Heimilisamboð, guðfræðinemi og táfýla
Það er orðið töluvert langt síðan síðast. Hér eru því sundurleitir molar sem hafa safnast upp.
Fyrrnefndur kjöthitamælir hefur bæst við (ónauðsynleg) heimilisamboð. Og ekki orð um það meir.
Ég opna stundum útvarpið, yfirleitt rás 1, og þá gerist það alveg ískyggilega oft að fyrrverandi fastur starfsmaður en núverandi guðfræðinemi er þar að tala við kennarana sína eða eitthvert fólk sem var á ráðstefu með honum og kennurunum hans. Þetta hefur reyndar gengið svona til í 6-8 ár, svei mér þá! Það er svo sem allt í lagi að fjölmiðlamenn fari á námskeið eða í skóla og viðri örlítið nýju þekkinguna þegar þeir koma til baka. Þetta gerði t.d. Jón Ásgeir Sigurðsson þegar hann fór í MBA-nám en það tók blessunarlega fljótt af. Sjálfsagt hafa einhverjir fleiri dagskrárgerðarmenn farið á sjálfsstyrkingarnámskeið, ítölskunámskeið, teikninámskeið og svo mætti áfram telja, og fundið þar einhverja matarholu. En að þræða gangana í aðalbyggingu Háskólans með upptökutæki dag eftir dag, viku eftir viku og ár eftir ár - það er of mikið! Enda eru umræðuefnin sum hver orðin dálítið sértæk og jafnvel úrelt ef ekki ótrúleg - svona eins og við værum enn að spekúlera í því í alvöru hvort drekar hafi ekki örugglega verið til og séu enn.
Annars er ég ósköp andlaus núna og búin að gleyma mestöllu nöldrinu - kannski það stafi af verkefninu sem ég hef glímt við að undanförnu og var að ljúka í dag - það er ágætis bæklingur um táfýlu og aðra fótakvilla og meðul við þeim. Bara þó nokkuð fróðlegur.
Bráðnauðsynleg heimilistæki
Ég hef örlítið endurnýjað heimilisamboð að undanförnu. T.d. fékk ég mér tvö nýtískukökuform um daginn, sveigjanleg svo að kakan hreinlega líður úr þeim eða þau af henni. Svo mætti ég líklega fara að endurnýja pottana eitthvað. Uppistaðan er brúðkaupsgjafir, mér finnst þeir nýlegir, en samt eru þeir víst að verða 25 ára. (Móðir mín elskuleg er nýtin manneskja og fer vel með næstum allt en pottaböðull mikill. Hún hefur átt marga umganga. Þess ber þó að gæta að hún hefur líklega eldað mörgum sinnum meira um dagan en ég.)
Mest knýjandi þörf finn ég þó fyrir þráðlausa kjöthitamælinn sem Kalli mágur minn sagði mér frá í sumar. Hvar fær maður svoleiðis apparat?
Ekki segja mér að þetta sé álíka þarfleg græja og fótanuddtæki. Ég hlusta ekki á það.
Málvandinn
Heyrði að menn eru að blása til málsamtaka. Sumir eru "mjög uggandi um stöðu málsins" eins og oft áður og eins og oft áður er talað um "unga fólkið" í þessu sambandi. Ég sveiflast eiginlega milli ánægju og ótta. Ég skal skýra þetta aðeins nánar. Mér finnst mjög margt prentað mál, t.d. barnabækur, miklu betur þýtt, prófarkalesið og frágengið á allan hátt en fyrir svona 30-40 árum. Sumt í íslenskukennslunni í grunnskólanum er mikil framför, t.d. hvað krakkarnir eru látnir skrifa sögur og allt mögulegt í gríð og erg. Dætur mínar framleiða þessar fínu sögur á svipstundu, nokkuð sem ég hefði ekki getað á þeirra aldri þó að byssu hefði verið miðað á mig. En svo fer oft um mig "aumingjahrollur" þegar ég heyri og les það sem kemur frá krakkakvikindunum á fjölmiðlunum. Kannski er meinið það að ekki má lengur finna að, það á bara að segja "þú ert frábær". (Sú stefna létti mjög á ábyrgð kennara, í raun gat hver sem var gerst kennari.) Frábæra kynslóðin er einmitt að verða fullorðin núna.
Svo er það líka tískan - maður á að koma fyrir eins og ungur fáráðlingur fram eftir öllum aldri, sbr. Björk og fleiri.
Fönn, fönn, fönn...
Þar koma að því að snjóaði svolítið í henni Reykjavík. Í sveitinni minni snjóaði svo sem aldrei nein ósköp, ekkert í líkingu við Fljótin eða á Vest- og Austfjörðum. Veturinn er eiginlega blíðasta árstíðin í Hrútafirði. Þó man ég eftir ægilegri hríð sem við pabbi lentum í einn veturinn á leiðinni úr fjárhúsunum og heim í (gamla) hús. Það var norðanátt, bálhvasst og mikil snjókoma. Við rétt grilltum í ljósin á íbúðarhúsinu og vorum næstum eins og karlarnir í Manni og konu og Pilti og stúlku og þeim sögum öllum þegar við komum heim - klakabrynja fyrir andlitinu - ef við hefðum verið með skegg hefðum við verið alveg eins.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér af því við Óli fórum í göngutúr áðan í fjúkinu - til að njóta þessa sjaldgæfa veðurs. Og svo heyrði ég í Diddu systur sem er heima hjá sér á Ísafirði - í alvöru hríð.
Húsfreyjubrauð
Þegar húsfreyjan Elísabet systir mín kom færandi hendi í jólaboð fjölskyldunnar um daginn með svona brauð (sem hún fékk uppskriftina að hjá mér fyrir löngu) kom upp húsfreyjan í mér svo ég bakaði það núna í vikunni. Því birti ég hér þessa ágætu uppskrift, og líka vegna þess að ég hitti konu um daginn sem mundi að ég bakaði stundum í gamla daga. Hér er uppskriftin:
1 dl hörfræ
1 dl sesamfræ
2 dl sólblómafræ
1 dl rúgkjarnar
Sett í bleyti yfir nótt. Blandan sett í skál með 50 g af pressugeri eða pakka af þurrgeri, 7 dl volgu vatni, 1/2 dl hveitiklíð, smásalti ef vill og 1 eggi. Hveiti hnoðað upp í þar til orðið er að deigi, en má vera nokkuð lint. Látið lyfta sér í skál góða stund. Hnoðað (með hveitviðbót hugsanlega) í 7 kúlur. Látið lyfta sér. Bakað við 225° C. Mjög skemmtilegt brauð í boðum, gjarnan með góðri súpu. Krökkum þykir þetta mjög gott.
Upphaflega fann ég þetta brauð í tímaritinu Húsfreyjunni sem móðir mín kaupir. Það er skýringin á nafninu.
Skipulagsmál
Ég hugsa stundum um það þegar ég geng út í Nauthólsvík að hún er á snarvitlausum stað. Hún og ylströndin hefðu átt að vera miklu vestar. Þá hefði verið hægt að horfa út í fjarskann yfir sjóinn í stað þess að þurfa að hafa helvítis Kópavogshroðann ofan í augunum. En þessu er víst varla hægt að breyta héðan af (nema að moka nesoddanum bara í burtu). Svo vil ég gjarnan fá sundlaug einhvers staðar ofan í ylströndina, úr því hún er komin þarna, helst þannig að maður synti eins og á haf út. Þá yrði það líklega að vera í vestur svo að maður slyppi við að horfa upp á haugana og gámana þeirra í Kópavoginum (fyrirgefðu, Ólöf mín). Annars virðist þetta haugahugarfar loða við norðurstrendur yfirleitt, það er t.d. ekkert sérlega fallegt að horfa beint í land úr Viðey.
Ég vil líka fá skauta- og línuskautaplan einhvers staðar við Ægisíðuna. Þetta yrði svona patent, fyrir ís-skauta þegar (ef) frysti en annars fyrir línuskauta. Svo þyrfti að vera músík og falleg ljós og svona.
Er einhver þarna úti annars farinn að kunna á nýju Hringbrautina?
Tilhlökkunarefni nýs árs
Þegar nýja árið skellur á manni eins og blautur ullarsokkur er um að gera að finna sér nokkur tilhlökkunarefni, jafnvel fara að huga að sumarfríinu.
Hitt og þetta skemmtilegt sem mig langar til að gera á árinu:
1. Ganga fyrir Heggstaðanes í björtu veðri og horfa út eftir öllum Húnaflóa
2. Ganga á Esjuna (verið á dagskrá ca. 20 ár)
3. Fara ferð á Snæfjallaströnd - gista í Reykjanesi - ekki verra ef Didda systir og fjölskylda kæmi frá Ísafirði og yrði með
4. Ganga yfir Brandagilsháls (úr Hrútafirði yfir í Miðfjörð eða öfugt)
5. Dvelja eins og eina helgi á Hólum í Hjaltadal
6. Fagna því þegar frænkur mínar verða komnar með bústað fyrir norðan (þetta verður eins og í Karíusi og Baktusi - "...þegar við verður orðnir margir hérna..."
7. Dást að túlípönunum mínum þegar þeir koma upp í vor - ef þeir fara ekki að koma upp núna í hitanum og bleytunni.
...og margt, margt fleira...