Í sinni par(ad)ís
Enn einu sinni í þessum ágætasta landshluta allra.
Eins og
Ólöf segir, þá á hver sinn Hrútafjörð, þetta segir þessi franska dama þegar hún leggur íann til Frans þar sem hún er næstum fædd og mikið uppalin, sem sé frönsk að háfu alla vega. Þetta sýnir kannski hversu mikla uppreisn æru sá hér títtræddi Hrúafjörður hefur fengið að undanförnu. Enginn þarf að básúna ágæti Frakklands, er það? Jæja, í dag að minnsta kosti hefur Hrútafjörður sannarlega sýnt sína bestu hlið, sunnanandvari/logn og sjö stiga hiti. Já, það hlaut að vera, sagði fólkið í sundlauginni í morgun þegar við birtumst, þið komið með sumarið, síðasta góða veðrið var þegar þið komuð fyrir mánuði.
Þegar ég gekk morgungönguna í morgun heyrði ég í mávum og sá, sá líka gæsir og, síðast en ekki síst: heyrði í lóunni. Næst þegar ég kem býst ég við þessari mögnuðu hljómkviðu allra fugla: lóu, spóa, hrossagauks, stelks, tjalds niðri við ána og samleik maríuerlu og þrastar heima við hús. Mikið hlakka ég til!
GLEÐILEGT SUMAR!
Skipulagið, enn...á ný
Einyrkjar eru svo sem flestum mönnum heppnari hvað varðar umferð um Reykjavík - eru ekki í henni heldur heima að vinna. Stundum slysast þeir þó út úr sínu hverfi, vesturbænum í þessu tilfelli, og þurfa t.d. að komast að og frá Landspítala háskólasjúkrahúsi eða hvað það nú heitir, og hvað gerist þá? Það er nú í fyrsta lagi að vera að koma austan og sunnan að, sem sé Bústaðaveginn, þá þarf sérstaka skarpskyggni eða reynslusögu þeirra sem fyrr hafa farið þessa leið til að átta sig á því hvernig er farið að, of flókið að lýsa því nánar.
Jæja, svo kemst maður inn á gömlu Hringbrautina - lýsi þeirri aðferð ekki nánar - og sér ekki betur en að allt sé sem fyrr, tvisvar sinnum tvær akreinar - úbbs, það var misskilningur, sem betur fór tókst mér með snarræði að sveigja yfir á hægri akreinina áður en tröllaukinn jeppi rakst hissa á mig.
HVAÐ VORU BORGAR- OG SJÚKRAHÚSSYFIRVÖLD AÐ HUGSA þegar ráðist var í þetta? Var einhver arkítekt með? Vill hann gefa sig fram?
Að allt öðru: Hefur einhver séð Hagatorgið? Það er stórt. Og autt. Við Óli vorum þarna á gangi um daginn og sögðum næstum i kór: Ósköp er þetta stórt torg, er ekki hægt að gera eitthvað við það? Og þá sagði ég, (held ég ekki í kór) af hverju ekki gera þarna rómantískt skautasvell á jólaföstunni eins og á Kongens Nytorv (vorum þar í desember) og jafnvel línuskautavöll á vorin?
Stakk þessu að Árna Þór Sigurðssyni þar sem hann var að bera með mér borð í Melaskóla um daginn en fékk ekki svar - svei mér, hann sagði ekki orð. Óttalegur þurs sýnist mér - enda búinn að vera í skipulaginu heila eilífð!
Þar kom að því...
svo sem ekki neinu stórvægilegu, heldur því að upp er kominn raunveruleikasjónvarpsþáttur (ef slíkt er til) sem ég get horft á. Hef gert heiðarlegar tilraunir með allt frá Survivor til Djúpu laugarinnar (hér er ekki hægt að segja "upp í" eða "niður í"), en orðið frá að hverfa, líklega vegna meðfæddrar skynsemi og nokkurs þroska. En, eins og ég sagði, vígið er fallið. Ég horfi á Tískuþrautir, þar sem hópur fólks keppir í fatahönnun, og finnst þetta bara nokkuð skemmtilegt. Ég held með feita hommanum (auðvitað eru a.m.k. tveir slíkir þarna) og elsta þátttakandanum (að sjálfsögðu). Ég skal ekki kjafta frá hver vinnur þó að ég hafi heyrt það um daginn.
Óli er hins vegar samur við sig og fer í bíltúr meðan við mæðgurnar njótum stundarinnar.