hvað lásuð þið þá?

Ég sat smástund með dálitlum hópi af konum um daginn og einhvern veginn barst í tal pólitískt litaður bókmenntasmekkur á árum áður og tekið dæmi af barnakennnara úti á landi sem fékk bágt fyrir að lesa Laxness fyrir börnin. Það skrapp út úr mér að svona hefði þetta nú verið heima hjá mér, engin bók eftir Laxness hefði verið til, framsókn hefði eiginlega bannað hann. Þá snýr ein konan sér að mér og segir með samblandi af fyrirlitningu og vorkunnsemi: Hvað lásuð þið þá? Og bætti við með enn meiri þótta: Kannski Jón Trausta? Ég var nú ekki tilbúin með rækilegt svar handa konunni en held að ég hafi nokkurn veginn getað sannfært hana um að við vorum engir organdi fávitar, þrátt fyrir Laxnessleysið. Og ekki kom þessi skortur í æsku í veg fyrir það að ég lærði að meta hann og meðtaka síðar (nema helvítis Vefarann, mér hefur alltaf leiðst sú unglingstilgerð).

Í framhaldi af þessu fór ég að rifja upp og reyna að muna hvað við lásum. Heilmikið af þýddum bókum, margar hreint ágætar, svo sem títtnefndar bækur Margit Söderholm (sem ég get ekki séð að sé neitt miklu lakari en t.d. Sigrid Unset eða Selma Lagerlöf, þó að þær fengju nóbelinn). Súsanna Lennox upp á 600 bls. eða svo var fróðleg og skemmtileg lesning. Bækur Stefáns Jónssonar rötuðu flestar til okkar; pabba fannst hann mjög skemmtilegur penni, en stundum voru þær illa prófarkalesnar. Ýmis fræðslurit Menningarsjóðs áttum við - t.d Lönd og lýði og Rómaveldi eftir Will Durant. Stundum fylgdumst við af ákafa með framhaldssögunni í Tímanum.

Ekki má gleyma öllu sem við hlustuðum á í útvarpinu, eins og t.d. sögur Halldórs Laxness. Ég fann að pabbi hafði lúmskt gaman af þeim og þannig síaðist töluverður Laxness inn í okkur - þó að við læsum hann ekki sjálf. Á þessum árum var mikið gert af því að færa vinsælar skáldsögur í leikritsform - þannig kynntumst við t.d. Jóni Trausta (lásum hann EKKI) og hinu eina sanna íslenska hríðarhljóði sem ég held að verði aldrei leikið eftir.

Ég held sem sé að þegar öllu er á botninn hvolft höfum við bara verið þó nokkuð menningarleg, miðað við efni og aðstæður!

Web Counter