Ofurfjölgun lesenda
Ég hugsa að mörg fjármálafyrirtækin þættust góð með þann vöxt sem síðustu viku eða svo hefur hlaupið í lesendahóp minn (sem fyrst í stað gat víst varla kallast hópur). Allt sýnist mér þetta vera skyldmenni mín, andleg (mæðgurnar) og gegnum frændsemi.
Þessi vika hefur annars verið alveg brjáluð, mikill prófarkalestur, þýðingar og alls kyns snatt. En frábær þrátt fyrir annríkið því stórorðabókarhöfundi fer hraðbatnandi, og þá er maður ekki að kvarta yfir tímabundnum önnum.
Mikið væri gaman fyrir okkur frænkurnar að halda ærlegt ættarmót með smá Hellubæjarleshring og tjaldútilegu í títtnefndu Ormsárgili - og þá verður það að vera í Kömbunum, stelpur, allt fyrir neðan brún er ómark, Birna. Það ættu nú ekki að verða vandræði að koma þessu í kring þegar "Jónasarklanen" er kominn með sumarbústað við ána!
Að endingu, skilaboð til verðandi móður: Guðrún frá Lundi er prýðislesning fyrstu mánuðina eftir fæðingu. Mér var bent á þetta, prófaði og fannst stórskemmtilegt. Gæti trúað að lengstu sögur Selmu Lagerlöf væru góðar líka.
Klukk
Ég roðna næstum, það er svo langt síðan ég var klukkuð Sú sem það gerði var
Ólöf. Nútímaklukk felst víst í því að gefa fimm (ekki satt) berorðar yfirlýsingar um sjálfan sig. Jæja, 1. Ég er afskaplega svag fyrir Margit Söderholm. Fáir núlifandi Íslendingar aðrir kannast við hana en hún var þýdd sundur og saman og móðir mín, ég og fleiri lásu hana af áfergju fyrir, ja, ca. 30-40 árum. Upp úr stendur Hátíð á Hellubæ með undursamlegum lýsingum á mat og kvenfatnaði 18. aldar aðalsmanna í Svíþjóð. Gæti alveg komið að þessu síðar. Kannski þaðan runnin sú fullvissa mín að ef ég ætti að búa í sveit yrði það ekki sem skepnubóndi heldur fígúra sem ekki þyrfti nauðsynlega að lifa af landinu. Hefur næstum ræst! (Borðaði einu sinni hádegismat með nokkrum sænskum þýðendum (kellingum) og minntist þá á þennan ágæta höfund. Við lesum ekki svoleiðis bækur sögðu þær næstum í kór, munnurinn varð eins og strik og svo kom óþægileg þögn. Aumingja þær!)
2. Virðist allllls ekki geta kosið Sjálfstæðisflokkinn, bara ekki nokkur leið. Skýri ekki nánar.
3. Finnst bleikt og gyllt rönd (á stelli) fallegt. Flosi Ólafsson sagðist einhvern tíma verða sífellt meiri kelling með árunum. Sammála, skilst að þetta séu merkin.
4. Finnst landslag ekki endilega þurfa að vera með ofurhvössum fjallseggjum og birkikjarri. Ormsárgil í Hrútafirði með sínum megna krækilyngsilmi er mín Paradís á jörð. Þar ætla ég að tjalda eina nótt áður en ég dey (helst með látum).
5. Uppáhaldsfornsagan mín er Njála af því að þar hefur einhver góður vinur minn tekið sig til og pakkað öllu sem máli skiptir saman í eina sögu (eða tvær)?
Nú er úr vöndu að ráða, lesendur mínir eru tveir og annar búinn að klukka mig. Bíð þar til ég verð vör við þann þriðja. Nema Andrés vilji afhjúpa sig.
Vanagangur á ný
Hér hefur orðið nokkurt hlé en nú tek ég upp þráðinn á ný. Mikið getur maður þakkað fyrir þetta venjulega og hversdagslega, eins og það að geta spásserað eftir Ægisíðustígnum alla laugardags- og sunnudagsmorgna, og meira að segja stundum í góðu veðri. Og að hafa fólkið sitt í kringum sig eins og venjulega.
En það verður líka að vera nöldur. Hræðilegt er að heyra í þessum krakkakvikindum sem þykjast vera fréttamenn á hinum útvarpsstöðvunum núna. Heyrði í einhverri stelpuskjátu um miðjan daginn sem hafði alls staðar t þar sem aldrei hefur verið borið fram t, meira að segja gerði hún líka t úr d. Minnti svolítið á Bubba og Egil Ólafsson þegar þeir voru að vanTa sig á árum áður.