22.12.06

Smákvikindisskapur

Get ekki að mér gert, frekar en margir aðrir bloggarar, vegna fréttarinnar um barnið sem konan vissi ekki af. Þetta er fín hugmynd fyrir verslunarmannafélagið eða hverjir það nú eru sem eru með sjónvarpsauglýsinguna þar sem konan heldur áfram á kassanum oní jólakvöldverðinn. Það yrði þá kona lon og don á kassa og svo bara allt í einu komið barn án þess hún taki eftir.

Web Counter

20.12.06

Jólaundirbúningur á Melum 1

Þessi aðventufiðringur og skipulögðu huggulegheit, sem stressa fullkomnu konurnar heil ósköp, tíðkuðust ekki fyrir norðan í æsku minni. Þar var ekki dönsk aðventa heldur frekar spartönsk jólafasta. Mamma hafði þá stefnu að hafa mat og drykk heldur fábreyttari í framan af desember en endra nær. Mig minnir t.d. að hún hafi sleppt sunnudagslærinu en þess í stað verið með steikt súpukjöt með brúnni sósu, svo að jólamaturinn smakkaðist nú enn betur. Í desember var allt þrifið hátt og lágt og öllum dúkum var svipt af stofuskáp og öðru dúkuðu, bæði til að þvo dúkana en líka svo að við fyndum betur viðbrigðin við að setja þá aftur upp á Þorláksmessu. Allt koparkyns var fægt á Þorláksmessu eða kannski daginn fyrir, silfur áttum við ekki. Ljósakrónuþrifum hef ég gert skil í sérstökum pistli.

Það voru bökuð kynstur af smákökum en dunkunum lokað vandlega, plástraðir aftur, minnir mig. Það innsigli var ekki rofið fyrr en strákarnir komu heim í jólafríið, þeir voru stöðugt að stelast í kökurnar.

Svo var saumað. Þ.e.a.s., mamma saumaði auðvitað. Þrjú stykki jólakjóla og seinna fjögur, jafnvel kjól á sig líka. Við þetta vakti hún fram á nætur og lengi vel hafði hún aðeins handsnúna saumavél án sikksakks, og þurfti því að varpa alla sauma í höndum. Ég man ekki eftir að hún saumaði á strákana en veit að hún gerði það þegar þeir voru minni. Merkilegur andskoti annars, en ég held að í kaupfélagið á Borðeyri eða nágrannaverslanir hafi aldrei komið kjóll. Hins vegar fengust þar vinnugallar, gallabuxur og strákaföt. Svo komu fatamarkaðir á hjólum frá sambandsverksmiðjunum á Akureyri, með karlmannaföt. Kvenfatnaður kom eingöngu í ströngum, hráefni fyrir húsmæður sveitarinnar að vinna úr. Sjálfsagt hefur að einhverju leyti ráðið sú staðreynd að kventískan var breytilegri og menn hafi því óttast miklar birgðir af óseljanlegri vöru. Það fylgdu því sem sé mun minni saumaskyldur að eiga eintóma stráka en stelpur. Saumaskapurinn var rosaleg vinna og ég man þó nokkur aðfangadagskvöld sem mamma átti erfitt með að halda sér vakandi eftir matinn.

Það var að sjálfsögðu ekkert skreytt fyrr en á Þorláksmessu, en dagana fyrir jól dunduðum við okkur við að flétta poka á tréð og bjuggum jafnvel til annars konar poka líka, klædda með kreppappír og með glansmyndum. Stundum gerðum við líka músastiga sem voru hengdir upp hér og þar. Þá man ég líka eftir því að við settum grenigreinar með slaufu fyrir ofan allar myndir sem héngu á veggjunum. Seinna var mér sagt að slíkt hefði bara átt að gera við myndir af dánu fólki, en það vissum við ekki, og hefðum þá lítið sett upp af greni því við áttum fáar ef nokkrar myndir af dánu fólki. Jólatréð, gervi framan af, var skreytt á Þorláksmessu og síðan var loftskrautið hengt upp. Um það sáu strákarnir yfirleitt og gekk stundum eitthvað illa. Þetta voru lengjur úr alla vega litum pappír sem voru dregnar sundur og mjór strengur sem hélt öllu saman, gjarnan lagðar í kross horna á milli í herbergjunum. Þetta var eiginlega það allra fallegasta sem ég vissi og ég get ekki lýst þeirri tilfinningu að vakna í hreinum rúmfötum og náttfötum að morgni aðfangadags og horfa á lengjurnar í loftinu, telja litina og finna út hvernig þeir röðuðust reglulega lengjuna á enda. Seinna kom amerískara glitskraut en mér fannst hitt alltaf miklu fallegra. Þegar ég settist að í Reykjavík komst ég að því að í sumum húsum þótti svona skraut ekki par fínt og því hef ég ekki haldið þessum sið. Samt á ég eina lengju og hún breiðist nú yfir gardínustöngina í herbergi Steinu, sannkölluð herbergisprýði.

Á myndinni hér að ofan er smásýnishorn af föndri mínu á þessari aðventu sem væntanlega berst sumum lesendum einhvern næstu daga. Það er líklega meira í anda loftskrautsins en naumhyggjunnar. Ef ég tapa mér ekki í einhverju jólastressi á síðustu metrunum bæti ég kannski við lýsingu á jólunum sjálfum fljótlega.
Góðar stundir

Web Counter

15.12.06

Systur í fjölmiðlum

Bara örstutt, ef einhver hefur misst af. Það er mynd og frétt um Diddu og hennar dásamlega smurða brauð sem tryllir nú allan Ísafjarðarbæ í Bæjarins besta (http://www.bb.is/?PageID=141&NewsID=90179) í dag og svo smáviðtal og stór mynd (miðað við tilefnið) af mér í Blaðinu í dag (sem er líklega í flestum tilfellum komið út í tunnu).

En það er auðvitað sjaldgæft og merkileg tilviljun að systur séu svona í fjölmiðlum sama daginn. Líka miðað við það að við erum bara venjulegar, höfum ekki lést um 50 kg og höfum ekki allt í svörtu þessi jólin.

Web Counter

11.12.06

Súrmeti, flatkökur og þingfréttir

Ætli það hafi ekki verið um þetta leyti sem fór að verða nokkurn veginn hæfilega súrt í sláturtunnunni á Melum 1. Þetta var stærðartunna og innihaldið var eitthvað á þessa leið:

Slátur, bæði blóðmör og lifrarpylsa.
Sviðasulta (af kjömmum)
Fótasulta (úr sviðalöppum)
Sviðalappir, heilar
Hrútspungar
Ærjúgur (stundum, lagðist seinna alveg af)

Þessi matur var heilmikið borðaður, einkum á kvöldin því þá voru oft leifar frá hádeginu sem voru drýgðar með súrmetinu. Stundum var líka súrt slátur með hafragraut á morgnana. Ég var ekki mikið fyrir súrt slátur en fótasultan, lappirnar og hrútspungarnir - það þótti mér allt gott, og enn betra þegar ég stálpaðist og fékk þetta sjaldnar. Með súrmetinu hafði mamma oftast bæði rófustöppu og kartöflustöppu. Oft fengum við líka nýjar flatkökur með. Ein sterkasta vetrarminning okkar systra er einmitt eimurinn af flatkökubakstrinum sem leggur um allt hús og saman við hann rennur svo þurrlegur skýrslutónninn í þingfréttaritaranum í útvarpinu, kalt úti, við kannski nýkomnar úr húsunum með ískaldar tær og sársvangar en fengum kannski volgan kökupart sem smjörið rann út af til að sefa sárasta hungrið (nú fer þetta að nálgast 19. aldar lýsingar).

Ég sé mömmu fyrir mér þegar hún var að sækja góðmetið. Þá óð hún með handlegginn upp fyrir olnboga niður í tunnuna og þurfti að gramsa þar góða stund til að finna allar sortirnar. Svo skolaði hún vandlega af öllu saman, handlegg og mat, þegar hún kom inn í eldhús. Ég held að hún hafi aldrei þurft að bretta upp ermi fyrir þessa athöfn, hún hafði svo mikið að gera og var þar af leiðandi svo heitt að hún var yfirleitt alltaf í ermalausum kjól á þessum árum (eitthvað hafði kannski tískan að segja líka).

Ég hugsa að það sæi fljótt undir iljarnar á sumum ógeðsdrykkjaköppum nútímans ef þeir þyrftu að fiska svona kræsingar upp úr tunnu - og borða þær líka.

Ég gæti sett á ræðu um fáránleikann í því að úthúða þessum mat sem skemmdum og ljótum og ég veit ekki hvað en halda varla vatni af hrifningu yfir yfirliðsframkallandi ostum, pikklesuðu grænmeti, þurrkuðu svínakjöti og öllum þessa útlenda geymslumat öðrum sem þykir svo fínn, en sleppi því - í bili a.m.k.

Web Counter

1.12.06

Desemberáætlun


Hún er mjööög lausleg, en ég hef samt ákveðið að baka ekki smákökur fyrr en rétt fyrir jól. Þar syndi ég á móti straumnum. Segja ekki allar frægu mjónurnar sem er talað við í glönsurunum og jólablaði moggans að það sé svo yndislegt að maula smákökur alla aðventuna? Hnuh, það held ég þær geri það! Reyndar var ein athafnakona í aðventuviðtali fyrir nokkrum árum og sagðist kaupa deig og skella á plötu, svona til að fá lykt í húsið. Það fannst mér passa, hún leit einmitt út eins og hún hefði alla tíð bara fengið reykinn af réttunum. (Þau eru súr, sagði refurinn, fyrirgefið.)

En - ég ætla sem sé í stað baksturs að framleiða enn fleiri jólakort (ég get farið að selja í Kolaportinu ef þetta heldur svona áfram) og kannski búa til eitthvert skraut og svona, gera bara það sem mér finnst skemmtilegt. Ég fæ aldrei þessa "vera búin að öllu" tilfinningu, það má ég eiga. Myndin er af stælingu á köku sem Nigela gerði einu sinni í sjónvarpinu og ég er búin að hafa í eftirrétt á gamlárskvöld í nokkur ár.

Web Counter