28.4.08

Stína les Time ...


... í fyrsta skipti á ævinni.

Eins og hálfs árs.

Gat ekki stillt mig um að skanna inn þessa mynd þegar ég sá að Egill Helgason var að monta sig af syni sínum að lesa moggann í morgun. Aðrir bloggarar hafa verið að rifja upp á hvað þeir lærðu að lesa. Þá rifjaðist upp fyrir mér að Stína lærði eiginlega að lesa á Flóru Íslands og þótti afar gáfuleg þegar hún fór í pössun hér yfir götuna meðan við vorum í London og tók með sér Flóruna. Ég held að Flóran hafi orðið fyrir valinu hjá henni vegna myndanna og stakra orðanna sem fylgdu hverri; klett-a-stein-brjót-ur. Henni fannst voða gaman að komast fram úr svona löngum orðum. Á hvað lærði ég svo að lesa? Ekkert merkilegt, held ég, Gagn og gaman og þessar lestrarbækur, en mjög snemma var það. En ég man samt hvað mér fannst orðið guð asnalegt svona v-laust, og teið fannst mér ótuktarlegt orð.

Web Counter

24.4.08

Gleðilegt sumar!

Ég gæti hneykslast yfir bílstjórum sem vilja ekkert annað en vinna allan sólarhringinn eða Björgólfi sem vill að við stofnum styrktarsjóð íslenskra auðkýfinga, það var ekki nóg að við gæfum honum bankann. Ég gæti dáðst að grein Jóns Baldvins í Mogganum þar sem hann rassskellir vin sinn Styrmi Gunnarsson. Ég gæti líka reynt að lýsa þeirri ónotakennd sem ég fyllist alltaf þegar talað er um þennan ritstjóra sem aldrei, svo lengi sem elstu menn muna a.m.k., hefur skrifað staf undir nafni. Pælið í því: aldrei nafn, þjóðin á bara að finna á sér hver skrifar, það er eitthvað alveg óhugnanlega stórabróðurlegt við þetta!

En ég ætla ekki að gera neitt af þessu, heldur fagna vorinu og fuglunum. Á Seltjarnarnesi var krían ekki komin í morgun þegar ég HLJÓP þar, en Nestjörnin var ansi lífleg og vorleg, fullt af fuglum og liturinn gráblár og eitthvað svo dæmalaust hlýr og frjósemdarlegur.

Web Counter

21.4.08

Fuglar helgarinnar

Alveg var guðdómlegt að ganga eftir Ægisíðustígnum á laugardaginn. Ekki spillti fyrir gönguferðinni að ég heyrði í tveimur af mínum uppáhaldsfuglum, í fyrsta skipti þetta vorið, hrossagauk og stelk. Þetta eru mjög áberandi fuglar fyrir norðan, syngja í kór niðri við ána, stundum nær allan sólarhringinn þegar kyrrt er og milt - sem er oft eins og við vitum.

Web Counter

17.4.08

Gosflöskustærð og aðrar stærðir

Hæfileg stærð gosflösku, fyrir okkur hér á þessu heimili að minnsta kosti, er líklega 3,3 dl, stærð gömlu "stóru" glerkókflöskunnar. Hér er drukkið talsvert af þessu glæra sódavatni og dóti, og það er reglan frekar en undantekningin að góður slatti verður eftir í hálfs lítra flöskunum - og fólk er ótrúlega tregt til að geyma slíkan slatta til að drekka daginn eftir. Óli er búinn að leysa þetta hvimleiða vandamál fyrir sitt leyti með því að fá sér sódastrímtæki.

Þegar "stóra" glerkókið kom fyrst í sjoppunni fyrir norðan var algengt að hjón sameinuðust um eina, þetta þótti svo mikið. Ég man meira að segja eftir nokkuð stórri fjölskyldu sem keypti eina flösku og fékk svo rör á mann. Svo liðu nokkur ár og þá kom lítersflaskan, og þótti geggjun. Þó var ein stúlka í sveitinni sem varð forvitin, og kom og bað um eina, drekka hana hér og skila glerinu. Þetta þótti sýna vel óstjórn hennar í mat og drykk, sem hún bar reyndar utan á sér blessuð. Núna mundi þetta ekki hneyksla nokkurn mann.

Þetta með hæfilegu stærðina minnir mig svo aftur á dagblaðsgrein sem ég las einu sinni þegar ég var stödd í Englandi og fjallaði um kosti tylftakerfis og gömlu bresku mælieininganna umfram tuga- og metrakerfi. Einn kosturinn var t.d. hvað útkoman þegar deilt er í tólf verður í flestum tilfellum bærilegri tala en þegar deilt er í tíu. Höfundur hélt því líka fram að "pint" sem bjórmælieining væri byggð á eldfornum reynsluvísindum; það magn væri akkúrat það sem dygði til að fylla týpíska breska bjórvömb þannig að hvorki væri of né van, en hálfur lítri passaði ekki. Samkvæmt orðabókinni minni er breskt "pint" 0,5683 lítrar.

Web Counter

12.4.08

Ertu í gríninu?

Þetta var viðkvæði litlu stelpugálunnar í Stelpunum. Hitt og þetta hefur gerst og frést undanfarið sem hefur kallað þetta fram á varirnar á mér eða hér um bil. Til dæmis:

Verðlaunin sem forstetinn fékk. Ég hélt andartak að þetta væri aprílgabb en mundi svo eftir öllum samböndunum sem hann er búinn að koma sér upp á Indlandi á mörgum árum og mörgum ferðum þangað. Hvað er annars að marka önnur góðmenni heimsins og fjarskyldari okkur?

Hvernig Davíð lætur - þarf ekki frekari útskýringar við.

Söfnunin handa Hannesi. Mundi flokkurinn borga fyrir hann ef hann dræpi einhvern? Hversu alvarlegur þarf glæpurinn að vera til að buddan lokist?

Gjáin sem er búið að grafa austan megin við göngubrúna yfir Kringlumýrarbraut. Fjöldi trjáa hefur verið fjarlægður og þarna eiga víst að koma illa byggð fjölbýlisháhýsi úr forsteyptum einingum í hvelli. Hverjir kaupa fylgir ekki sögunni.

Maður getur hins vegar ekki talað um grín þegar yfirvöld samgöngumála eru annars vegar. Hvernig líður núverandi og tveimur síðustu samgöngumálaráðherrum núna? Hvað á það að kosta mörg mannslíf og marga menn ævilöng örkuml að almenningur má ekki fatta hvað það er fljótlegt að komast á Keflavíkurflugvöll á tvöföldum vegi og að tvöfalda verður hættuminni vegarspotta á undan hinum til að sleppa við umhverfismat og geta hleypt verktökunum strax í mótvægisaðgerðavinnu?

Vonandi eiga Halldór Blöndal, Sturla Böðvarsson og Kristján Möller andvökunætur af og til þessar vikurnar, meðan borarnir snúast norður í Héðinsfirði.

Web Counter

4.4.08

Vér verktakar

Hafið þið tekið eftir öllum verktakaaukablöðunum sem koma til skiptis með mogganum og fréttablaðinu? Þegar ekki eru VINNUVÉLAAUKABLÖÐ. Ég er orðin oggulítið þreytt á þessum blöðum af því að þá kemur alltaf upp í mér kvenremban; ha, hvaða verktakar, vinnuvélar hvað? Þarna eru viðtöl við fíleflda trökkdrævera og gröfumenn sem dreymir um enn stærri tæki og gunnara birgissyni sem langar að byggja enn stærri turna, og allt drekkur þetta olíu.

En - hefur engum dottið í hug að gera eins og eitt aukablað um hina mjúku og kvenlegu hugverktaka? HUGMYNDIR: Hvernig þýðingarforrit notar þú? Viltu hafa það öðruvísi? En orðabækur? Tölvan, viltu öflugri. Hvernig er skrifstofan þín? Viltu fá þér rafknúið hækkanlegt skrifborð? Vinnur þú heima? Eða leigir þú kannski herbergi, kannski tvö? Ertu með undirverktaka, nei það getur nú varla verið.

Hvers vegna langar þig að mótmæla eins og trökkdræver? Kannski af því að bókaforlögin "borga" verktökum sínum eins og þeir séu sjálfboðaliðar? Af því að það eru heimssamtök þýðingastofa sem hafa það að markmiði að halda töxtum niðri? Af því að einu "aðgerðirnar" sem stjórnmála(karl)mönnum detta í hug til að lækna kreppuna eru álver, vegir og olíudrullustöð?

Web Counter

1.4.08

Sagan í hring

Æ, hvað sagan endurtekur sig. Greinilegast er það kannski af tískunni, stutt, sítt, meðal, aftur stutt; reyndar þetta allt saman síðustu árin. Maður hefur upplifað minnst tvær stretsbuxnabylgjur, þrjár lopapeysu-, tvær pallíettu-, eina axlapúða- (mamma tvær, svo líklega koma þeir bráðum aftur) og svona mætti lengi telja. Svo eru það innréttingabylgjurnar. Hvað hafa komið margar hvítar? Brúnar? Pluss og kögur og svo naumhyggjan. Svo eru það bylgjur sem ráðast af efnahagsástandinu. Ég held t.d. að eldhúsinnréttingin mín sé að komast í tísku í þriðja sinn. Þá tel ég fyrst þegar hún var smíðuð. Þegar við fluttum hingað '96 var pínulítil kreppa og þá þótti voðafínt að vera með upprunalega innréttingu. Ég var ánægð með þá tísku því þannig slapp ég við umstangið og fjárútlátin við að láta skipta og valkvíðann samfara því að ákveða hvernig innréttingin skyldi vera. Svo, allt í einu, var kreppan búin og allir fóru að henda og brjóta og rífa sem aldrei fyrr. En nú er víst aftur komin kreppa og þá er enn einu sinni kominn tími þessarar ágætu innréttingar.

Yfirhalning baðherbergisins verður þó ekki umflúin, hvað sem allri krepputísku líður.

Web Counter