29.10.09

Dæmi um heklaðan þjark
Bandarískur drengur með þjarkinn sinn, myndin er úr The Great Granny Crochet Book", gefin út 1979 af American School of Needlework

Web Counter

Þrælahald eða hvað?

Ég er mikil föndurkona, eins og komið hefur fram nokrum sinnum í þessum pistlum sem gerast nú æ strjálli, en það er önnur saga. Ég heklaði á útmánuðum ljómandi fallega körfu úr hvítu bómullargarni. Til að gera hana stífa vætti ég hana í veggfóðurslímsgraut og lét hana þorna í nokkra daga á einum af pottunum mínum. Ég ætla ekki að lýsa verkferlunum við gerð körfunnar nánar en nú prýðir hún borðið á nýja baðinu uppi. Garnið í hana átti ég, en ég þurfti að leggja út hátt í 2000 kr. fyrir veggfóðurslíminu (á reyndar nóg eftir í svo sem 20 körfur).

Svo gerist það í dag að inn um lúguna kemur ruslpóstur úr Rúmfatalagernum og þar á baksíðunni, með jóladóti, er mynd af ÞREMUR hekluðum körfum í setti, öllum MEÐ LOKI, á 1400 kr. Ég tók andköf meðan ég reyndi að ímynda mér í hvers lags þrælabúðum þessar körfur væru gerðar, handunnar að sjálfsögðu, eða hvað? Ég fór og gúglaði "crochet machine" (hekluvél). Og viti menn! Það ruddust upp á skjáinn upplýsingar um alls kyns hekluvélar til sölu; og virtust margar vera upprunnar í Kína (þeir eru mikið fyrir hekl, Kínverjar, hver man ekki dúllurnar á sófasettinu sem allir erlendir þjóðhöfðingjar voru látnir setjast í?)

Það eru því ekki þrælar með eina heklunál í krepptum höndum sem búa til allar þessar hekluðu körfur, heldur þrælar sem standa við hekluvélar. Svona til að vera viss um að mannshöndin væri þarna einhvers staðar nærri gúglaði ég líka "crochet robot" sem samkvæmt íðorðanefndunum útleggst "hekluþjarkur" en fann eintóma heklaða þjarka (crocheted robots), misfagra og -krúttlega.

Ekkert fannst um hver það var sem fann fyrst upp svona vél og væri vitneskja um það vel þegin.

Web Counter

3.10.09

Lukkuriddarar

Mér hefur gramist það lengi að þurfa að horfa upp á alls konar lið vaða gegnum prófkjör flokkanna og þaðan inn á alþingi án þess að hafa til þess nokkra burði, og án þess að hafa nokkurn tíma verið orðað við flokkinn, hvað þá starfað í honum, fyrr en atvikin höguðu því svo að það vantaði allt í einu þægilega innivinnu. Sláandi nýleg dæmi eru Sigmundur Ernir Rúnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson. Það má bæta Ólínu Þorvarðardóttur við, þó að hún eigi sér reyndar fyrri brösótta sögu í sveitarstjórn.

Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig það sé fyrir trúa og dygga flokksmenn með sannfæringu og löngun til að láta gott af sér leiða á þingi eða í sveitarstjórn að horfa upp á þetta, kosningar eftir kosningar. Hlýtur þetta ekki að draga ósjálfrátt úr orku og metnaði "venjulegra" flokksmanna? Það ýtti líka við mér í dag þegar ég hlustaði á Auði Styrkársdóttur í þætti Hjálmars Sveinssonar lýsa því hvað þetta prófkjörsfyrirkomulag er ótrúlega vitlaust og ólýðræðislegt - enda hvergi til annars staðar en hér.

Ég fyrir mína parta vil miklu frekar að fólk veljist á framboðslista fyrir störf sín í pólitík eða á öðrum sambærilegum vettvangi en að hafa verið í sjónvarpi, jafnvel þó að þeir séu þokkalega sætir og rosalega hressir og ánægðir með allt og alla - þó aðallega sjálfa sig.

(Ein frétt gladdi mig, ótugtina, í morgun: John Cleese er orðinn blankur og þarf að fara að vinna.)

Web Counter