Hin heimilisstörfin hans pabba
Ég tími varla að splæsa þessari frásögn núna, hún ætti kannski betur heima nær jólum, en glimrandi undirtektir lesenda og hvatning fær mig til að láta hana vaða núna.
Kannski væri "hitt heimilisstarfið" betur við hæfi því ekki sinnti hann faðir minn mörgu innanstokks. Þó var eitt embætti sem hann hafði, ábyrgðarmikið og að sínu leyti kannski jafn háskalegt og saftbirgðavarslan. Það var hreinsun ljósakrónunnar í stofunni. Það starf fór alltaf fram einhvern allra síðustu daganna fyrir jól. Ef eitthvað mikið stóð til, fermingarveisla eða slíkt, fór fram aukahreinsun.
Þetta byrjaði eins og saftbirgðavarðarstarfið, með því að sækja stólkoll. Síðan steig karl upp á kollinn og skrúfaði (held ég) perurnar úr til að ná ljósaskálunum frá. Síðan voru skálarnar réttar okkur kvenpeningnum, ofurvarlega, og við fórum með þær inn í eldhús þar sem við þvoðum af þeim ryk, flugnaskít og önnur óhreinindi og þurrkuðum svo, allt ofurvarlega, það fylgdi þessu ægilegur spenningur og hræðsla um að einhver skálin brotnaði. Svo kom pabbi öllu fyrir aftur og þá var ljósakrónan orðin óskaplega fín og ljósið af henni miklu bjartara, kannski líka vegna þess að hann notaði tækifærið og skipti um peru um leið.
Enn hangir þessi ljósakróna uppi, nú í Bólstaðarhlíð í Reykjavík, og allar "skálarnar" óbrotnar en kannski ein örlítið sprungin.
Einhver heggur kannski eftir því að við konurnar þvoðum og þurrkuðum. Samt erum við öll, sem hlut áttum að máli, örugglega sammála um að það var pabbi sem þreif ljósakrónuna fyrir jólin.
Önnur heimilisstörf - held að hann hafi saltað kjötið á haustin, samt ekki alveg viss.
Berjatínsla, saftgerð og ferðir pabba upp á loft
Þegar ég var krakki var berjatíminn besti tími ársins. Þetta byrjaði á skreppitúrum "suðrímóa" eins og það var kallað, þar sem húsið pabba og mömmu stendur nú. Yfirleitt var þetta allt of snemma, kannski fyrir verslunarmannahelgi og berin enn hálfgerðir grænjaxlar. En þetta var ágætur undirbúningur fyrir alvöruátökin. Suðrímóarnir eru nú horfnir, þar er bara gras sem fór að vaxa úr hófi þegar melurinn fyrir ofan móana var ræktaður með tilheyrandi áburðargjöf.
Svo færðum við okkur upp á skaftið og fórum upp í Kambabletti og upp með Kambalæknum, svæðið neðan brúnar. Hámarki náðu svo berjaferðirnar þegar allir sem tínu gátu valdið fóru upp í Kamba, bæði fullorðnir og börn, á traktorum og jeppa með aftanívagn sem á voru mjólkurbrúsar undir fenginn. Ætli hver fjölskylda hafi ekki tínt eins og 50 - 70 lítra. Svo stóðu kellingarnar (guð fyrirgefi okkur en það kölluðum við þessar bráðungu konur) bláar upp að öxlum fram undir sláturtíð við að safta.
Ég man líka eftir því að amma og afi komu á berjamó og amma vildi helst ekki tína með tínu því það var svo vont fyrir lyngið. Móðursystur mínar komu einhvern tíma líka.
Það var gaman að fylgjast með þegar saftin var sett í flöskurnar, lokað með korktöppum og stútnum dýft í innsiglislakk eða kertavax til að loka enn betur. Svo þurfti að koma afurðinni í örugga geymslu.
Þá kom til kasta Jóns á Melum. Nú hófust sem sé tilfæringar. Fyrst var sóttur stólkollur. Pabbi steig upp á hann, lyfti upp lofthleranum og skaut honum inn á loftið. Svo steig hann öðrum fæti upp á hurðarhúninn á eldhúshurðinni (minnir mig), krækti með báðum höndum í loftskörina, fór með hinn fótinn upp á hurðina, sem sveiflaðist til, og hóf sig svo upp á loftið. Heimilisfólk stóð fyrir neðan skíthrætt um að nú fipaðist karli og stórslasaði sig. En aldrei gerðist það nú. Flöskurnar voru svo handlangaðar innan úr búri og upp á loftið.
Af og til fór pabbi svo upp á loft að sækja meiri saft því hún var mikið notuð. Og alltaf notaði hann þessa aðferð við að brölta upp á loftið, hvarflaði ekki að honum að sækja sér stiga. Það var reyndar ekki bara spenna fólgin í ferðinni upp. Það var nefnilega ekki almennilegt gólf þarna uppi heldur aðeins lausar fjalir sem heilmikla jafnvægislist þurfti til að feta sig eftir. Ef hann hefði hrasað hefði hann getað brotið loftið og dottið niður úr því.
Einhverra hluta vegna varð geymsluloftið í nýja húsinu næstum því jafn óaðgengilegt. En steypt plata.
Heppin
Ég fór að hugsa um það áðan hvað ég er heppin að geta unnið heima hjá mér. Steina var að fara í seinna samræmda prófið í morgun, nú í stærðfræði. Ég settist hjá henni og við fórum yfir nokkur dæmi í rólegheitum áður en hún fór í prófið. Þetta hefði ég ekki getað ef ég væri að vinna úti í bæ og þyrfti að fara út fyrir átta alla morgna.
Varaþynnka
Í texta sem ég er að laga þessa stundina eru þunnar varir öruggt merki um glæpahneigð og illt innræti, dæmi hér:
Svo hvessti hann augun og varir hans urðu eggþunnar. Þá stund var hann ægilegur ásýndum.
Hvalveiðimenn og Þyrnirós
Auður Haralds, sá ágæti og vanmetni rithöfundur, hefur oft leikið sér að því að snúa út úr ævintýraminnum. Ég man t.d. eftir persónu sem sagði e-ð á þá leið að hún hefði gifst prinsi sem því miður hefði svo breyst í frosk. Svo skrifaði hún einhvern tíma ansi fyndinn pistil um Þyrnirós og hvernig hún hlyti að hafa litið út í alvöru þegar prinsinn kom að henni hundrað ára, rykfallinni, hrukkóttri, kalkaðri, tannlausri, sköllóttri, úr barneign o.s.frv.
Skopleik í ætt við Þyrnirósarpistil Auðar mætti held ég hæglega gera úr nýhöfnum hvalveiðum Íslendinga (þ.e.a.s. Kristjáns Loftssonar). Sáuð þið gamla skipstjórann sem síðast veiddi hval fyrir tuttugu og eitthvað árum? Og allt umhverfið þarna uppi í Hvalfirði? Hefur Kristján geymt þetta dót allt og mennina með í einhverjum turni allan þennan tíma, látið það bíða til að geta tekið það fram þegar og ef? Skyldi hann líka eiga á lager fólk til að éta kjötfjöllin þegar og ef ellibelgirnir geta skutlað eitthvað? Ekki virðast útlendingar beinlínis bíða í biðröð. Ef einhverjir úr biðsalnum skyldu nú hafa hrokkið upp af eða leiðst biðin, hvar ætlar hann að fá fólk í hvalskurðardrulluna og það allt? Kannski frá Póllandi?
Vatnslitir
Ég er búin að vera á listiðkunartrippi í nokkra daga, eftir að septembertörnin fjaraði út. Þetta byrjaði þannig að við Óli fórum í göngutúr niður í bæ og skutumst aðeins inn í Eymundson. Þar var á tilboði bók sem kennir manni að mála með vatnslitum. Ég keypti bókina og fór svo seinna og keypti alvöru pensla. Litir voru til hér sem Stínu ákotnuðust fyrir nokkrum árum frá stúlku sem var hætt að nota þá. Slíkir litir kosta 3-5000 kr. í Eymundson. Nú er ég búin að mála tvær myndir eftir fyrirsögn bókarinnar og er sérstaklega ánægð með þá síðari, sem er uppstilling með piparkvörn, lítilli könnu, appelsínu og tveimur mandarínum. Ávextirnir heppnuðust ótrúlega vel miðað við byrjandaverk.
Auðvitað kallaði þessi iðja fram endurminningar. Einu sinni tóku Ingunn systir og Nonni frændi upp á því að fá heiftarlega ælupest, bara þau tvö. Þetta þótti mæðrum þeirra grunsamlegt því ælupestir fóru yfirleitt um allan Melaskarann eins og hann lagði sig, ekki bara einn eða tvo krakka eins og þarna. Þá rann allt í einu upp ljós fyrir þeim. Ég hafði fengið vatnsliti frá Borðeyri og strax byrjað að fikta eitthvað með þá (tek fram að ég kunni ekkert þá, enda ekki með bók, heldur notaði litina eins og Hitler ku hafa gert, makaði þeim þykkt á eins og olíulitum, en lét þá ekki fljóta eins og þau okkar sem lengra erum komin gerum). Ingunn og Nonni prófuðu litina eitthvað líka en misstu fljótt áhugann. Hins vegar komust þau strax að því að það var sætt bragð af litunum og fengu sér vænan slurk. Við hin höfðum ekki smekk fyrir þetta "sælgæti" og það var skýringin á þessari tveggja manna pest.
Fegurðarviðmið á Melum 1
Allar mínar hugsanir virðast sprottnar af einhvers konar áreiti; ég sé eitthvað, les o.s.frv. og þá (en ekki fyrr) rifjast eitthvað upp fyrir mér. Þannig varð þessi umfjöllun um rautt hár til þess að ég fór að rifja upp fyrir mér hvað okkur heima hjá mér fannst fallegt í útliti fólks. Það skal tekið fram að allt mótaðist þetta mjög af skoðunum móður minnar. Hún var nefnilega ansi skoðanaföst á þessum árum og lá ekki á þeim þó að nú viðri hún skoðanir sínar sjaldan.
Fyrst er að nefna varir. Þær máttu ekki vera of þykkar. Við vorkenndum sumu fólki heil ósköp vegna þessa "sköpunargalla" sem fólk borgar stórfé fyrir hjá lýtalækni nú til dags. Sjálfsagt má rekja þennan smekk til þess að flestir í fjölskyldu minni voru og eru enn með mjög þunnar varir.
Konur máttu vera ljóshærðar og karlmenn líka en bara ef augnabrúnir þeirra voru dökkar (konur gátu bjargað sitúasjóninni með lit).
Rautt hár var óheppni, sérstaklega hjá karlmönnum, eiginlega mátti afskrifa þá strax bara vegna litarins. Rauðhærð stúlkubörn gátu lifað í voninni um að verða "kastaníubrúnhærð" með aldrinum, fyrir tilstilli skaparans eða hárgreiðslufólks.
Fallegustu karlarnir voru háir, grannir og dökkhærðir. Það jók enn þokka þeirra ef röddin var falleg. Einum karli gat mamma hér um bil fyrirgefið að vera næstum albínói af því að hann hafði svo fallega rödd í síma.
Fólk mátti ekki vera mjög rauðbirkið (ég tók ekki mark á þessu við makavalið).
Gleraugu voru mikil óprýði á fólki, sérstaklega konum. Ég man eftir hjónum sem komu einhvern tíma í heimsókn og ég vorkenndi karlinum heil ósköp að þurfa að burðast með þessa glereygðu konu. Líklega voru gleraugun í því tilviki þó óvenju ljót.
Konur skyldu ekki vera hávaxnar. Engan skyldi undra þessa skoðun í fjölskyldu þar sem konur halda sig undir og rétt ofan við 160 sentimetra, og karlarnir litlu hærri sumir.
Á þessum árum var megurðardýrkunin ekki komin á sama stig og nú er. Við pældum ekkert rosalega mikið í því hvort fólk væri grannt eða feitt. Það var auðvitað slæmt að vera afmyndaður af spiki en andlitsfríðleiki gat jafnað aukakíló furðu vel upp. Þegar ég kynntist tengdafjölskyldu minni fann ég fljótt að þar var þessu öfugt farið; meira var pælt í vaxtarlagi en andlitsfegurð. Ég ætla ekkert að útskýra það nánar.
Það er gaman að bera þessar fegurðarhugmyndir saman við þær sem nú eru ráðandi. Eru annars margar rauðhærðar karlhetjur í bókmenntunum (fyrir utan Gretti auðvitað)?
Rautt hár
Ó.P. var að tala um rautt hár í tísku og hvað það var erfitt hér áður fyrr að vera rauðhæð stúlka. Þá rifjaðist upp fyrir mér rútuferð suður úr Hrútafirðinum eitt haustið, líklega 77 eða 78. Þetta var áður en allir eignuðust bíla svo rútan var alveg troðfull. Þegar ég kom inn hafði Eggert (eða Pétur tvíburabróðir hans, þeir voru eins) ekkert sæti handa mér svo ég varð að sitja undir lítilli stelpu mestan hluta leiðarinnar. Hún hefur líklega verið 7-8 ára og var að koma úr sveitinni, einhvers staðar í Víðidalnum, minnir mig, og bróðir hennar líka. Hún var með það rauðasta, þykkasta og fallegasta hár sem ég hef séð og með brjálæðislegar freknur í stíl. Hún var líka bráðskemmtileg og samkjaftaði varla alla leiðina. Bróðir hennar var aðeins yngri, dökkhærður og heldur svipleysislega fallegur. Þarna voru líka fleiri krakkar. Þau ræddu um sveitina og dýrin og lífið og tilveruna eins og gengur. Stundum horfðu þau líka svolítið út um gluggann. Þegar sást út á Borgarfjörðinn varð þeim starsýnt á brúna sem þá náði ekki nema sirka hálfa leið. Það hófust fjörugar umræður um þetta fyrirbæri. "Ætli hún eigi ekki að vera lengri?" spurði einhver varfærnislega. Sum börnin voru nú á því að líklega ætti hún að ná alla leið en öðrum fannst þetta alveg nóg, hlyti að vera gaman að keyra eða labba þarna út á og snúa svo bara við þegar maður væri búinn að horfa yfir og oní sjóinn og svona. Þetta með brúna rifjaðist einmitt upp fyrir mér þegar Ómar fór að viðra þá bjartsýnislegu hugmynd um daginn að vera ekkert að hleypa vatni á stífluna.
Þegar nálgaðist bæinn komumst við á trúnaðarstigið, ég og sú rauðhærða, og náði hámarki í þessari spurningu hennar: "Finnst þér rautt hár fallegt?" Ég hélt nú það, mér fyndist rautt hár langfallegasta hárið. "Það finnst mömmu minni líka," sagði sú stutta og andvarpaði og ég skynjaði svolítið bitra reynslu í því andvarpi en von um leið.
Ég hef ekki séð stúlkuna síðan, en ætli hún hafi ekki orðið fyrirsæta, eða kannski leikkona? Kannski að þetta hafi verið Margrét Vilhjálms eða einhver önnur rauðhærð tískustelpa sem ég kann ekki að nefna? Hún hefur örugglega plumað sig vel og hárið orðið henni til framdráttar frekar en hitt, eins og nýlegar kannanir sýna.
Hef ég nú blogg að nýju
Sökum anna hafa skrif legið niðri á þessari síðu um hríð. Fyrir fólk sem kemur eitthvað nálægt bókaútgáfu á Íslandi er september dálítið trylltur mánuður. Ég verð að játa að ég er enn nokkuð lerkuð eftir að hafa verið með eina metsölubókina þetta árið í gjörgæslu um rúmlega mánaðar skeið auk ýmissa annarra verkefna.
Við brugðum okkur norður á óðalið um helgina, rétt til að reyna að ná mér niður eftir törnina. Það var ótrúlega gott að skipta um umhverfi eina helgi, virtist ekki heldur gera neitt til þó að hitastigið væri tvöfalt lægra en sunnan heiða. Ekki voru framkvæmdir miklar en þó potaði ég niður nokkrum páskaliljulaukum og slatta af krókusalaukum líka. Krókusana setti ég niður í blettinn í garðinum. Mér fannst gæta dálítillar vantrúar í málrómi konu af minni ætt þegar ég lýsti þessu fyrir henni: "Já, í blettinn og svo er hann sleginn," sagði hún, og sannfærðist held ég ekki þó ég reyndi að fullvissa hana um það að tími krókusa er löngu liðinn þegar kemur að slætti. Hins vegar er fátt vorlegra en krókusar í grasbletti sem er rétt byrjaður að grænka.
Fyrir norðan voru Jónasarstelpurnar í óða önn að byggja sumarbústaðinn sinn með hjálp tveggja karlmanna. Þetta er glæsilegt hús og mikill hugur í þeim. Ég hlakka til þegar þær fara að dvelja þarna í alvöru og við getum farið að ganga á fjöll saman og gera hitt og þetta skemmtilegt, t.d. fara á gönguskíði, ég hugsa að ég geri alvöru úr því að fá mér ein slík þegar Elsa fer að bruna út um allar hlíðar á sínum. (Ef einhvern tíma kemur alvöru snjór aftur, þ.e.a.s.)