13.6.07

Bóndarósir II

Það er orðið ljóst að litla bóndarósin sem nú blómstrar í fyrsta sinn er fagur-dökk-bleik,! Líklega verður hún svona. Ég get ekki stillt mig um að skoða dýrðina í hvert skipti sem ég fer út úr húsinu.

Web Counter

11.6.07

Bóndarósir


Bóndarósin sem ég tók sem rótaranga úr garði tengdamóður minnar þegar við kvöddum húsið hennar fyrir fullt og allt á nú sannkallað blómaskeið. Knúpparnir eru 14 þetta árið, sem er persónulegt met hennar. Ég veit ekki hvert Íslandsmetið er, ætli þetta nálgist það ekki. Fyrsta sumarið kom ekkert blóm en svo hefur þeim fjölgað ár frá ári. Eins og sjá má eru blómin dökkrauð og óskaplega falleg. Rétt hjá þessari er nú önnur sem við fengum í tilraunarskyni fyrir 2-3 árum, óskaplega ótótlega, í Gróðrarstöðinni Mörk, ókeypis af því fleiri voru ekki til og lítið líf í henni. Hún er nú með tvo knúppa, í fyrsta skipti. Við erum að vona að hún sé bleik, okkur sýnist knúpparnir örlítið ljósari en á hinni. Það er spennandi að sjá hvernig blómin svo verða á endanum, svolítið eins og að fá að vita hvort barnið er stelpa eða strákur. Á milli þessara systra er svo enn ein, svo ung að hún blómstrar ekki í ár, en er sannarlega efnileg og greinilega annað afbrigði en hinar tvær.

Myndin er tekin 29. júní 2002.

Web Counter

7.6.07

Blómatími silfurhnappsins

Nú er hefur silfurhnappurinn tekið við af túlípönum og liljum í garðinum hér á Kvisthaganum. Þetta er eitt af mínum uppáhaldsblómum. Ég tók nokkrar greinar inn í vasa í gær (sá ekki högg á vatni) og þær prýða nú ganginn þegar inn er komið. Þegar pabbi varð áttræður 15 júní 05 var hér smáveisla og þá dúkaði ég með rauða jóladúknum (það tók enginn efir neinu jóla-) og svo stráðum við Ingunn silfurhnöppum og silfurhnappablöðum yfir dúkinn og vorum líka með kúlukerta- og silfurhnappsskreytingu á borðinu. Þetta var reglulega fallegt. Bendi fólki á að kúlu- og kubbakertin eru bestu kertin á íslensku sumri því þau lýsast sjálf upp þó að lítið verði úr loganum. Falleg með hagablómum eða trjáplöntusprotum í sumarbústaðnum!

(Matseðillinn í veislunni var: Lambalæri, vel steikt, með klassísku meðlæti og ávaxtagrautur með rjóma á eftir. Þetta var svipað og hjá mömmu forðum, nema kannski meira bruðlað með rjómann. Sumum fannst grauturinn nokkuð þungur í maga en mér fannst hann mjög góður.)

Web Counter

5.6.07

Tveir kostir og báðir ...

Hvað gerir maður á rennvotum, dimmum og hvössum þriðjudagsmorgni þegar hægt er að velja á milli prófarkalestrar á bók um tryggingamál og bók um staðal fyrir iðnaðarmenn? Að sjálfsögðu byrjar maður á staðlinum og geymir sér tryggingamálin þangað til eftir hádegi.

Þegar svona stendur á er bót í máli að hafa í gærkvöldi farið á myndina Das Leben der anderen - verra var það þar, er það ekki?

(Það verða ALLIR að sjá þessa mynd, ungmenni og stjórnmálamenni og allir þar á milli.)

Web Counter