23.11.07

Amma Elísabet

Í dag eru liðin 110 ár síðan amma Elísabet, eða amma í Reykjavík eins og við kölluðum hana oft, fæddist svo mér fannst við hæfi að minnast hennar með nokkrum orðum. Ég tek fram að þetta er mestan part persónulegar minningar mínar um hana; ekki eiginleg minningargrein.

Amma var lítil vexti, dálítið þybbin og varð snemma nokkurn veginn hvíthærð. Mér fannst þetta fallegt hár þegar ég var barn því hún var alltaf með permanent og hirti það vel svo að það minnti á englahárið sem stundum var haft á jólatrénu.

Ég man lítið sem ekkert eftir ömmu fyrr en hún er flutt suður, ætli það hafi ekki verið 57-58? En hún kom oft norður og stundum var hún hjá okkur þegar fæddust börn eða einhver þurfti á spítala. Líklega hef ég verið sex ára þegar hún var hjá okkur meðan mamma var á spítala fyrir sunnan. Ég var voða hrifin af að hafa hana og snerist stöðugt í kringum hana, svo hjálpleg og viljug að hún hafði varla kynnst öðru eins. Næstu jól fékk ég sérstakt jólakort, alveg ein, þar sem hún hrósaði mér fyrir dugnaðinn. Ekki spillti það fyrir hvað kortið var fallegt og nýstárlegt; undursamlegir englar svífandi um svartan stjörnugeim og fullt af gylltum stjörnum og geislabaugum. Mörg ár á eftir var ég svag fyrir skrautlegum myndum með svörtum bakgrunni - og er kannski enn.

Það hefur ekki verið neitt smáátak fyrir ömmu að rífa sig upp úr Hrútafirðinum rúmlega fimmtug, nokkrum árum eftir að afi dó. Hún átti systur í Vestmannaeyjum og fór þangað og vann á vertíð, hversu oft eða lengi veit ég ekki. Frá Melum hefur amma sjálfsagt farið með tvær hendur tómar - jafnvel í skuld - ég veit það ekki. En henni tókst að kaupa sér pínulitla íbúð í Norðurmýri, sem verður að teljast töluvert afrek því ekki vann hún fyrir háum launum. Í Reykjavík vann hún ýmis störf en það sem ég man best eftir er þegar hún var "kaffikona" í Iðnó. Þau sambönd notaði hún til að fara frítt í leikhúsið og það var einmitt í boði hennar sem ég fór í fyrsta sinn í alvöruleikhús fyrir sunnan - á það ómerkilega stykki Indíánaleik - og ég man alltaf hvað við vorum hrifnar af Guðrúnu Ásmunds og kjólnum sem hún var í - grænum silkikjól með bleikrauðum pallíettuborðum. Pallíettur voru einmitt að komast í móð þá, það vissum við báðar! Seinna vann hún við skúringar í Gimli í Lækjargötu, held að þar hafi verið ferðaskrifstofa. Fljótlega upp úr sjötugu hætti hún að vinna og það reyndist henni ekki hollt. Hún einangraðist og þráhyggjuhugmyndir sóttu á hana og gerðu henni og fleirum oft lífið leitt. En alltaf tók hún vel á móti gestum og var ósköp góð við okkur krakkana.

Eitt skemmtilegasta persónueinkenni ömmu var hvað hún var skrautgjörn og "pjöttuð" eins og hún kallaði það - hún taldi það kost á fólki að vera "pjattað" og talaði t.d. með velþóknun um "pjattið" í eldri bróður mínum. Ég get í snatri rifjað upp nokkra kjóla sem amma átti og vitna vel um þennan tendens: fjólublár tvískiptur sem hún skartaði þegar hún varð sjötug - fór vel við silfurhvítt hárið. Grænn sumarkjóll með stórum rauðum rósum (sumum fannst þetta dálítið djarft en við stelpurnar vorum hrifnar) og loks glansandi rauðfjólublár kjóll með frekar smágerðu gráu og svörtu mynstri. Mamma hefur oft rifjað það upp að þegar til stóð að sauma á hana kjól (hún var lítið fyrir hannyrðir sjálf) vildi hún ekki líta á frúarkjóla í "móðinsblöðunum", bara kjóla á ungar konur.

Annar áberandi eiginleiki ömmu, kannski skyldur pjattinu, var hvað hún var fundvís á gjafir. Man einhver eftir "stykkjaprjónuðu peysunum" sem hún gaf okkur stelpunum? Ég fékk græna, drapplita og rauða, Elsa og Ína minnir mig að fengju svarta og túrkisbláa og svarta og appelsínugula. Mér fannst þetta æðislegar flíkur. Eða þegar Bítlaæðið var að byrja. Hver kom þá að sunnan í sumarfrí með bítlagítarahálsmen handa öllu liðinu? Auðvitað amma! Eina gjöfin sem ég á enn frá henni er lítil mynd af konu sem situr við rúm hjá sofandi barni og engill svífur yfir, fékk hana í jólagjöf sem stelpa. Ég man enn hvað mér fannst þetta dásamleg mynd og gaman að setja hana fyrir ofan kojuna mína. Nú hangir hún inni í herbergi Steinu.

Amma vissi líka vel hvað sveitafólkið kunni að meta matarkyns. Þess vegna kom hún alltaf með stóran kassa fullan af bakarísbrauði þegar hún kom í sumarfrí (það var stutt fyrir hana í mjólkurbúðina á Gunnarsbraut). Þetta voru smjörkökur, snúðar, vínarbrauð og ég veit ekki hvað, margra daga veisla!

Þetta læt ég duga um ömmu - að minnsta kosti í bili - en það væri gaman að fá athugasemdir sem gætu kveikt fleiri minningar - því amma var frábær!

Web Counter

19.11.07

Gamla Melahúsið (1)

Þetta var lítið hús með valmaþaki, byggt úr asbesti sem þá var álitið kraftaverkaefni, fékkst í stórum flekum og brann ekki. Ég held að foreldrar mínir hafi flutt inn í það árið 1952. Sjálfsagt hefur það verið málað fljótlega eftir að það var byggt, en lögin hafa hvorki verið þykk né mörg því þegar ég man fyrst eftir mér er liturinn ansi mikið farinn að veðrast. Löngu seinna var það málað dökkgult.

Gengið var inn að vestan. Stétt var frá norðvesturhorninu og svo tvær tröppur upp að útidyrunum sem voru nokkurn veginn á miðri vesturhliðinni. Stéttin var dálítið sprungin en að öðru leyti þokkalega slétt. Það sama var ekki sagt um tröppurnar framan við útidyrnar. Þar var steypan ansi hrjúf því hún hafði frosið þegar tröppurnar voru steyptar og ysta lagið kvarnast burt. Það var því enginn hornréttur kantur á þrepunum, heldur frekar rúnnaður en um leið mjög úfinn eins og áður sagði. Svolítið skot var við útidyrnar vegna þess að suðvesturhluti hússins, þar sem stofan var, gekk lengra í vestur. Þar stóð gjarnan mjólkurbrúsi; á haustin man ég þar eftir fullum brúsa af sýru sem beið eftir að komast á slátrið. Okkur þótti óskaplega gott að fara og fá okkur af sýrunni eftir næturfrost enda ekki á hverjum degi sem við fengum svaladrykk með klaka.

Fyrir neðan stéttina, vestan og norðan megin, vildi myndast pollur og svað í rigningum. Einstöku sinnum var möl borin þar ofan í en ekki nándarnærri nógu oft að mati mömmu. Það vildi dragast eins og ýmis önnur karlmannsverk heima við.

Á norðurveggnum var einn gluggi, lítill og hátt uppi. Hann tiheyrði baðinu. Upphaflega áttu að vera bakdyr þarna þar sem væri gengið inn í þvottahúsið en af einhverjum ástæðum hafði því opi verið lokað með asbestfleka og neglt fyrir. Þegar svo olíukynding kom í húsið var endanlega girt fyrir þessa út- og inngönguleið því olíutanknum var komið fyrir á einhvers konar palli, hrófatildri sem minnti á vinnupall, hátt upp við vegginn þar sem téðar dyr áttu að vera. Ég veit ekki hvers vegna þessu var komið svona fyrir, kannski svo að olían rynni betur inn í húsið, kannski til að þurfa ekki að kaupa dælu. En aldrei var neitt gert í að breyta þessu fyrirkomulagi þó að mamma kvartaði oft sáran yfir því að hafa ekki bakdyr en þurfa að búa við umferð skítugra karla, krakka og mjólkuríláta inn um forstofuna, eftir ganginum, gegnum eldhúsið og þaðan inn í þvottahús.

Dálítið fyrir norðan húsið var steinn þar sem var barinn harðfiskur - samt held ég að ekki sé hægt að kalla hann fiskastein eins og voru í gamla daga - til þess var hann of venjulegur.

Á austurhliðinni voru þrír gluggar. Nyrst var þvottahúsglugginn, þá kom eldhúsglugginn og loks var svo lítill gluggi á búrinu austast, sömu stærðar og í sömu hæð og á baðinu. Þvottasnúrurnar voru á grasbalanum fyrir austan húsið. Við austurhliðina hafði gömul hálfbrotin asbestplata verið reist upp við vegginn. Bak við plötuna var stundum skotið ýmsu dóti, áhöldum og málningardósum ef ég man rétt. Kannski var þar líka geymdur matur stundum en annars var matur aðallega geymdur norðan við húsið. Ísskápur kom ekki fyrr en um 1970 ef ég man rétt.

Sunnan við húsið var svo garðurinn hennar mömmu. Hann var girtur með hænsnaneti og girðingin fór fljótt að ganga úr sér, enda var viðhald hennar ekki forgangsverkefni hjá karli föður mínum. Göt vildu koma á netið og þá voru hænurnar skæðar með að smeygja sér inn. Ég man t.d. að Surtla (sem ég átti) gerði þarna mikinn usla, aðallega þó vegna þess að ég vildi ekki reka hana burt af því að ég átti hana. Ég fékk auðvitað miklar skammir fyrir.

Í garðinum var svolítið rifs að austan, sem alltaf var undirlagt af lús, og uppskera grátlega lítil. Svolitlar birkihríslur og líklega ein ösp voru að sunnan. Grasbletti man ég eftir í miðjunni. Þarna voru nokkrir fjölæringar, eins og garðabrúða, venusvagn og rannfang. Ég man líka eftir stjúpum og morgunfrúm sem mamma hefur sjálfsagt sáð til sjálf. Einhvern tíma fékk ég að hafa þarna lítið beð út af fyrir mig en man ekki hvað var í því.

Að lokum gafst mamma upp á garðinum, nokkru áður en nýja húsið var byggt minnir mig, enda var hún þá farin að vinna heilmikið utan heimilis og alltaf sama tregðan með girðingarviðhaldið. Merkilegt má samt heita að hún skuli ekki bara hafa ráðist í að girða sjálf. Ég er samt viss um að garðurinn veitti henni margar ánægjustundir; hún var þarna oft langt fram á nótt þegar vel viðraði.

Eigum við svo að fara inn eftir ca. mánuð?

Web Counter