Eftir helgarreisu til Kaupmannahafnar
Þetta er nú orðið dálítið langt ... sagði Þórbergsfraukan ef ég man rétt. Það er líka orðið dálítið langt hléið á þessari síðu, sem skýrist af miklum önnum en einnig helgarfríi í Kaupmannahöfn. Þangað brugðum við okkur á fimmtudaginn, hele familien, og komum aftur í gærkvöldi. Þetta var afskaplega hyggelig og dejlig ferð og nokkuð týpísk trúi ég, rambað um strikið þar sem dæturnar slepptu sér í H & M og fleiri slíkum búðum, og svolítið kíktum við hjónin líka í búðirnar og við borðuðum mikinn og góðan mat, fórum líka á Believe it or not safnið þar sem H.C. Andwersen var innifalinn, og í Tívolí.Þar sem ég er nú ekki daglegur gestur í útlöndum, eða þannig, var ýmislegt sem vakti athygli mína, en þotuliðið er kannski hætt að taka eftir.
Það er til dæmis þessi rafmagnsgræju- og diskabúð Fona á Strikinu sem er svona yndislega troðfull af bæði CD-um og DVD-um - miklu ódýrari en hér. Þær fáu plötubúðir sem enn tóra hér minna helst á nútímagallerí eða rándýrar tískuverslanir, slíkur er tómleikinn í hillunum. Líklegasta skýringin er þó sú að þetta séu deyjandi verslanir, flestir stela bara múskinni eða myndunum af Netinu, og þeir sem ekki gera það kaupa diska þegar þeir fara til útlanda því ekkert fæst hér.
Og svo þetta yfirgengilega heimskulega vopna- og vökvaeftirlit! Maður er gegnumlýstur og þuklaður fram og aftur á leið inn í vélina en hvað með salina fyrir framan, þar sem maður tékkar inn? Af hverju er ekki sama varúðin þar?
Hótelið okkar var svona miðlungshótel og í frekar vafasömu hverfi, rétt hjá Járnbrautarstöðinni og þeirri frægu Istedgade. Það voru tveir dáldið skuggalegir (sýndist manni) klúbbar skáhallt á móti og við höldum jafnvel að við höfum séð eina til tvær portkonur. Samt urðum við aldrei vör við hávaða, og vorum þó þarna um helgi.
Á veitingastaðnum sem við fórum á í Tívolí var næstum eintómt gamalt fólk. Skýringin teljum við að sé sú að það er svo dýrt að fara í Tívolí að fólk undir eftirlaunaaldri fer þangað með nesti, en ellismellirnir fá líklega frítt inn, og í strætó, og þá finnst þeim þeir hafa grætt svo mikið að þeir splæsa á sig mat á rándýrum stað.
Hvernig ætli það sé annars, ætli Baugur eigi ekki Tívolí? Ef svo er finnst mér að vér Íslendingar ættum að fá frítt inn, og líka í tækin.