1752 - og kannski 2007?
Þessi vetur var af nokkrum kallaður í Höfn Íslendingavetur vegna uppgangs þess, er Íslandsmenn höfðu.
Sauðlauksdalsannáll
1752
Húmor á 18. öld
Sá sem setti þessa lýsingu á sakamanni, fyrir hans þriðja hórdómsbrot, á blað á fyrri hluta 18. aldar hefur verið með húmorinn í lagi - takið sérstaklega eftir röð atriðanna í lýsingunni:
Af sýslumanninum úr Mýra sýslu, sr. Sigurði Högnasyni, lýst Gunnari Einarssyni frá Þverárhlíð í Mýra sýslu, útlögðum barns-föður af Guðrúnu Jónsdóttur, vinnukonu á Karlsbrekku í Þverárhlíð, hver hennar lýsing, ef sönn sé, þá væri hið sama Gunnars þriðja hórdóms brot; en hans auðkenni þessi:
Að vexti meðal-maður í lægra lagi, dökkur á hár og mump [skegg], brún og brá, með stutt slikings [lint] hár, búkgildur, hærður, sköllóttur, ennis-breiður, stór-eygður, rang-eygður, rétt-nefjaður, nasa-víður, vara-þykkur, munn-víður, höku-stuttur, allur grettur og hrokkinn í andliti, háls-digur, handa-gildur, fóta-stuttur, setningslegur og seinn í tali, takandi nef-tóbak, mjög vanfær og burða-lasinn, 82 ára gamall.
Óskar sýslumaðurinn Sigurður, að kongl. Majest. betientere [embættismenn] hér í landi færi þennan Gunnar, hvar sem hittast kann, til Mýra sýslu, uppá það um þetta barneignarmál kynni löglega að afgjörast. Lýsing þessi með sýslumannsins Sigurðar Högnasonar undirskrifuðu nafni er af 7. Julij þessa árs 1736.
Alþingisbækur Íslands.
Skotraufar
Þegar ég hljóp út á Nes í fyrradag (því það var hagstæðari hlaupaátt) staldraði ég aðeins við til að skoða húsið mitt sem nokkurn veginn er lokið við að byggja á mörkum Reykjavíkur og Seltjarnarness. Fyrst þurfti að rífa gamalt bárujárnsklætt timburhús sem stóð þarna. Ég veit ekki hvort það er rétt að annar hvor Bakkabróðirinn hafi byggt þetta hús okkar, víst er þó að þar er stórhuga maður á ferð. Flatarmálið er heilmikið og hæðirnar, sem sjást, tvær. Gætu verið fleiri neðanjarðar. Mér finnst líklegt að arkitektinn sé sá sami og teiknaði viðbyggingu Alþingishússins, svipuð notkun á grjóti. Norðurveggur hússins er nær allur úr því efni. Gluggi sýnist mér vera einn en annars eru á veggnum skotraufar, rétt eins og þær sem voru svo mikið í móð hjá höfðingjum erlendis á miðöldum, til að skjóta út um. Spurning hvort ekki er meiri hætta á að skotið verði inn um þessar.
Ég er alls ekki feimin við að skoða ný og höfðingleg hús í krók og kring, því ca. 99,99 prósent líkur eru á að ég eigi þau. Auðvitað dettur mér ekki í hug að skemma neitt - bæði afþví að ég á þetta og líka vegna þess að allt svona er tryggt og því lendir það bara á tryggingafélögunum - okkur - að borga. Þetta ættu þessir asnar með málninguna að hafa í huga.
Tröllakirkja
Um síðustu helgi gengum við þetta fjall, helstu stelpurnar í árgangi 76 frá Laugarvatni með mönnum okkar flestra, tveimur úr fyrrnefndum árgangi. Það var einróma álit fjallgöngugarpanna vina minna í þessari ferð að þetta væri frábært fjall og kæmi á óvart (eins og Ari Trausti reyndar segir líka í fjallabókinni sinni). Útsýnið af Tröllakirkju er frábært, man ekki hvað sýslurnar eru margar og uppgangan í heild er dásamleg. Við fórum upp nokkurn veginn þar sem Ari Trausti segir, gættum þess að velja frekar holt og hæðir en mýrar og þegar aðeins fór að verða brattara upp fylgdum við þessum líka dásamlega fremur vatnsmikla læk með fossum og flúðum og grónum bökkum með lyngi og grasi. Það sást að mannskepnan er ekki ein um góðan smekk á landslag því meðfram læknum voru kindagötur sem sérlega gaman var að þræða. Tveir synir einnar úr hópnum skemmtu sér svo við að slá merarosta/gorkúlur eins og golfkúlur meðfram götunum.
Þegar ofar dró vorum við svolítið í vafa um hvaða stefnu skyldi taka en ákváðum að fara beint áfram upp dálitla grjóturð þar sem var nokkur hætta á hruni en fórum varlega svo allt var í lagi. Kannski hefðum við átt að sleppa urðinni og beygja strax til hægri og þaðan upp á tindinn. Þegar "hrunurðinni" sleppti tók við grýttur hryggur í norðurátt upp á tindinn en nokkurn veginn á tindinum sjálfum verður undirlag dægilega slétt og þægilegt undir fæti. Við vorum góða stund þarna uppi og fögnuðum sigrinum yfir fjallinu og dáðumst að útsýninu, ekki var það síst í vesturátt þó að Veðurstofan hefði spáð öðru. Ég man einmitt hvað það var gaman á "hryggnum" þegar allt í einu opnaðist sýn í vestur.
Á niðurleiðinni slepptum við hrunurðinni en fórum þess í stað niður harðfannirnar aðeins sunnar. Ég gat ekki stillt mig og renndi mér á rassinum á kafla. Við stöldruðum af og til við á niðurleiðinni til að tína ber, sem nóg var af í fjallinu, t.d. öldungis frábærlega þroskuðuð og feit krækiber, en fundum líka töluvert af blá- og aðalbláberjum. Þegar niður að Melum kom tók auðvitað við heitur pottur, vín og matur og önnur dægileg samvera.
Ég held að það hafi verið nokkurn veginn einróma álit hlutaðeigandi að ef eitthvað var hafi þetta verið betra fjall en
í fyrra. Þá gengum við á Geldingafell, næsta fjall fyrir norðan, en eyddum örugglega fleiri kaloríum, því við gengum ca. tíu km að því og svo upp það og niður af því og kílómetrana tíu aftur að Melum. Það var bráðskemmtilegt líka því við samkjöftuðum varla alla leiðina, en vorum ívið þreyttari og lengur að.
Nú er spurning hvert skal halda næst, því þetta er orðið hefð. Fjöll eru svosem ekki á hverju strái í Hrútafirði en mér dettur í hug sá dásamlegi og grösugi dalur Bakkadalur, sem ég heimsótti fyrst í sumar; að ganga frá Bæ (ekki keyra), og ganga svo á Bakkafell og þræða eyðibýlin, eða kannski að yfirgefa fjörðinn og halda á slóðir móðurættarinanr og skeiða úteftir Vatnsnesfjalli. Hvað sem af verður hlakka ég til að hitta mína yndislegu og góðu vini og ferðafélaga aftur.