18.6.08

Endurteknar endurtekningar

Furðulegt, en í dag rakst ég á tvær greinar í fréttablaðinu þar sem kaflar höfðu óvart verið endurteknir. Ég fann þetta líka í Séð og heyrt í röðinni í Bónus. Svo tók ég áðan fram bunka af gömlum húsbúnaðartímaritum sem ég á, opnaði eintak af Hús og híbýli, og það fyrsta sem ég sé er grein um baðinnréttingar þar sem sami liður kemur tvisvar sinnum fyrir í margra liða upptalningu.

Hvað ætli þetta boði? Að hvítabirnirnir verði fjórir, eða streymi hingað endalaust?

Web Counter

13.6.08

Heimþrá...

Já, ég er farin að finna átakanlega fyrir því hvað ég þarf að fara að komast norður. Þegar ég var ungur og vitlaus unglingur sagði ég einhvern tíma eitthvað á þá leið að norðurþrá mín væri bundin við fólk en ekki land, þegar mitt fólk yrði á burt ætti ég ekki meira þangað að sækja. Líklega hef ég hugsað svona í einhverri andartaks skömmustu yfir því, sem svo margir segja, að Hrútafjörður sé svo ömurlega köld og hryllileg sveit (um það leyti sem ég var á Laugarvatni, með öllu kjarrinu og því drasli). Kannast einhver við það? En, eins og pabbi þreytist aldrei á að segja, og ég er farin að taka upp merkið fyrir hann: 1) þetta er ekki sveit fyrir aumingja 2) haustin eru yndisleg 3) veturnir eru betri ef eitthvað er 4) það koma oft ótrúlega góðir dagar á sumrin, stundum nokkrir í röð. Svo er það Ormsárgil, Selá, móar og mýrar og víðáttur, svo grónar og grænar og sumarlegar, sem gera það að verkum að mann verkjar eftir að komast þangað.

Nú hillir undir það að við mæðgur, að minnsta kosti, förum norður í vinnuhelgi þar sem verður skipt um glugga á ættaróðalinu. Mikið hlakka ég til. Ég hlakka líka til að hitta stelpurnar frænkur mínar í nýja bústaðnum, sem ég vona að haldi ekki að ég sé eitthvað "fornemuð" eins og amma Elísabet sagði ef henni fannst fólk orðið óeðlilega fálátt. Ég er það ekki - það er bara svona bindandi og slítandi að vera að byggja ofan á sig í vesturbænum. Hlakka til að sjá ykkur, stelpur!

Rétt nýjustu fréttir af gróðri: bleika bóndarósin, tveir knúppar, springa væntanlega út um helgina. Sú dökkrauða: fjórtán, segi og skrifa fjórtán, springur væntanlega út næsta hálfa mánuðinn. Gullregn: verður væntanlega í sínum fegursta blóma næstu viku.

Web Counter

7.6.08

Tónlistarsmekkur okkar á Melum 1

Ég fjallaði einhvern tíma um fegurðarviðmið okkar á Melum 1 (í október 2006). Nú ætla ég að lýsa aðeins tónlistarsmekk okkar. Hann, eins og fegurðarviðmið okkar, var töluvert litaður af skoðunum húsmóðurinnar á heimilinu. Við vorum ekki mikið fyrir "sinfóníur", en það orð notuðu Íslendingar þá sem samheiti yfir klassíska tónlist án söngs. Léttur óperusöngur fannst okkur nokkuð skemmtilegur, ef lögin voru kunnugleg og góðir söngvarar sungu. Miklir skrækir í óperusöngkonum þóttu okkur ekki fagrir. Það minnir mig á það sem tengdamóðir mín sagði mér að faðir sinn hefði einhvern tíma sagt þegar hann heyrði í óperusöngkonu: "Svona píningur ætti ekki að líðast."

Við höfðum gaman af flestum íslenskum sönglögum, þessum sem voru alltaf og eru enn "síðasta lag fyrir fréttir". Og svo voru það auðvitað dægurlögin. Ég held að Haukur Mortens hafi verið númer eitt hjá mömmu. Kannski var Raggi Bjarna of gæjalegur fyrir hennar smekk, hins vegar dáði eldri bróðir minn Ragga mjög. Af söngkonum hafði Ellý vinninginn. Ég man að mamma og Lilja, kona Sigga frænda, ræddu það einhvern tíma hvor þeim þætti betri, Ellý eða Helena, og mér fannst merkilegt að Lilju fannst Helena betri! Okkur fannst líka Óðinn Valdimarsson voða góður söngvari. Gaukar eins og Ómar Ragnarsson voru ekki hátt skrifaðir. Svo voru smásöngvarar sem dúkkuðu upp með eitt og eitt lag og okkur (ekki síst mömmu) þóttu hræðilegir. Í þeim flokki var t.d. sá sem söng "Ó María" fyrstur Íslendinga. Þorvaldur Halldórsson var dæmdur hálfgerður gaulari, þar hefur sjálfsagt "Á sjó" haft sitt að segja, það hálfdrap þjóðina á endanum; Vilhjálmur Vilhjálmsson fannst okkur mun betri.

Hvað um útlenda söngvara og sveitir? Elvis var ekki sérlega vinsæll hjá okkur. Kannski var það í og með vegna þess að töluvert var um myndir af honum í blöðunum og okkur (þ.e.a.s. mömmu) fannst hárgreiðslan og klæðnaðurinn í djarfasta lagi. Frank Sinatra þótti okkur voða sætur þegar hann söng með Nancy dóttur sinni.

Svo komu Bítlarnir. Ég átti erfitt með að mynda mér sjálfstæða skoðun á þeim í fyrstu því þar var ég eins og milli tveggja elda. Annars vegar voru jafnaldrarnir sem voru alveg heillaðir og svo var hún mamma, sem var ekkert að skafa utan af því: "Eiga þetta að heita karlmenn?" spurði hún "þetta hljómar eins og geldingar!" Síða hárið hefur örugglega ekki bætt úr skák. Eins og menn geta ímyndað sér dæmdi hún Hljóma með söngvaranum Engilbert Jensen með sama snaggaralega hætti. Aðrar hljómsveitir íslenskar sem komu á eftir Hljómum fengu áþekkan dóm.

Í tónlist vorum við eingöngu neytendur, og takmörkuð af útvarpinu, því plötuspilari var ekki til á heimilinu, fyrir utan ferðaspilara Himma, sem hann keypti eitt sumarið, en staldraði ekki lengi við, frekar en eigandinn. Við sungum lítið sjálf, pabbi trallaði stöku sinnum "sjúddi rari rei" og mamma söng einungis óvart, ef hún varð t.d. upptekin við vinnu og gleymdi sér. Við trúðum því sem sé nær öll að við værum laglaus, en kannski misjafnlega slæm, um það er enn deilt.

Sem betur fer eru nú aðrir tímar, allir eru hvattir til að syngja, lagleysi virðist ekki til þegar nánar er að gáð og flest börn geta fengið kennslu í tónlist ef þau hafa áhuga á því.

Web Counter