24.1.07

Þrjár systurÉg eignaðist þessa mynd loksins nú á jólunum þegar Ingunn gaf mér hana. Reyndar átti ég upphaflega eitt eintak en það hafnaði í fjölskyldualbúminu. Myndin er sem sé af okkur systrum þremur, Didda var "enn í pungi föður síns", eins og einhverjir vinir Orðabókarinnar tóku svo smekklega til orða um ófætt fólk, þegar myndin var tekin.

Tilurð myndarinnar: Það var einn af þessum lognkyrru sjóðheitu dögum sem aðeins koma í Hrútafirði. Við vorum að snudda eitthvað úti í blíðunni systurnar, við hús Jónasar og Sigga, þegar bíll kom akandi. Í honum voru hjón sem vildu kaupa mjólk, held að Lilja hafi afgreitt konuna með það. Meðan stóð maðurinn þarna úti og spurði allt í einu hvort hann mætti taka af okkur mynd. Við féllumst á það, Lilla held ég meira en fús, en ég ekki meira en svo því mér fannst ég ekki falleg á myndum. En við stilltum okkur þarna upp og maðurinn smellti af. Hann spurði hvað ég héti áður en þau hjónin héldu aftur út á rykið og holurnar á þjóðveginum. Svo gleymdist þetta, en rétt fyrir jólin veturinn eftir kom stórt umslag í póstinum, merkt Helgu Jónsdóttur. Það varð uppi fótur og fit, næstum eins og þegar pabbi fékk happdrættismiðana frá Möltu, sem er önnur saga, og ég opnaði sendinguna. Út úr umslaginu ultu þrjár eins myndir.

Það má marka veðurblíðuna af því til dæmis að Ingunn er ekki í stígvélum, annars var hún yfirleitt í þeim allt sumarið því það var svo fljótlegt að fara í þau og mátti vaða í þeim út í hvað sem var. Lilla er í ljómandi fallegum bómullarkjól ættuðum af Hvammstanga, hann var rauður með hvítum doppum. Ég er í hvítum "leikfimikjól" frá sama stað. Ingunn er í blábekkjóttu pilsi sem ég held að mamma hafi saumað. Merkilegt að það skuli hitta þannig á að á bestu myndinni sem er tekin af okkur litlum er bara ein flík sem við erum í eftir mömmu.

Web Counter

Hlustið á Vitann í kvöld

Bara örstutt: Hvet ykkur til að hlusta á Vitann á Rás 1 kl 7 í kvöld. Þar verður stutt viðtal við Stínu.

Web Counter

17.1.07

Hrökk í gang

En þá er ég bara orðin allt of þreytt og stíf í herðunum af ergelsi til að geta skrifað neitt.

Web Counter

Bloggraunir

Það er heilmikið sem ég hefði viljað tjá mig um undanfarna daga, t.d. fögnuð minn yfir því hvað Hallveigu frænku minni hefur gengið vel, en "tæknin hefur eitthvað verið að stríða mér", þ.e.a.s. á minni tölvu ekki öðrum. Undarlegt. Sé til hvað ég geri, kannski verð ég að fara eitthvað annað, vona samt ekki því ég kann svo vel við þetta bleika og gráa raffíneraða útlit.

Web Counter

14.1.07

Cleese og stóra hirðingjahúfan

Það eru engin nýuppgötvuð sannindi að karlmenn mega vera miklu eldri, ljótari og leiðinlegri en konur. Þetta sést í sjónvarpinu, í kvikmyndum, blöðum og áfram mætti lengi telja. Samt held ég að markaðsmenn Kaupþings hafi misreiknað þennan stuðul verulega þegar þeir keyptu þennan gamla, ljóta og afdankaða Cleese til að fíflast fyrir sig.

Ég veit ekki hvað þetta er að íslenskum markaðsmönnum, finnst þeim svona dæmalaust snjallt að leikari sem ekki getur leikið lengur (ef hann þá einhvern tíma gat það) skuli fara að míga utan í bissnesskarla? Þetta með að veifa Cleese er nefnilega ekki nýjung á Íslandi. Fyrir nokkrum árum sat ég kynningarráðstefnu hjá Navision og þá var samkoman látin horfa á myndband með Cleese - og þótti óskaplega fyndið að því miður hefði Navision ekki séð sér fært að fá hann í eigin persónu, hann hefði verið aðeins of dýr. Mér þótti þetta myndband arfavont og sé ekki að karlkvölin hafi neitt skánað síðan. Venjulegt fólk , sem veit ekki hvað það er obbbboðððslega dýrt að láta Cleese fiflast fyrir sig, hristir bara hausinn yfir þessu. En var kannski einhver ungur markaðsmaður meðal gesta á Navision-ráðstefnunni sem hét því að þegar hann yrði stór skyldi hann verða nógu stór til að kaupa Cleese? Kannski er þetta bara sama plebbahneigðin og fær nýríku Íslendingana til að kaupa Tom Jones, Duran Duran og fleiri misútbrunna skemmtikrafta í veislurnar sínar.

Hugvitssemi markaðsdeildar bankans gekk þó enn nær okkur viðskiptamönnum hans, sem vissum eiginlega ekki okkar rjúkandi þegar við opnuðum jóla"glaðninginn" - svarta tauhryllinginn sem kallast brauðpoki en líkist mest eyðimerkurhirðingjahúfu í yfirstærð. Þarna hefur líklega einhver verið að bjarga illa komnum vini sínum í hönnunarbransanum fyrir horn.

Web Counter

12.1.07

Þegar norðurljósin sungu


Ákafur Biblíulestur minn, fréttir af halastjörnu og tal um norðurljós varð til þess að ég fór að rifja það upp þegar ég heyrði í norðurljósunum.

Þetta var einn veturinn minn á Laugarvatni. Við vorum á leið úr leikfimi nokkrar stelpur (aldrei slíku vant hafði ég mætt) og það var norðangarri og skítakuldi en heiður himinn og óvenjuleg norðurljósadýrð, með regnbogalitum, ekki bara þessir gul-græn-bláu eins og er venjulegast. Við fórum auðvitað að góna á þetta og þá tókum við eftir skrítnum hljóðum og litum hissa hver á aðra, trúðum varla eigin eyrum! En þegar við hlustuðum betur var ekki um að villast, hljóðin sveifluðust í nákvæmum takti við hreyfingu norðurljósanna - engin námsmey Ingunnar leikfimikennara hefði getað náð þeirri taktvísi. Við horfðum og hlustuðum eins lengi á þetta og við þoldum vegna kuldans, en fórum svo heim á vist.

Hvernig var svo tónlistin? Þetta voru einhvers konar hátíðnihljóð, minnti jafnvel á raftónlist. Hvað hétu tilraunatónskáldin okkar, Atli Heimir, Magnús Blöndal? Þeir hefðu sjálfsagt getað notað þetta í frumlegt, en kannski ekki að sama skapi áheyrilegt, verk.
Ef maður gáir að þessu fyrirbæri á Netinu sést að margir hafa vitnað um þetta en ef marka má það sem ég las hefur aldrei tekist að taka svona hljóð upp svo þetta telst því ósannað fyrirbæri.

Gaman að vita hvort einhverjir aðrir en námsmeyjar í útskriftarárgangi 1976 frá Laugarvatni hafa upplifað þetta fyrirbæri.

Web Counter

9.1.07

Jólalegt nafn

Fór allt í einu að hugsa um það á síðustu sunnudagsgöngu minni hvort ekki væri komin einhver lítil Helga Nótt. Þetta hefði verið tilvalið nafn á jóladellukonu eins og mig. Hugsið ykkur líka ávarp eins og: "Ó, Helga Nótt, viltu rétta mér sósuna?" yfir jólasteikinni.

Ég nefndi þetta við dætur mínar en þeim fannst þetta ekkert sniðugt. Ég er ekki með aðgang að þjóðskrá en á Netinu talar einhver um ein Helga Nótt sé þar. Sú hlýtur að kætast í desember!

Web Counter

3.1.07

Föstur og hreinsanir

Ég sá í sérstöku aflausnarblaði moggans eftir jólin sem kom í morgun að föstur, niðurgangur framkallaður með tei og stólpípur eru "inni" núna. Annars merkilegt hvernig fanatík sumra hollustupostula þróast. Sjáið t.d. Jónínu Ben og þessa næringarþerapistakonu. Jónína byrjar á sprikli, fer svo út í að boða sjálfsstyrkingu (auður í kjafti kvenna) og boðar nú niðurgang og ýmsar aðrar pyndingar í þeim anda í Póllandi. Hugsið ykkur - að borga stórfé fyrir að fara til útlanda til að láta svelta sig og sitja með skitu á klósettinu dögum saman!

Næringarþerapistakonan boðaði fyrst hollmeti og lífræna hreina fæðu (= úr Yggdrasli) en er nú búin að hrófla upp skitubúðum einhvers staðar á Suðausturlandi. Sjálf er hún orðin ákaflega tekin í framan, eins og Solla. Engin þessara kvenna þorir að boða uppköst, það er líklega of rækilega stimplað sem geðveiki. En er sjálfsáskapaði niðurgangurinn ekki alveg sama geðveikin þegar allt kemur til alls?

Web Counter

1.1.07

Gleðilegt nýtt ár

Lítið blogg að undanförnu skýrist ekki af jólastressi heldur tæknilegum örðugleikum. Einhverra hluta vegna hafa skiptin úr gamla bloggumhverfinu yfir í það gamla gengið brösulega.

Jólin voru ósköp notaleg. Að vísu kom upp svolítið tæknilegt vandamál við undirbúninginn. Húsbóndinn var tímanlega í því og fór (einn) og keypti jólatré um 10. des. Við sögðum ekki margt mæðgurnar, enda þöglar og dular týpur eins og allir vita, en stundum því þó upp hvort það væri ekki dálítið stórt. Ólafur viðurkenndi það, en eins og við vissum hefðu systurnar alltaf viljað stórt jólatré, eiginlega aldrei fengið nógu stórt tré ef út í það væri farið, svo hann hefði ákveðið að nú skyldu þær loksins fá nógu stórt tré.Tréð fékk að bíða úti á svölum með sinn tálgaða enda þar til þess tími kæmi. Tálgaði endinn er tilkominn vegna sárrar reynslu frá því í hitteðfyrra þegar óvenjuilla gekk að fá tréð til að passa í fótinn og ég eyðilagði forláta búrhníf þegar ég var að reyna að sarga utan af því. En á Þorláksmessu var tíminn sem sé kominn. Ég játa að við mæðgur voru dálítið skeptískar því tréð reyndist ótrúlega fyrirferðarmikið, breitt og þétt og sveiflaðist til þó í fótinn væri komið. Loks töldum við okkur vera búin að stemma það af, skrúfuðum allt fast og byrjuðum að tína á það allt skrautið. Það þykir okkur afar skemmtilegt því við eigum mikið af skrauti frá öllum tímum, í öllum stílum, sem stelpurnar bjuggu til í leikskólanum, skraut sem við keyptum einhvern tíma í Kaupmannahöfn og allt þar á milli. Þessar sögur allar reynum við að rekja um leið og við hengjum þetta á tréð. Loks var allt komið upp, við mæðgur snerum okkur að öðru en húsbóndanum dvaldist eitthvað áfram í stofunni. Allt í einu "vaknar hann upp við vondan draum", rýkur upp, en of seint. Tréð er oltið niður á gólf og allt fljótandi í vatni og brotnum kúlum. Ég get ekki sagt að ég hafi tekið þessu með jafnaðargeði, þusaði fyrst eitthvað um að við yrðum bara að henda þessu öllu út, en svo róaðist ég og við gripum til fyrirbyggjandi aðgerða. Tréð stendur í horni við opnanlegan glugga með tryggilegum festingum. Í þessar festingar batt ég vír sem ég síðan batt í tréð. Til öryggis hafði ég stögin tvö. Þetta dugði og engin hreyfing hefur verið á trénu síðan nema þetta óhjákvæmilega sig sem verður á greinum lifandi jólatrés eftir nokkra daga í yfir 20 stiga hita. Það verður samt óneitanlega léttir að geta húrrað ferlíkinu fram af svölunum eftir nokkra daga.

Að öðru leyti gekk þetta bara vel. Gjafir vel yfir meðallagi og mikið dáist ég að þeim feðginum að geta labbað sig inn í uppáhaldsfatabúðina mína í Kringlunni og komið þaðan með kjól sem smellpassar, upp á gramm (á aðfangadagskvöld)!

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla, systur, frænkur og annað fólk sem þetta les.

Web Counter