Jólahugur
Þetta er byrjað. Ég er búin að taka nokkrar kortasyrpur. Held að það verði ekki mikið bakað í ár en er búin að kaupa mér bæði danskt og ítalskt jólablað og þar er margt sem væri gaman að búa til. Ég prófaði að klæða kramarhús með glansmyndum og það er bara ansi sætt. Svo langar mig að búa til eitthvað úr filti, rautt, hvítt og mjúkt. Ég veit að ég ætti að láta það ganga fyrir að taka til í geymslunni en hitt er bara svo miklu skemmtilegra.
Hér er svo í lokin listi sem ég byrjaði á einhvern morguninn um daginn þegar ég var á leið í ræktina:
Kerlingalegt:
Að gefa stefnuljós
Að keyra á löglegum hraða
Að vera á mátulega stórum bíl
Að koma heim úr vinnunni rúmlega 4
Að koma snemma í vinnuna
Að vera kona
Eitthvað það alskemmtilegasta við að vera kona er að geta verið í alls konar fötum. Og - fróðlegasta bók sem ég hef kynnst á fullorðinsárum er Villtir svanir. Hér er smásítat:
Mamma hætti að ýfa á sér hárið. Stuttklippt og sléttgreitt skyldi það vera. Hún hætti að vera í aðskornum blússum og jökkum í skærum litum. Sniðlaust litleysið tók við. Sérstaklega fannst mér leiðinlegt að hún skyldi hætta að ganga í pilsum. Ég man þegar hún kom hjólandi heim stuttu áður og pilsið hennar flögraði í golunni.
Þetta hefur orðið mér mjög minnisstætt, svo mjög að ég held að það hafi oftar en einu sinni ráðið því að ég hef keypt eitthvað skært, rósótt og glaðlegt sem stelpunum mínum hefur þótt fallegt af því ég vil að þær muni mig í fleiru en mismunandi blæbrigðum af svörtu, gráu og öðrum slíkum depurðarlitum. Ég man móður mína, sístarfandi saumakonuna í mörgum litum, t.d. ljósgrænni ullardragt með hvítum yrjum eins og hefði verið stráð kókosmjöli á hana (maður varð svangur!), í ljósgulum kjól (sem hún var að sníða þegar Kennedy var skotinn), í ljósgrænu krymplíni, bleiku örugglega líka...
Þegar þið sjáið þetta úr Villtum svönum, áttið þið ykkur á áhrifum Maós, eimir ekki enn eftir af þessu dapurlega og púrítaníska litavali... er þetta ekki of djarfur brúnn litur?
Jæja, hvað sem því líður. Ég fór í Kringluna í fyrradag og fékk mér frábært hálfsítt, vítt pils í "fiftís" stílnum, silfurgrátt og svart. Get ekki beðið eftir að skarta því í boðinu á morgun.
Túlípanafengitími
Getið þið hvað! Ég fíraði niður fjöldanum öllum af túlípanalaukum í dag. Það þarf enginn að segja mér það að er í síðasta lagi, en úr því það komu túlípanar upp af laukunum sem ég setti niður á ættaróðalinu í fyrra í byrjun nóvember með því að höggva holur með járnkarli gegnum grasið og klakann, þá er öruggt að þessir koma upp. Svo flutu með nokkrar páskaliljur og krókusar. Eitthvað af þessu ætlaði ég að setja niður á óðalinu um daginn en fann ekki járnkarlinn þar í öllum snjónum. Annars hefði ég reynt!
Eftir að þetta allt var skeð fór ég að hugsa hvað yrði gaman þegar þetta kæmi allt upp í vor, um sauðburðinn, og þá datt mér í hug að nú nálgast þessi venjulegi fengitími, þaðan er samlíkingin.
Snilld
Stal þessari snilld af síðu Þóru Ág. frænku. Ef þú hefur þessa áráttu er
þetta svarið.
jónar, þingmenn og ráðherrar
Ég heyrði óvart í morgun smáviðtal við fjármála- og frelsisspekúlantinn mikla Pétur Blöndal. Hann var að hæla okkur þjóðinni fyrir framsýni í lífeyrismálum - allt í lagi - en svo fór hann að tala um kosti þess að menn hér fara seint á eftirlaun og það mætti hækka þann aldur svo kerfið allt yrði enn hagkvæmara. Þetta er maður úr flokknum sem setti lög sem leyfa næstum ókynþroska fyrrverandi ráðherrum (er þarna komin skýringin á unglingaveiki ónefnds eins slíks síðustu árin?) og jafnvel þingmönnum líka að fara á fínustu eftirlaun án skerðingar þótt önnur störf séu unnin áfram.
Fréttamannsskepnunni datt auðvitað ekki í hug að nefna ólögin þau arna í þessu sambandi.
George Orwell hefur örugglega verið dillað uppi í hásölum Guðs.
Sveitasæla
Hér er ég þá komin á sveitasetur mitt (og fjölskyldu minnar). Kom á þriðjudagskvöldið í langþráð vetrarfrí dætranna og allrar fjölskyldunnar. Hrútafjörður skartar sínum fegursta vetrarbúningi. Hér hefur ekki bærst hár á höfði síðan við komum. Í morgun skein sólin dálitla stund og þá var eins og gimsteinum hefði verið stráð yfir allt þegar ég gekk upp með minni kæru Ormsá. Nokkrar rjúpur voru eitthvað að sýsla við bústað Daníels en ég sá ekki eina einustu uppi í fjalli. Kannski var tófan sem ég sá slóðina eftir búin með þær. Þegar ég kom til baka fór ég í pottinn og sem ég er komin upp úr og búin að skvera mig aðeins til verður mér litið út um stofugluggann. Þar voru þá komnar nokkrar rjúpur, bara rétt si sona í garðinn. Ein settist á pallgrindverkið og ég náði mynd af henni til sannindamerkis um þennan atburð. Þess má geta að ég sá aldrei rjúpu niðri í byggð þegar ég átti hér heima. Kannski var það vegna skotgleði bænda hér sem aldrei átu rjúpu, skutu hana bara. Er til fallegri vetrarmynd en rjúpa í snæviþöktum runnum og allt glitrandi í nóvembersólinni?