29.3.07

Lífseig hugsun


"Ef þú hefur svo háar tekjur að þú veist ekki hvernig hægt er að eyða peningunum er ekki úr vegi að gleðja konu sína með einhverri af þessum handtöskum."

Þetta er inngangur greinar í Blaðinu í dag um dýrustu handtöskur heims. Greinin er í þeim hluta blaðsins sem er merktur "Viðskipti og fjármál" og virðist sem ekki sé gert ráð fyrir að kvenþjóðin lesi hann og ekki heldur að til sé kvenþjóð sem gæti haft ráð á að kaupa sér eitt stykki sjálf. Nema þarna sé gengið út frá því að konur séu of skynsamar til að spreða sjálfar milljón eða tveimur í eina handtösku.

(Mér finnst nú samt að Pálmadætur ættu að senda blaðinu athugasemd ef þær sæju þetta.)

Web Counter

23.3.07

Að ásaka aðra um ofsóknir

Það er ekki gæfuleg leið fyrir stjórnmálamenn til að afla fylgis kjósenda eða yfirleitt ef maður vill fá einhverju áorkað í lífinu - held ég.

Ég er löngu orðin hundleið á íslenskri pólitík og enn leiðari kannski á pólitíkusunum - en finnst einhverjum aðferð Samfylkingarinnar sniðug? Að kvarta yfir óréttlátu umtali, að Ingibjörg Sólrún sé töluð niður. Hver andskotinn er þetta eiginlega, ég hélt að Ingibjörg Sólrún væri fullfær um að rífa kjaft á móti. Kannski stafar þessi vandræðagangur af því hvað innsti kjarninn í Samfylkingunni (fyrir utan Össur auðvitað sem er alltaf svolítill trúður) er helvíti eitthvað leiðinlegt og alvarlegt fólk. Það gneistar nú ekki beinlínis af Þórunni Sveinbjörns, Steinunni Valdísi eða Degi B. Eggertssyni, ha? (Reyndar átti ég erfitt með að muna þetta mörg nöfn.)

Það eru auðvitað fleiri en Samfylkingin sem hafa reynt að beita þessum "allir eru vondir við mig" töktum. Til dæmis nútíma kvennahreyfing, eiginlega eins og hún leggur sig. Allt gengur út á að alltaf sé illa farið með konur, það er valtað yfir þær í vinnu og pólitík, þær eru barðar heima hjá sér og nauðgað bæði þar og annar staðar, svona var þetta og svona heldur þetta áfram, nema karlarnir hætti að vera svona vondir. Ég held að þetta lagist ekki fyrr en konum leyfist að vera bara grimmar og (hér getur lesandinn sett annað lýsingarorð sem byrjar á sömu tveimur stöfum) eins og karlarnir.

Web Counter

19.3.07

Vitur köttur

Kisa mín er köttur þrifin eins og áður hefur komið fram hér. Hún hefur aldrei pissað út fyrir hvað þá kúkað og er afar þægileg í umgengni. Hún er líka ljónklár (sem passar vel dýri af kattarættinni). Þannig hafði hún vit á því í nótt eða morgun, þegar hún þurfti að kasta upp, að finna sér æludall eða öllu heldur dalla. Það voru skórnir mínir sem stóðu niðri í forstofu. Það var heilmikið af lítt meltum kattamat í öðrum en lítið eitt í hinum. Kannski hefur henni fundist erfitt að gera upp á milli, viljað prófa báða, eða fundist of mikið komið í þann fyrri og því haldið áfram að æla í hinn. Gólfið hefur hún greinilega ekki viljað sóða út.

Sem betur fer er ég engin pempía, ég er búin að þrífa skóna og það sér ekkert á þeim.

Web Counter

14.3.07

Ostadómur

Örstuttur dómur um tvo nýja osta sem hingað bárust um síðustu helgi:

Geita-brie finnst mér óskaplega góður. Áferðin er svipuð og á kúa-brie en svo er bragð sem minnir á norska seydda geitaostinn en mildara og betra. Ég kaupi hann örugglega aftur. Svo var það sauða-brie. Ég var þó nokkra stund að átta mig á hver fjandinn þetta væri - en - það var ekki um að villast - bragðið minnir á lambakjötsfitu! Líkams- og mjólkurfita sauðkindarinnar hefur sem sé svipað bragð. Þá veit maður það. En þennan ost kaupi ég ekki aftur!

Web Counter

Sölusálfræði

Ég fæ stundum stundarofsóknarbrjálæði í verslunum. Slíkt æði kom yfir mig í gær, vægt að vísu. Þannig er að hér hefur verið lasleiki á heimilinu, nánar tiltekið hefur einhver fjölskyldumeðlimur vakið hina með hóstaköstum nokkrum sinnum á nóttu í u.þ.b. sex vikur. Kannski ekki að undra að maður sé orðinn dálítið nervös og þreyttur.

Það vaknaði grunur um hita í eldri heimasætunni. Þá kom í ljós að eyrnahitamælir heimilisins er orðinn heldur betur óáreiðanlegur því rafhlaðan er nærri búin. (Þessir gömlu eru ekki vel séðir.) Ég hafði auðvitað ekki vit á að taka mælisræfilinn með mér en gerðist svo djörf að spyrja í tveimur apótekum hvort þar væru til rafhlöður í svona mæla, sem ég reyndi eftir bestu getu að lýsa. Nei, því miður.

Ég spurði hvort þessi útbreiddi rafhlöðuskortur væri kannski viljandi, til að neyða fólk til að kaupa bara nýja græju (ca. 7000 kr.). Það töldu starfsstúlkurnar af og frá. Þær sögðu mér reyndar í óspurðum fréttum að það væri líka skortur á rafhlöðum í eina gerð heyrnartækja, líklega til að mótmæla þessum áburði.

En hvað gerir áhyggjufullur faðir sem er sendur út í apótek í skyndi til að kaupa rafhlöðu í hitamælinn, og æpandi eyrnaveikt barn heima, ef rafhlaðan er svo ekki til? Hann kaupir auðvitað nýjan mæli. Það var einmitt það sem Óli gerði fyrir ca. þremur árum. Ég lét hins vegar ofsóknaræðið gagntaka mig og strunsaði út, mælislaus.

Web Counter

12.3.07

Fermingarveislur á síðari hluta síðustu aldar

Mér finnst ekki svo galið, úr því fermingar eru fram undan hér í fjölskyldunni, að rifja upp hitt og þetta frá fermingum sem ég man eftir.

Undirbúningur fyrir fermingar á Melum var nokkuð flókinn, ekki síst ef í hlut áttu fermingarstúlkur. Í fyrsta lagi þurfti fermingarföt. Fermingarkjólar voru saumaðir heima. Suma þeirra man ég. Ég man að Ína var í eplagrænum krymplínkjól. Hún kom að sunnan úr fermingarundirbúningsferðinni og tilkynnti að tískulitirnir þetta sumarið væru appelsínurautt og eplagrænt. Hún valdi þann síðari því þá þótt enn of djarft að rauðhærðar konur klæddust appelsínurauðu. Ég man ekki fermingarkjól Elsu. Sjálf var ég í túrkisbláum kjól með hvítum blúndukraga. Ég man ekki kjól Þóru. Ingunn var í smárósóttum, aðallega fjólubláum, kjól. Það vorið var mamma stórvirk í saumaskapnum því hún saumaði fermingarkápuna á Ingunni og kápu á mig líka, úr ljómandi fallegu hvít- og gulbrún- (Ingunnar) og hvít- og dökkblámynstruðu ullarefni (mín). Þetta voru mjög fínar flíkur. Mig minnir að þetta sama vor, eða kannski fyrir árshátíð, höfum við Ingunn fengið stuttbuxur og rósóttar blússur við. Fínar flíkur en hversu vel þær fóru okkur (alltént mér) skal ósagt látið. Lilla og Birna voru í gul- og blá- og rauðstykkjóttum kjólum. Fermingarkápan mín var keypt í Reykjavík, rauð, og ætli ég hafi ekki farið í hana svona þrisvar. Auk þessa voru gjarnan saumaðar einhverjar flíkur á ófermdu börnin og auðvitað mömmurnar.

Svo voru það veislurnar. Ég held að það hafi alltaf verið kökur nema í veislu Lillu og Birnu; þar var matur. Villi á Brekku var fastheldinn á gamla siði og var ekki hrifinn af þessari nýjung, að vera með mat. Hann vildi sína tertuveislu og ekkert annað. (Þegar mamma bauð honum grænar baunir einhvern tíma þegar hann kom í steypuvinnu fussaði hann og sagðist ekki éta gras.)

Það var í fermingarveislunum sem við kynntumst fyrst ýmsu af því sem nú er orðið jafnvel daglegur matur. Það voru til dæmis rækjur. Einhvern veginn finnst mér alltaf bragðið af þessum fyrstu rækjum hafa verið miklu betra en þeim sem síðar komu. (Tengdamóðir mín taldi skýringuna vera þá að áður voru rækjurnar frystar í klump en ekki hver í sínum klakahjúp eins og nú tíðkast, þess vegna hafi bragðið varðveist miklu betur.) Svo var auðvitað mæjonesið og ítalska salatið, mikið fannst manni það gott. Á brauði man ég eftir ávaxtasalati líka. Það voru þurrkaðir ávextir, sveskjur, apríkósur, perur og döðlur og súkkulaðibitar í. Mig minnir að lambasteik hafi líka verið höfð á brauð í þessum veislum. Klassískar rjómatertur voru þarna og kleinur held ég líka og formkökur. Svo barst ein og ein ný sort. Kókosterta með eggjarauðu/súkkulaðikremi (sem Jói Fel kallar bounty-tertu) er enn ein af mínum uppáhaldstertum. Marengsinn barst í Hrútafjörðinn á þessum árum og var tekið fagnandi. Ég man ægilegan taugatitring kvennanna því hann féll stundum. Kannski það hafi stafað af óstöðugu og litlu rafmagni úr Brú? Svo komst einhvern tíma raspterta í tísku (sá uppskrift að henni nýlega í blaði), líka kornfleksterta og svo man ég eftir kaneltertu, næfurþunnir botnar með rjóma á milli. Auðvitað voru brún og hvít rúlluterta og brún og hvít lagkaka. Helstu smákökusortir voru þarna líka. Það voru líka brauðtertur, yfirleitt í brauðstærð, sem sé minni en núna. Eftir allt kökuátið voru, að minnsta kosti í fyrstu veislunum sem ég man eftir, niðursoðnir ávextir með rjóma. Þá útvegaði okkur Sigurjón maðurinn hennar Goggu móðursystur minnar, leigubílstjórar voru með góð sambönd á þeim árum. Held að hann hafi líka útvegað séniverinn í fertugsafmælisveislu pabba sem var ægilega skemmtileg en það er nú önnur saga. Niðursoðnir ávextir þóttu algert hnossgæti á þessum árum enda ekki daglega á borðum.

Veislur Himma og Gústa tókst mömmu að undirbúa án ísskáps á heimilinu. Ég veit ekki hvernig hún fór að því en líklega hafa þetta verið einu skiptin sem hrútfirska norðanstrokan var hjartanlega velkomin.

Gestir í þessum veislum voru allt Melafólk, nágrannar af bæjunum í kring, amma og afi og amma í Reykjavík og slæðingur af móðurfólkinu mínu. Einhvern veginn komst allt þetta fólk fyrir í 80 fermetra húsinu. Ég man alltaf þegar amma á Hvammstanga var að hjálpa mömmu að þrífa fyrir einhverja veisluna og það var fjörugt lag í útvarpinu og hún fór að dansa við kústinn - finnst þess vegna "Hún amma er hjá mér um jólin" eiga svolítið við um hana líka.

Gjafir voru alveg ágætar. Ég fékk úr frá mömmu og pabba eins og þá var siður og svo fékk ég eitthvað af skartgripum, skartgripaskrín frá Önnu ömmusystur minni, og ég man vel sítrónugul nælonnáttföt (hnésíðar buxur). Peninga gáfu sumir þá eins og núna. Annars er minningin um gjafirnar svolítið farin að dofna, ég man matinn og fötin best.

Web Counter

8.3.07

Konur loka augunum - karlhelvítin glápa...

Af hverju rifjast upp fyrir mér þessa dagana allar konurnar í Kvennaklósettinu sem aldrei höfðu sofið hjá, áttu sjálfselska karla sem skildu þær ekki, þjáðust þess vegna heil ósköp en endurfæddust ef á vegi þeirra varð draumaprins sem kunni á þeim lagið? Af hverju rifjast líka upp fyrir mér þessi frægu orð: "Maður lokar bara augunum og hugsar um England"? Af hverju verður mér tíðhugsað til konunnar sem mamma þekkti fyrir norðan í gamla daga og sagt var um að henni hefði þótt jafn vont þegar sonurinn var getinn og þegar hún fæddi hann?

Það á að hafa hringt kona í Árna Böðvarsson (eða einhvern annan sem var viðriðinn Orðabók Menningarsjóðs) eftir að bókin kom út og kvartað heil ósköp yfir öllum dónaorðunum í bókinni sem hún gat romsað upp. Sá sem hún talaði hældi henni fyrir það hvað hún hefði verið nösk að finna þetta allt. Hún var fljót að kveðja.

Helvíti nösk líka, þessi sem vill kæra Fermingarpésann úr Smáralind!

Lifi Jóna Ingibjörg!

Web Counter