29.9.05

Að leika sér að málinu

Mikið hafa afar okkar og ömmur og þeirra afar og ömmur o.s.frv. haft gaman af málinu. Þetta er oft svo skemmtilega úthugsað, eins og kveðskapur svei mér þá. Dæmi: Klúturinn minn er týndur og tröllum gefinn, sagði einhver - svo var annar sem t.d. týndi handriti og sagði: Handritið mitt er týnt og tröllum sýnt - það bæði stuðlar og rímar. Svo fann ég í dag lýsingu á holdafari: honum er troðið í skinnið. Hvað ég kannast vel við þá tilfinningu!

Web Counter

28.9.05

Ein á báti

Ég hef verið ein heima í dag. Það er svo sem ekki nýtt að ég vinni ein heima fyrri part dagsins, en í morgun fóru aðrir úr fjöldkyldunni vestur á Ísafjörð og koma ekki fyrr en í fyrramálið. Það hefur því verið fremur hljótt hér seinni part dagsins, og gott næði til að lesa orðabókartexta - þurfti sem sé ekki að láta mér leiðast, eða þannig.

Ég hef ekki fengið neinn tölvupóst síðan í fyrradag. Þar ber nýrra við. Skyldi fólk hafa vitað af þessari óvæntu einveru og ekki viljað trufla? Eða þorir enginn lengur að nota tölvupóst minnugt reynslu Jónínu?

Web Counter

23.9.05

Árstíðir

Ég hef tekið eftir því að ég sveiflast alveg rosalega eftir árstíðum. Byrjum svona undir lok október. Þá fer ég að hlakka til jólanna, þó að slíkt væri bannað í mínu ungdæmi á þessum árstíma. Svo verð ég jólagal í desember, sérstaklega eftir að ég fór að búa til jólakort fyrir nokkrum árum. Þetta rennur svo af mér eftir áramótin og þá skil ég ekki í þessu fári öllu og verð bara fegin að geta hafið nýtt og skrautlaust líf. Janúar líður nokkuð settlega, svo tek ég gjarnan öskudagskipp með stelpunum mínum. Þá nálgast páskar og þá ber ég inn í hús og upp á svalir ógrynni af páskaliljum, gul kerti og servíettur (þó bara inn í húsið) o.s.frv. Framdi einu sinni algjöra skreytingasprengju um þetta leyti í sumarhúsi fjölskyldunnar, hænuegg, mosi úr garðinum o.fl., alveg hrífandi! Fæ svo kast yfir páskaliljum í garðinum í apríl/maí og svo annað enn kröftugra yfir túlípönum í maí/júní. Þá kemur sumarleyfisfiðringurinn, kannski kaup á útilegudóti eða lega yfir líklegum sumardavalarstöðum á Netinu. Svo fríið sjálft, yfirleitt mjög skemmtilegt - en mikill feginleiki þegar allt kemst í réttar skorður í ágúst. Þá byrjar berjatínsla - og þá mega menn fara að vara sér eins og danskurinn sagði forðum - ég veit ekki neitt yndislegra en að komast í berjamó á bernskuslóðirnar. Svo er rifsið í heimagarðinum - í ár hafði ég svo mikið að gera að það lá bara óbætt í garði - eða hvernig maður orðar það - sem sé ekkert tínt. Nú er fremur rólegur tími, læt nægja að kveikja á kertum og hafa fallegar (bleikar) servíettur við (bleikan) blúndudúkinn. En ég finn að bráðum fer ég að rúlla niður í jólafílinginn - enda bækurnar bráðum komnar í búðirnar.

Skammdegið er allt í lagi í þannan endann, eins og að hjóla niður brekku - erfiðara upp brekkuna - eftir gleðina í janúar.

Web Counter

21.9.05

Sjónvarpsþáttapersónur og aðrir nánustu aðstandendur

Yngri dóttir mín er 11 ára í dag og í dag byrjaði Bráðavaktin. Þá minntist ég þess að ég var heima með hana nýfædda þegar ég horfði fyrst á Bráðavaktina. Ég er sem sé búin að þekkja þetta fólk í 11 ár! Það er auðvitað alveg hræðilegt, en þetta verða eins og vinir manns (við mæðgur grétum t.d. heil ósköp þegar þessi með gleraugun dó fyrir nokkrum árum og hneyksluðumst yfir því að George Cloony eða hvað Doug annars heitir skyldi ekki vera við jarðarförina). Sumir þola ekki svona væmna langhunda, maðurinn minn fer t.d. oft í bíltúr meðan þetta gengur yfir.

En er annars furða að maður verði nátengdur sjónvarpspersónum, hvað umgengst maður vini sína marga klukkutíma á viku, nær það alltaf heilum tíma?

Samt finnst mér miklu heilbrigðara að heillast af fólki sem er að leika eitthvað í sjónvarpi en af fólki sem situr og les eitthvað upphátt og spyr um eitthvað (fréttamenn t.d.) eða segir ég er frábær þú ert frábær (Gísli Marteinn t.d.) - ÞAÐ er bilun.

Ég læt Beðmál í borginni bíða betri tíma.

Web Counter

19.9.05

Um handritalækningar

Handritalæknar eru ekki alltaf öfundsverðir, frekar en aðrir læknar, læknarnir fá þó meira kaup. Stundum hlýtur þó líðanin að vera svipuð, að standa frammi fyrir einhverjum dæmalausum hroða, sem virðist ólæknandi, en byrja svo að gramsa í þessu og sjá, fyrr en varir er kominn boðlegur texti/bara fallegasta nef.

Var að velta því fyrir mér hvað allir eru alltaf að keppast við að gera eitthvað sem þeiri eru ekki góðir í. Það heitir víst áskorun. Manneskja sem t.d. er orðin ótrúlega flink að lækna handrit söðlar allt í einu um og fer í tölvunarfræði eða eðlisfræði (nei, yfirleitt eitthvað sem allir halda að maður geti orðið obboðslega ríkur af). Hún fær auðvitað krabbamein og/eða hjartakveisu af öllu álaginu en það borgar sig alveg því hún fékk svo mikið út úr áskoruninni.

Skylt þessu er þegar málhalt fólk þyrpist í leiklist og fjölmiðla - það er svo mikil áskorun og því líður víst svo vel af þessu - öfugt við okkur þolendurna.

Web Counter

18.9.05

Annað eða þannig

Svokallað fjölskylduafmæli í dag. Rólegra en á föstudaginn, brauð, ostar og kökur núna. Bakaði karamellubombuna sem er svakaleg hlussa og á varla heima á svona sunnudagseftirmiðdagskaffiborði, hentaði betur sem eftirréttur að aflokinni góðri máltíð þegar maður væri að halda upp á Reykjavíkurmaraþon, göngu á Esjuna eða t.d. yfir Haukadalsskarð, svo dæmi sé tekið. 7 km. dagsdagleg ganga eftir Ægisíðustígnum er lítið upp í svona köku - en hún er helvíti góð.
Annars gerði ég ekkert af viti í dag. Svolítið rætt í dag um framboðsmál, broskallinn sem vill verða borgarstjóri og svoleiðis. Ég ljóstaði því upp að ég stóð alveg á gati þegar Gallup vildi vita hvað ég myndi kjósa. Svo þetta klassíska - launamunur kynjanna. Ég vil taka upp gamla skattafsláttinn, viðurkenna þetta í bili, bíða þangað til munurinn er orðinn 0,5 eða þar um bil og afnema þá, nema kannski hjá umönnunarstéttunum og kennurum.

Web Counter

16.9.05

Fyrsta vers

Hef ég nú bloggið. Er þetta ekki fín aðferð miðaldra einyrkja sem vinnur heima allan daginn til að verða ekki vitlaus?

Hér var 11 ára afmæli í dag. Furðulegt hvað 12-13 stúlkur á þessum aldri geta verið hávaðasamar og mikið vesen á þeim. Svo er þessi hópur miklu verri en hópur hinnar dótturinnar sem er þó ekki nema ári eldri. Þær dömur sitja bara og mala við borðið eins og konur á mínum aldri og gleyma stundum alveg að fara í leiki eða vera með hasar.

Það er líka sérkapítuli það sem er á borðum í svona afmælum. Freistaðist til að fá mér sneið af Dominos-pitsu og súkkulaðiköku (mína). Þetta er hræðilega óhollt, finn það á öllum meltingarveginum. Eins gott að ég keypti árskort í Þrekhúsinu í dag. Hvað ætli sú stöð sé búin að ganga undir mörgum nöfnum til þessa?

Mikið óskaplega finnst skoffíninu Hannesi Hólmsteini leiðinlegt að það skuli ekki allir hafa sagt hallelúja þegar Davíð hætti. Grein hans í Fréttablaðinu í dag er bæði grátleg og hlægileg. Í rauninni finnst mér það einn versti bletturinn á Davíð að hann skuli hafa liðið þessu fyrirbæri að halda upp þessari áratugalöngu gagnrýnsilausu lofgerðarrollu um sig.

Það er svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki haft mig í að fara á bókmenntahátíð en dauðlangar á Borgarlistasafnið, sýninguna um Reykjavík þar sem maður má koma með hugmyndir. Hef heyrt fyrirlestur hjá henni Ágústu sem stýrir sýningunni og lesið grein eftir hana. Þetta er bráðskörp ung kona með skemmtilega sýn og á auðvelt með að hrífa fólk með sér. Ekki svona embættisgráni eins og mér sýnast flestir R-listamenn vera orðnir (ef þeir hafa ekki alltaf verið það).

Web Counter