30.6.06

Að hjóla...

er frábært, ekki síst í Austurríki þar sem ég var í þessari frábæru hópferð sem ég kom heim úr aðfaranótt miðvikudags. Það var hlýtt (heitt), rigndi bara á kvöldin þessu fáu skipti sem þurfti að rigna og var bara hreint út sagt dásamlegt að líða eftir skógarstígunum með þennan litla hjólatöskufarangur, einn (ég læt ekki undan þessum helvítis vitleysiskellingum sem rugla saman málfræði og félagsfræði og hefðu í þessu tilviki og flestum öðrum heimtað hér "ein") í heiminum en samt í hóp. Koma svo á ágætis hótel á kvöldin, skola af sér svitann og borða vel. Að vísu viðurkenni ég að Austurríkismenn eru fullmikið fyrir raspið, og matseðlar á hádegisstöðum sem við stoppuðum á voru heldur einsleitir (Salat mit Putenstreifen var einkennisréttur ferðarinnar) en allt hitt vegur upp á móti.

Við hjóluðum líka inn í Slóveníu og þar, strax á landamærunum, fékk maður (ekki kona) svona líka frábæran smokkfisk! Hann bauðst aftur daginn eftir á frábæru veitingahúsi, steiktur, með hvítlauk, við Steina heilluðumst. Ég hallast að því að Slóvenar séu framar í matarmenningu en Austurríkismenn eftir þetta!

Það bregður svo við eftir ferðina að ég er full hollustulöngunar, hrúga grænmeti í ofnréttina, háma í mig ber og ávexti o.s.frv. Annaðhvort er þetta þörf eftir allt raspið eða það að líkaminn hefur endurnærst svo vel eftir áreynsluna og stressleysið að hann vill bara eitthvað hollt og gott. Ég hallast að því síðartalda!

Mæli með hjólreiðum í sumarfríinu fyrir alla!

Web Counter

16.6.06

Íslenskur stjórnmálaveðbanki

Ég er að hugsa um að stofna einn slíkan. Um hvað yrði veðjað? Til dæmis:
Hvað líða margir dagar frá því Halldór hættir þar til hann verður kominn í Seðlabankann:

1, 2 o.s.frv.

Fjarstæðukenndur möguleiki:
Halldór fer ekki í Seðlabankann (þar væru líkurnar ca. 1:10.000)

Svo væri hægt að veðja um Björn Inga:
Hvað líður langur tími þangað til B.I. verður orðinn "þreyttur á álaginu" og finnur sér vel(l) launað starf sem krefst ekki vinnu?
3 mánuðir
6 mánuðir
ár (ekki gefinn lengri tími).

Það mundi þá alla vega einn græða á allri óstjórnninni, annar en pólitíkusarnir sjálfir!

Web Counter

15.6.06

Sálmarnir

Það er gaman að prófarkalesa Biblíuna, ekki síst Sálmana. Þar eru einhverjir fegurstu textar sem skrifaðir hafa verið. Hér eru bara tvö dæmi:

23. sálmur:

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Þótt ég fari um dimman dal
óttast ég ekkert illt
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býrð mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins
bý ég langa ævi.

Þetta er ekki síðra:

30:6
Að kveldi gistir oss grátur
en gleðisöngur að morgni.

Web Counter

14.6.06

Að rækta garðinn sinn

Það þykir víst merki um hátt þroskastig mannsins þegar hans mesta yndi verður dútl í garðinum (Birtingur sneri sér að því eftir allt bröltið ef ég man rétt, og eitthvað svipað fór Steinn bóndi á Steinum að gera þegar hann sneri heim úr sinni reisu). Þessu hef ég ekki enn náð, en stefni að því.

Í gær fór ég sem sé loks út í garð og sáði salati og skellti sumarblómum í potta o.s.frv. Auðvitað gætti ég þess líka að njóta veðurblíðunnar og ilmsins og útsýnisins yfir grasflötina. Hlynurinn nýtur sín sem aldrei fyrr eftir að Orkuveitan tók garðinn í gegn fyrir okkur í fyrra sumar.

Þá þurfti ég að dást að túlípönunum sem sumir skarta enn sínu fegursta (þökk sé kaldri og rysjóttri tíð í "sumar"). Ég er alveg að ná tökum á þeirri ræktun; það eina sem hefur klikkað hjá mér er litavalið á einum stað, það fer ekki nógu vel að hafa bleikfjólubláa og skærrauða túlípana saman.

Bóndarósin er komin vel á veg, með 10 knúppa þetta árið! Kannski var samt toppurinn þarna í gærkvöldi þegar ég var að klippa "óþekktarangana" af reynitrénu; ilmurinn af blómunum á trénu var himneskur.


(Er þetta ekki bara nokkuð gott, Kalli?)

Web Counter