31.3.06

Skýringin á því að...

ég hef ekki látið neitt frá mér fara að undanförnu - ja, ég veit ekki hvað skal segja. Kannski það að þörfinni fyrir góðan texta hefur verið ansi vel fullnægt að undanförnu (sbr. umsögn um Draumalandið hér um daginn) og annríki mikið sem einnig hefur komið fram. Ég viðurkenni að í þessu felst visst yfirlæti, sem sé gefið í skyn að texti höfundar geti verið góður texti, en skítt með það. Nú er ég að prófarkalesa biblíuna og það ER GAMAN! Ég er að lesa apokrýfu, í fyrsta skipti, og nýt hér um bil hvers augnabliks.

Á náttborðinu hímir hins vegar annað bindi Stephans G. Já, ég er búin með það fyrra. Ég ætla að klára báðar bækurnar, en verða að viðurkenna að mér finnst þetta ekki neitt sérlega vel skrifað hjá Vidda, mínum gamla félaga (byrjaði um leið og ég í íslenskudeildinni). Kannski er það vegna þess að einhvern veginn rennur allt saman í einn graut, kvæði, ævi og saga. Byggingin á t.d. Einari Ben., og ég tala ekki um Halldóri Laxness (Halldórs), er miklu betri og aðgengilegri.

En mikið er það gaman að nú er búið að afgreiða þetta með jólabókaflóðsverðlaunin, þau fær auðvitað Andri Snær, nema kannski að Biblían ryðjist óvænt fram fyrir hann. Aðrar bækur ættu ekki að veita samkeppni ef allt er með felldu - sem auðvitað aldrei er hér - og nú hætti ég!

Web Counter

22.3.06

Þegar herinn fer...

Eiginlega veit ég ekki hvað ég á að skrifa um þessa dagana:
Hvað ég er fegin að herinn er að fara?
Hvað ég hef mikið að gera, það er ýmist í ökla eða eyra hjá einyrkjum.
Hvað ég vildi að Andri Snær yrði með í að hjálpa Árna Sigf. og ríkisstjórninni að gera allt betra á Suðurnesjum þegar herinn er farinn.

Svo má líka setja fram hugmynd - held að ég hafi ekki gert það áður á þessum vettvangi. Hún er svona: Aðferð til að betra brotamenn í fangelsum sem felst í því að útvarpa yfir þá fallegum góðum bókmenntum og sálfræðilega hollri tónlist, myrkranna á milli, svo mætti setja eitthvað huggulegt á veggina líka. Flestir smákrimmar eru krimmar af því að það var aldrei lesið fyrir þá og þeir hafa fátt eða ekkert lesið sjálfir, fyrir utan svo aðrar bágar aðstæður í bernsku. Eins og margoft hefur verið haldið fram hlýtur það að auka nokkuð víðsýni manna og skilning að hafa lesið mikið - það getur verið á við kynni af her manns (þá á ég ekki við her í eiginlegri merkingu, slík kynni eru einhæf og misholl).

Sjálfsagt hefur þetta verið prófað einhvers staðar, en kannski ekki nógu lengi, nema það hafi gengið of vel! Kannski mætti prófa þetta í fangelsinu sem þá dreymir nú um að fá á Suðurnesjum?

Web Counter

13.3.06

Naflaskoðun, vond blöð og vondir blaðamenn

Dvölin í Hrútafirði var ánægjuleg eins og þegar hefur komið fram. Að vísu kastaði bardagi minn við heita pottinn nokkrum skugga á lok dvalarinnar (loft sem truflaði eðlilegan gang) en elskan hann Kalli mágur minn kom og reddaði þessu. Þetta varð til þess að ég tók ekki eins vel á móti Elsu frænku minni og ég hefði viljað. Ég verð nefnilega svo heltekin af svona vandamálum þegar þau koma upp, en blessunarlega fljót að gleyma þeim. Nú er þetta farið að líkjast óþægilega mikið öllu þessu persónulega bloggi sem fyllir næstum dagblöðin flesta daga. Aðallega er þetta eftir ungt fólk sýnist mér og lýsir ýmsum raunum sem það lendir í og svo flýtur með sjálfsrýni af ýmsu tagi. Mikið djöfull á þetta illa heima í dagblöðum. Sem dæmi get ég nefnt þegar liðið reifar áhyggjur sínar af aldrinum (kannski 23ja ára) og rifjar upp "gamla daga" sem getur næstum verið í hitteðfyrra, lýsir ferðum á skemmtistaði og greinir frá óbeit sinni á rúsínum eða öðrum álíka spennandi karaktereinkennum. Þetta er yfirleitt viðvaningslega skrifað og ekki vottur í því af húmor. Mogginn þykist eitthvað vandaðra blað en önnur (sú "vandvirkni" lýsir sér helst í því að það er leiðinlegra en önnur blöð) en það er líka fullt af svona rusli. Úr því að minnst er á Moggann, þar er aftur farinn að láta á sér kræla blaðamaður sem heldur að hann sé stílisti. Hann heitir víst Pétur Blöndal og tekur viðtöl sem hann kryddar með alls kyns stemmningsskrauti en veldur því ekki, minnir pínulítið á þá lúnu skrautfjöður Moggans, Árna Jónsen. Hann er svona álíka blaðamaður og alnafni hans er þingmaður, þá skilja allir hvað ég meina. Leiðindakóngur Moggans er samt vínsmakkarinn þeirra, Sigurgeir Steingrímsson, lengra held ég ekki að verði komist í tilgerð. Sýnir kannski best menningar- og menntunarstig menntamálaráðherrans að velja sér hann fyrir aðstoðarmann.

Web Counter

10.3.06

Hrútafjörður

Ætli ég sé ekki einn öflugasti talsmaður þessa landssvæðis á hnettinum? Er einmitt stödd þar núna, við komum í gærkvöldi og ætlum að njóta veðursældarinnar og yndisins fram á sunnudag. Hrútafjörður er auðvitað einstök sveit, t.d. málsögu- og mállýskulega. Þetta reyndi ég oft að segja Jóni Aðalsteini, sérfræðingi í vesturskaftfellskum mállýskum (booooo-ji, stiiii-ji, stjar-na og eitthvað svoleiðis). Hrútfirska mállýskan er nefnilega fyrirmynd hinnar reykvísku, það besta valið af mállýskueinkennum landsins: kv-framburður, enginn fráblástur (sem sé "linmæli"), og að sjálfsögðu engin skaftfellska - ekki heldur flámæli.

Höfum annars bara haft það náðugt, síðdegis fékk ég mér smáblund eftir dálítinn lestur í þeirri ágætu bók "Við bleikan akur", getið eftir hverja. Hengdum svo upp myndir, m.a. myndina sem er á þessari síðu og Jónasardætur hafa örugglega gaman af að sjá. Ég ætla að hafa það jafn náðugt á morgun ef ekki náðugra enda á ég það skilið eftir mikla þýðingatörn að undanförnu.

Web Counter

7.3.06

Dúkkulísuleikur

Við horfðum í gærkvöldi á rjómann af Óskarsverðlaunaafhendingunni í norska sjónvarpinu. Þetta var allt í lagi, en aðalskemmtunin auðvitað að horfa á alla fallegu (og ljótu og hallærislegu) kjólana og gefa umsagnir. Mér finnst alltaf óskaplega gaman að horfa á falleg föt, ekki síst ef þau eru í lit. Ég var sammála fjölmiðlunum að þessi þarna í gula kjólnum með rauða varalitinn var flottust, enda löngu búin að sjá hvað rautt og gult eru góðir litir saman fyrir sálina. (Það verður gaman að sjá páskaliljurnar í rauða Karen Blixen vasanum sem við keyptum í Köben í desember.)

Í framhaldi af þessari kjólasasýningu fór ég að rifja upp dúkkulísurnar frá því ég var stelpa. Mamma fór einu sinni til Reykjavíkur og gaf mér fjórar dúkkulísur þegar hún kom til baka. Ein var ljóshærð, önnur rauðhærð, þriðja með brúnt hár og fjórða með svart. Litir fatanna voru samkvæmt hefð þeirra tíma um hvað væri við hæfi; sú ljóshærða helst í bláu, rauðhærða í grænu, svarthærða í rauðu og ætli sú með brúna hárið hafi ekki verið í gulu? Við Ína frænka lékum okkur að þessum dömum þar til þær duttu í sundur. Minnir að við höfum skírt þær líka; ein hét örugglega Bryndís. Ég er illa svikin ef ekki hefur verið þarna Ásdís Fjóla líka, það var uppáhaldsnafn okkar Ínu beggja og við rifumst stundum um hvor okkar skyldi heita því nafni í leikjum.

Aftur að Óskarnum. Ósköp og skelfing var að sjá kellingargreyið hana Dolly Parton. Annaðhvort er þetta átröskun á háu stigi eða öll gerviefnin í og á henni eru búin að éta svona innan úr henni. Eins og hún var sæt og skemmtileg í Nine to five forðum.

Web Counter

3.3.06

Hrein snilld

Það finnst mér nærtækasta orðalagið til að lýsa þeirri ágætu bók sem heitir Draumalandið Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, eftir Andra Snæ Magnason. Hún kemur út í næstu eða þarnæstu viku og ég var svo heppin að fá að lesa eina próförk.

Manstu Alþýðubókina, Bréf til Láru, Villta svani? Bættu þá þessari við. Ég er heldur önugur lesandi og sein til að hrífast í seinni tíð. Þess vegna er svo frábært að fá bók sem opnar augun, segir það sem manni hafði svo sem dottið í hug, en aldrei gert neitt með ... á svo miklu flottari og skynsamlegri hátt en maður hefði nokkurn tíma gert sjálfur. Hún er svolítið eins og þeir bræður Þorsteinn, Vilmundur og Þorvaldur Gylfasynir hefðu sest niður og skrifað bók saman.

Það sem um er fjallað: Hvernig menn fá snjallar hugmyndir, stundum margir í senn á sama tíma; um bændur og landbúnað á Íslandi, um herinn á Íslandi og víðar og það hvað her og hermenn eru íhaldssamir í eðli sínu; um stóriðjustefnu á Íslandi og afleiðingar hennar. Og ekkert svartagallsraus heldur trú á skynsemi, menntun og allt það fallegasta í manninum. Eins og nærri má geta fara núlifandi stjórnmálamenn ekki vel út úr því. Ég rausa ekki meira, kaupið bara bókina þegar hún kemur út!

Web Counter

1.3.06

Fegurð himinsins og óvænt snilld

Ef útsýni væri skattlagt í þrepum værum við hér á efri hæðinni, með horngluggann á borðstofunni í suðvestur og eldhúsgluggann í vestur, í mjög háu þrepi, einkum þá mánuði sem nú fara í hönd og haustmánuðina líka. Blóðrauð sólarlögin blasa nú við manni kvöld eftir kvöld. Ég held að ég sé orðin svolítið þreytandi því ég er síæpandi á heimilisfólkið að líta nú út og virða fyrir sér dýrðina.

Í gærkvöldi fékk svo bekkur Steinu ókeypis stjörnufræðikennslu niðri á Ægisíðu og við foreldrarnir fengum að vera með. Það var mjög skemmtilegt. Þetta minnti mig reyndar á það þegar við vorum fyrir norðan fyrir ári og fórum í heita pottinn í stjörnuskininu - ég hef aldrei fengið jafnsterkt á tilfinninguna að við erum reyndar ekki ein í heiminum.

Mikið er gaman að fá að prófarkalesa snilldarverk - og það einmitt þessa dagana - ekki meira um það í bili en verður örugglega rætt hér síðar.

Web Counter