31.7.06

Borðeyrarhátíð

Ég segi ekki að mér hafi borist fjöldi áskorana en því var alltént vel tekið þegar ég sagðist mundu setja ræðuna um hann Bjössa kennara frá því á Borðeyrarhátíð inn á bloggið hjá mér. Skýringin á pistlaleysi að undanförnu er annars langdvöl í Hrútafirði. Einhvern veginn nennti ég ekki að setja neitt inn á bloggið dagana sem ég var þar, og voru þeir þó frábærir. En nú fer ég að dæmi Björns Bjarnasonar, leiðinlegasta bloggara Íslandssögunnar, og gef sjálfri mér orðið:

Tuttugustu öldinni fylgdu framfarir á flestum sviðum mannlífsins hér á landi. Mikill munur var þó á því hversu hratt breytingar urðu í þéttbýli og dreifbýli. Þetta á til dæmis við um menntamálin. Þannig var farskólafyrirkomulag víða í sveitum fram yfir miðja öldina. Bæhreppingar bjuggu við slíkt fyrirkomulag til ársins 1951, er mér tjáð. Ekki nóg með það, heldur var skólavistin helmingi styttri en í þéttbýlinu því að yngri og eldri deild sóttu skólann til skiptis. Þar við bættist að sveitabörn byrjuðu átta til níu ára í barnaskóla löngu eftir að skólaskylda í þéttbýli hafði verið bundin við sjö ára aldur. Ég má þó til með að skjóta því að, okkur til huggunar sem nutum svo stuttrar barnaskólagöngu, að ég hef heyrt þeirri kenningu haldið fram að því styttri barnaskólagöngu sem fólk hafi fengið þeim mun betur lukkað sé það. Kannski það sé að einhverju leyti skýringin á því hversu ágæt við erum, eldra fólkið hér. En ætli við eigum samt ekki meira að þakka í því sambandi okkar ágæta læriföður Þorbirni Bjarnasyni, og er ég þá loksins komin að efni þessarar ræðu.

Þegar Gulla Jónasar hringdi til mín og bað mig að halda ræðu Bjössa kennara til heiðurs gat ég ekki annað en svarað strax já og mín er ánægjan.

Seinna komu á mig vöflur. Átti ég að semja algera lofræðu, það hefði verið auðvelt, skyldi þetta vera ævisaga eða eitthvað annað? Ég ákvað að sleppa ævisögnni að mestu. Bjössi er heimamaður og við vitum flest að hann er fæddur árið 1934, það er auðvelt að komast að því að hann lauk landsprófi frá Reykjaskóla árið 1952 og frá Kennaraskólanum 1957, lærði á hljóðfæri einhvern tíma á þessu tímabili og kenndi á Borðeyri frá 1957 til 1980. Hann lærði síðan blindrakennslu í Noregi og hefur kennt blindum nemendum í Reykjavík fram undir þetta.

Þetta læt ég duga af beinum staðreyndum. Hér á eftir ætla ég hins vegar að reyna að hverfa með ykkur aftur í tímann, bregða upp myndum frá tíð minni í skólanum og óeigingjörnu starfi Bjössa í þágu okkar allra. Ég ætla að reyna að hafa í þessu svolitla nostalgíu (fortíðarþrá) og dvelja sem mest við ánægjulegar minningar.

Þessi slitrótta upprifjun mín á lífinu í skólanum undir stjórn Bjössa er auðvitað ófullkomin heimild en ég vona að hún geti hjálpað þeim sem hér eru staddir að rifja upp eigin minningar og átta sig á því ótrúlega starfi sem Bjössi, með fulltingi Önnu ráðskonu sem minnst verður hér á eftir, vann fyrir fólkið hér í hreppnum.

Vinnudagurinn var langur hjá Bjössa. Þegar Anna ráðskona kallaði sitt fræga morgunkall – grautur – því miður er ég ekki nógu músíkölsk til að geta leikið það eftir – var Bjössi mættur í grautinn og fljótlega eftir það hófst kennslan. Hún stóð töluvert fram yfir hádegi. Þá var "langa fríið", sem mig minnir að hafi verið kallað svo, sem náði fram að kaffitíma. Eftir kaffitímann var handavinna a.m.k. tvisvar í viku og lestími var svo fram á kvöldmat. Í lestímanum voru held ég allir nemendur, bæði Borðeyringar og heimavistarbúar. Til marks um það hef ég óljósar minningar um að Bjössi hafi einhvern tíma farið með Alla og Ingvar snarvitlausa heim að kvöldi úr lestíma. Hluti af langa fríinu og síðdeginu fór í aukalesturinn (sem nú kallast sérkennsla, og einhver annar en bekkjarkennarinn annast). Hvenær Bjössi hirti skepnurnar sínar veit ég ekki, giska á að það hafi verið á morgnana áður en hann kom í skólann og síðdegis áður en lestíminn byrjaði, nema hann hafi skotist í langa fríinu. Hann borðaði yfirleitt ekki með okkur kvöldmat, minnir mig, en var samt ekki búinn að sleppa af okkur hendinni um kvöldmatarleytið. Flest kvöld var hann nefnilega með einhvers konar kvöldvöku, spilaði á harmoníkuna undir dansi, var með eitthvert föndur eða fylgdist með og hjálpaði okkur við að setja upp frumsamda leikþætti eða eitthvað slíkt. Ekki má heldur gleyma kvikmyndunum frá fræðslumyndasafni ríkisins og upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna. Þetta voru einu kvikmyndirnar sem mörg okkar sáum þangað til einhvern tíma á unglings- eða jafnvel fullorðinsárum. Hver man ekki til dæmis Chaplin-myndabútana og Gög og Gokke, sem voru jafnvel sýndir aftur á bak líka. Ekki var hann nú alveg sloppinn eftir kvöldvökuna því á kvöldin, eftir að við vorum háttuð, las hann fyrir okkur (ég held báðar deildir) framhaldssögu. Árnabækurnar voru t.d. vinsælar. Ég man mikla spennu þegar sögulok þeirrar síðustu nálguðust með óhjákvæmilegri trúlofun Árna og Rúnu.

Bjössi var mjög góður kennari. Það hef ég sannfærst um af kynnum við marga kennara. Hann var mjög þolinmóður og átti gott með að útskýra námsefnið fyrir nemendum. Ég var haldin þeirri firru að ég væri ekki góð í reikningi og varð því oft reið og pirruð ef treglega gekk að að skilja nýjar aðferðir. Það brást hins vegar varla að Bjössa tókst á stuttum tíma að útskýra allt fyrir mér svo að ég gat haldið áfram með Elíasar Bjarnasonar heftið sem þá var í gangi eins og ekkert hefði í skorist.

Það er mikið álag að kenna stórum bekk á mismunandi aldri og með mismikla getu EINN eins og Bjössi þurfti að gera. Honum tókst þó að skipuleggja þetta með undragóðum hætti. Ég er ekki kennslufræðingur og get því ekki greint aðferðir hans á fræðilegan hátt. Mér virðist þó að þetta hafi mikið byggst á því að láta börnin sem lengst voru komin og færust voru til læra sem mest sjálf, reikna áfram í bókunum í tímum, gera stafsetningaræfingar með eyðufyllingum, verkefni í málfræði o.s.frv. Síðan kölluðu þau á aðstoð eftir þörfum. Yfir bókleg fög eins og landafræði, Íslandssögu, biblíusögur og náttúrufræði fór hann með því að spyrja út í bekkinn og yngstu krakkarnir fylgdust með eins og þeir gátu. Það skal viðurkennt að sumar "bækurnar" eins og mig minnir að þessi fög hafi verið kölluð voru orðnar ansi fastar í minninu áður en yfir lauk.

Yngri börnin lét hann skrifa eftir sér af töflunni og æfði þannig bæði skrift og stafsetningu í einu. Mér fannst þetta skrýtið þegar ég byrjaði í skólanum, vildi fá alvöru stafsetningaræfingar strax, en sá löngu síðar að svipaður háttur var hafður á í skóla dætra minna.

Það var yfirleitt vel unnið í barnaskólanum á Borðeyri og tíminn nýttur til hins ýtrasta. Allir voru saman í lestímum þar sem næsti skóladagur var undirbúinn. Þegar búið var að lesa "bækurnar" og leysa önnur verkefni morgundagsins gátu nemendur ráðið viðfangsefnunum að einhverju leyti sjálfir, sumir héldu þá áfram með sinn Elías Bjarnason eins og ég gerði oftast, lásu eitthvað annað en námsbækur, eða fengust við eitthvað það sem Bjössi taldi að þeim væri hollt að þjálfa sig enn frekar í, svo sem lestur eða skrift. Fyrir kom að dugleg stúlka (eins og ég) var fengin til að leiðbeina eða að minnsta kosti þagga niður í yngri og baldnari pilti (eins og t.d. Indriða á Kollsá).

Undanfarin ár, einkum eftir að dætur mínar hófu grunnskólagöngu, hef ég reynt að fylgjast sæmilega með því helsta sem er á döfinni í kennslu- og uppeldismálum. Þar við hefur svo bæst að ég hef prófarkalesið dágóðan skammt af tímaritum um uppeldis- og menntamál. Þá hefur það gerst alveg ótrúlega oft þegar nýjungar ber á góma að ég hef hummað með sjálfri mér, hugsað sem svo að ekkert sé nýtt undir sólinni og auðvitað orðið hugsað til Bjössa. Ég nefni hér tvö dæmi.

Aldursblöndun í bekkjum. Þetta tíðkast reyndar lítið sem ekkert í Reykjavík en þykir mjög merkilegt í litlum skólum úti á landi, sagt vera mikil kúnst, það er gefið út sérstakt tímarit fámennra skóla, og mér sýnist að sumir menntafrömuðir telji þetta æskilegt í öllum skólum. Af lýsingum að dæma fúnkerar þetta mjög svipað og yngri og eldri deildin hjá Bjössa og er því ekki aldeilis ný uppfinning.
Einstaklingsmiðað nám
Þetta er mikið tískuhugtak núna; til dæmis virðist skólastefna Reykjavíkur hverfast um þetta. Kannski var Bjössi ekki með þetta hugtak fullmótað í kollinum, kannski voru það aðstæðurnar sem gerðu nám í Barnaskólanum á Borðeyri svo einstaklingsmiðað að hver einasti skóli í Reykjavík nútímans hefði talið sig fullsæmdan af, sbr. lýsinguna hér að framan.
Fleiri hugtök gæti ég tínt til en þetta verður að duga hér tímans vegna.

Þetta var um bóklegu kennsluna og lærdóminn. En starf Bjössa einskorðaðist ekki við það eins og áður er komið fram. Við munum öll söngtímana. Bjössi reyndi á sinn elskulega og þolinmóða hátt að sannfæra mig um það að eiginlega væri nú ekki til laglaust fólk en tókst ekki. Ég veit hins vegar að þetta voru mjög ánægjulegar stundir fyrir krakka sem höfðu alist upp við söng og voru tónelskir.

Ein var þó sú grein sem verður að viðurkennast að Bjössi kenndi meira af vilja en mætti. Það var leikfimi. Hann var ekki með próf í íþróttum og ekki íþróttamannslega vaxinn en ég held samt að við höfum bara haft gott af að sprikla svolítið á gömlu þykku dýnunni sem annars var geymd í litlu stofunni hjá orgelinu.

Ég verð að nefna sérstaklega eina nýjung sem Bjössi kom með og kynnti fyrir okkur krökkunum. Það var föndrið. Ég man ekki einu sinni hvort það orð var notað yfir þetta þá. En ég man ljósbláa pappakastalann sem ég bjó til eins vel og ég hefði lokið við hann í gær, gott ef ég finn ekki límlyktina líka. Sömuleiðis standa mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum bastkörfurnar sem við bjuggum til úr allavega litum bastþráðum og pappa. Mig minnir að mín hafi verið fjólublá og gyllt. Loks má nefna jólakortin með glansmyndunum sem allir bjuggu til. Ég veit ekki um drengina en ungar stúlkur voru afar hrifnar af glansmyndunum og gátu endalaust dáðst að fögrum englum, elskendum í rósaskrúði og skeggprúðum jólasveinum.

Bjössi menntaði okkur ekki eingöngu með skólalærdómi. Hann opnaði fyrir okkur glugga að umheiminum með öðrum hætti líka. Skemmtunin sem eldri deildin hélt milli jóla og nýárs annað hvert ár stóð undir kostnaði af skólaferðalaginu sem öll börnin fengu að fara í. Ef ekki hefðu verið þessi ferðalög hefði ég ekki komið á Snæfellsnes fyrr en hátt á þrítugsaldri og hvenær ég hefði komið á Suðurland veit ég ekki ef ég hefði ekki farið í menntaskólann á Laugarvatni. Þetta máttu heita einu langferðir okkar margra. Því var tilhlökkunin geysileg. Ég man þegar við gengum á Helgafell í fyrsta ferðalaginu mínu sem var farið á Snæfellsnes. Það var erfitt ef ekki ómögulegt fyrir þá Daníel á Kollsá og Krumma frænda að líta ekki aftur. Og skyldi það vera rétt sem Daníel hélt fram að Krummi óskaði sér nælonjakka þegar upp kom? Bjössi fylgdist með og hafði gaman af. Ég man hvað það var gaman að borða nesti úti í þessum ferðalögum og gista á ókunnugum stað og sofa í svefnpoka. Við urðum líka að vera fín til fara á ferðalaginu. Ég held að ég muni það rétt að nær allir hafi verið í H-buxum úr kaupfélaginu 1968. En líklega höfum verið í einhverju öðru en nælonjökkum að ofan.

Skemmtanirnar voru auðvitað aðalatburður vetrarins þegar þær voru haldnar. Síðasta veturinn minn í skólanum færðum við upp leikritið Yngingalækninn frá Ameríku undir styrkri stjórn Góu Kvaran í Brú. Ég fór með titilhlutverkið, yngingalækninn, vísast af því að mér var best treyst til að muna svo langa rullu, þó að reyndar þyrfti að hagræða textanum nokkuð vegna breytts kynferðis læknisins. Daníel á Kollsá var aðstoðarmaður minn en með stjörnuhlutverkið, sem vakti langmesta kátínu samkomugesta, fór Krummi frændi. Það var gamall ruglaður karl sem læknirinn hafði óvart of lengi inni í klefanum (sem mig minnir að hafi skolfið óþægilega þegar Krummi þrammaði inn í hann enda úr pappa) og kom út smápolli (man ekki hver lék hann). Ef ég man rétt fólst yngingarbúnaðurinn í fyrrnefndum klefa og á hann var fest stýrishjól af leikfangabíl eða einhverju slíku sem læknirinn sneri til að stilla á passlega yngingu. Mig rámar í að Pálmi hafi hjálpað til með leikmyndina. (Þess má geta að 11 árum síðar fetaði Didda systir í fótspor mín og fór með sama hlutverk í nýrri uppfærslu verksins.)

Sem ungur gestur á einni af þessum skemmtunum man ég best álfadans sem nokkrir nemendur dönsuðu íklæddir marglitum búningum úr kreppappír, sem Bjössi hafði hjálpað krökkunum að útbúa. Ég var alveg hugfangin af litadýrðinni og man ekki betur en þessir búningar væru enn til þegar ég byrjaði í skólanum og við fengjum stundum að bregða okkur í þá.

Eins og þegar hefur komið fram var Bjössi önnum kafinn við að sinna okkur krökkunum allan daginn. Þetta var ekkert 9-5 starf. En einhvern veginn var eins og öllum þætti þetta sjálfsagt. Bjössi vildi allt fyrir alla gera, hann þekkti flesta í sveitinni frá fornu fari og því þróaðist þetta svona og öllum fannst það bara sjálfsagt. Fyrir utan kennsluna hlóðust á hann ýmis aukastörf. Hver var heppilegast að sæi um lestrarfélagið? Nú, auðvitað fræðarinn, Bjössi kennari. Hver var svo góður að spila alltaf á jólaböllunum? Hver annar en Bjössi. Hver þótti kjörinn til að spila í öllum messum báðum megin fjarðar og æfa kirkjukórinn? Auðvitað Bjössi. Þarna vildi honum þó til happs að presturinn sinnti ekki nema því bráðnauðsynlegasta í kirkjulegu starfi, og kannski varla það.

Allar þessar annir og nábýlið við börnin þurrkuðu mikið til út prívatlífið. Svo dæmi sé tekið man ég að við komumst öll á snoðir um það einhvern tíma þegar sölumaður kom í kaupfélagið frá fataverksmiðjunni Gefjun að Bjössi ætlaði nú að láta verða af því að fá sér nýjan jakka. Það var ekki við annað komandi en að öll hersingin fylgdi honum út í kaupfélag og aðstoðaði hann við valið.

Þessi mikla nálægð við börnin og sveitungana yfirleitt svipti Bjössa miklu af þeirri virðingu sem hefði hjálpað til að skapa meiri aga í skólanum. Þetta má kannski best marka af því að í huga flestra hreppsbúa var hann Bjössi kennari í Lyngholti, ekki Þorbjörn Bjarnason skólastjóri.

Ég er viss um það að þegar Bjössi hvarf frá störfum hér árið 1980 hefur honum þótt nóg komið. Þetta hafði verið mikið álag í 23 ár. Hann hélt þá fljótlega utan til náms í sérkennslu blindra í Noregi og starfaði við slíka kennslu eftir að hann kom aftur frá námi og hefur gert fram undir þetta. Þarna þykist ég viss um að hæfileikar Bjössa hafa notið sín til fulls, þolinmæðin, natnin og skilningurinn en kannski umfram allt góðmennskan og velvildin til allra manna.

Ég þakka mínum ágæta kennara fyrstu leiðsögnina út í lífið.

Web Counter

12.7.06

Útréttingar mínar

Það eru einhvers konar álög á mér hvað það gerist oft þegar ég kaupi eða ætla að kaupa eitthvað eða tek að mér að útvega eitthvað, redda hlutunum, að eitt og annað bregst í því sambandi. Ég get strax tekið saman dálaglegan lista:

1. Þvoði dýnuverið fyrir mömmu og komst að því á eftir að það var úr ull, ekki bómull. Eftir þvottinn hefði það þjónað vel sem martröð þæfingakellingar (sem býr til sjöl, mottur, jafnvel glös úr þæfðri ull). Ég með óþvegna verið inn í Fen (hef áður lýst þeirri bílferð) þar sem ég panta annað sömu stærðar. Sæki það skömmu síðar, set það utan um, en því miður of stórt! Aftur inn í Fen og panta annað ver sem átti að verða tilbúið eftir viku. Hef ekki heyrt af því enn.

2. Keypti hjól handa stelpunum um daginn. Var harðneitað um leiðarvísi og varð hundfúl.

3. Keypti hengirúm í sumar og lét einhvern strákbjána telja mér trú um að örmjótt nælonband dygði alveg til að halda því uppi. Það sannaðist í gær að það dugir ekki. Þarf því að fara aðra ferð í Húsasmiðjuna.


4. Keypti í IKEA lítið fartölvuborð sem ég get staðið við. Gott og blessað, ef það væri ekki svo létt og valt að ég þori ekki að setja tölvuna á það!

5. Keypti mér langþráða matvinnsluvél um daginn. Var á hraðferð að kvöldlagi og ákvað að taka sénsinn og kaupa síðasta eintakið í búðinni. Fann að það var smá kaupstaðarlykt af búðarkonunni en hugsaði með mér að það væri skiljanlegt. Ef ég þyrfti að vinna alla daga og kvöld líka í gluggalausu rými í Kringlunni myndi ég örugglega ekki halda það út nema rallhálf að minnsta kosti hálfan fimmtudaginn. Jæja, þegar ég kom heim með gripinn kom í ljós að hálfa konan hafði gleymt að setja leiðarvísinn í kassann. Eftir miklar pælingar komst ég að þeirri niðurstöðu að rifjárnsskífurnar gætu ekki fúnkerað með þeim búnaði sem kom upp úr kassanum. Ég átti leið austur í bæ daginn eftir og kom við í Kringlunni og fékk skífuna sem vantaði fyrir rifjárnin og leiðarvísinn. Ég fékk ekki að hitta hálfu konuna. Hún var veik!

Web Counter

7.7.06

Hverju skemmtir Harpa okkur með næst?

Farið efst á bls. 54 í Fréttablaðinu og lesið 2 HLUTA (já það er rétt!) hinnar æsispennandi ástarsorgarsögu Hörpu sem var "bitin í rassinn af því sem hún hafði sjálf gert öðrum ... og það fast," eins og hún segir. Hvað skyldi koma næst frá þessum efnilega pistlahöfundi? Tillögur:

1. Lopapeysan sem mig klæjaði undan
2. Þegar ég fattaði hvernig ætti að ydda blýant
3. Hvernig ég ætlaði ekki að vera að vakna í gærmorgun
4. Þegar ég fékk vind upp í munninn þegar ég var 11 ára og þroskaðist heilmikið af því
5. Ólíkur tannkremssmekkur minn og nýja kærastans (sem hún eignast vonandi áður en langt um líður enda á hún það sannarlega skilið eftir þessar raunir)
...
Hvað eru ritstjórar þessa blaðs annars að hugsa?

Web Counter

6.7.06

Eins og talað út úr mínu hjarta

Mikið er nýjasti pistill þessa bloggara í anda þess sem maður hefur stundum hugsað yfir Séð og heyrt á hárgreiðslustofunni.

Web Counter

5.7.06

Áhrifavaldar/-atvik í lífi mínu

Það er þáttur í útvarpinu núna með heiti nálægt þessu þar sem þjóðkunnugt fólk (nema hvað!) segir frá áhrifavöldum sínum. Heyrði í gær part af Pétri Gunnarssyni sem ég hefði viljað heyra allan og nú áðan alla Bryndísi Skram (sem var óþarflega mikið, hún er margbúin að segja þetta í glönsurunum blessunin en tónlistin svo sem ágæt).

Ég fór að rifja upp, svona fyrir mína parta, því það hlýtur að mega þó að maður sé ekki frægur. Einhverra hluta vegna staðnæmdist ég við fyrsta leikritið sem ég man eftir að hafa séð, kannski af því að ættmenni mín og nágrannar komu þar mjög við sögu. Þetta var ærslaleikurinn Klerkar í klípu. Leikstjóri var Erlingur Gíslason, alveg guðdómlega fallegur þá. Með aðalhlutverkið, prestsins, fór Jón faðir minn. Ég gleymi aldrei nærfatasamfellunni sem hann skrýddist mestan part leiksins. Þannig stóð á því að frést hafði að á sýningu suður með sjó hefði presturinn misst niður um sig nærbuxurnar og siðsamir bændur norður í Hrútafirði vildu ekki hætta á neitt slíkt, þó að eftir á að hyggja sé augljóst að slíkt atvik hefði aukið mjög á skemmtigildi sýningarinnar (sem var þó ærið fyrir, fannst mér a.m.k.).

Aðrir helstu leikarar voru: Lára Helgadóttir símritari í Brú (prestsfrúin, létt á bárunni), Jón Kvaran sömuleiðis símritari, sama stað (biskup), Þórbjörg Kvaran póstafgreiðslumaður (piparjómfrú), Erlingur sjálfur (sjarmör, fornvinur prestsfrúarinnar). Að auki man ég mjög vel eftir Magnúsi á Stað í sínu litla hlutverki, hann lék afar ógvekjandi innbrotsþjóf sem rotaði prestinn (Jón á Melum). Það var á því andartaki sem ættingi minn í salnum greip aðeins inn í sýninguna.

Þetta var Nonni frændi. Hann spurði móður sína hátt og skýrt svo heyrðist um allan salinn: Mamma, af hverju barði Maggi á Stað Jón í hausinn? Nonni hefur alltaf verið mikill raunsæismaður, það má segja að það hafi snemma beygst krókurinn. Móðir hans var rétt búin að þagga niður í honum þegar hann tilkynnti henni að nú þyrfti hann að pissa öllu gosinu sem hann var búinn að drekka og hún varð að þræða sig milli sætaraðanna með hann við lítinn fögnuð salarins.

Það þarf ekki að taka það fram að við systurnar, frænkur hans, skömmuðumst okkar niður í tær þar sem við sátum þægar og stilltar í ljósbláu nælonkjólunum með þremur pilsunum, gjörsamlega heillaðar af sýningunni.

Web Counter