29.9.07

Svið (ekki ætlað fólki á jurtafæði eða nútímateprum sem skammast sín fyrir íslenskan mat að fornu)

Fyrir nokkrum árum, þegar Siggi og Lilja bjuggu enn á Melum, skruppum við norður um helgi að haustlagi. Veðrið var óskaplega gott á laugardagskvöldið svo við löbbuðum út með stelpurnar og ég notaði tækifærið til að benda á merkilega staði, svo sem haughúsþakið sem var rennibrautin okkar, Bænhústóttina, þar sem þeir sem nenntu stunduðu horna- og leggjabúskap, lansalinginn þar sem við Krummi hentum niður lýsisflöskunum, fjóshlöðuna þar sem ég handleggsbrotnaði og fleira. Þar sem við vorum þarna á stjákli heyrði ég allt í einu hvin og svo fann ég kunnuglegan ilm í loftinu. Ég var svolitla stund að átta mig en þetta fór ekki milli mála; hér var einhver að svíða. Við gengum á lyktina og hljóðið og þá stóð Lilja þarna með ótal hausa á bárujárnsplötum og mundaði gastækið af mikilli fimi. Hún bauð okkur svo í sviðaveislu daginn eftir.

Ég man þegar mamma var að svíða í gamla daga, sérstaklega kindalappir. Mig minnir að hún hafi oftast verið við þessa iðju við stöku húsin, gömlu fjárhúsin sem nú eru löngu horfin og okkur þóttu alltaf svolítið skuggaleg, jafnvel um hásumar. Ég held að Þóra frænka hafi helst ekki viljað ganga þar fram hjá opnum dyrum, en hún var líka einstaklega viðkvæm, kitlaði til dæmis heil ósköp án þess að komið væri við hana - en það er nú önnur saga. Jæja, mamma fór alltaf í verstu ræfla sem hún gat fundið þegar hún ætlaði að svíða, t.d. aflóga vinnugalla, setti á sig vinnuvettlinga o.s.frv. og varð mjög vígaleg. Ég þykist muna að hún hafi í fyrstu sviðið á hlóðum, þá líklega með kolum eins og voru notuð í gömlu eldavélina. Áhrifamest var auðvitað þegar hún glóhitaði teina (líklega steypustyrktarjárn) og sveið með þeim vel og vandlega milli klaufanna. Þá gaus upp mikill reykur sem fylgdi megn (og góð) lykt. Sjálfum klaufunum fletti hún af þegar löppin var fullsviðin.

Þegar sviðamennskan var búin var soðinn fullur pottur af löppum og krökkunum sem vildu af hinum bæjunum var yfirleitt boðið - að minnsta kosti ef þetta var fyrsta soðning þetta haustið. Það var gaman að borða lappir en ekki gat maður nú borðað mikið af þeim, fitan og "límið" fullmikið til þess. Þegar hins vegar lappirnar voru orðnar að súru fótasultunni hennar mömmu var þetta með betri mat sem maður smakkaði (hefur verið lýst í fyrri bloggfærslu).

Í haust fylltist ég sviðaþrá sem loks fékk útrás í gærkvöldi. Þetta var gamalkunnug reynsla: óskaplega gott smakkið upp úr pottinum þegar þau voru að verða tilbúin, tungan frábær, hitt kjötið af neðri kjálkanum ágætt en flökurleiki fór að gera vart við sig þegar ég gerði atlögu að hnakkaspikinu. Svo að þetta yrði fullkomin hausthátíð í gamla stílnum hafði ég sagósætsúpu með sveskjum og rúsínum í eftirrétt. Hún var að sjálfsögðu gerð úr krækiberjasaft úr berjum frá Melum. Mjög góð, með miklum rjóma. Það skal tekið fram að við hjónin komumst ágætlega frá þessari máltíð, eldri heimasætan dró sig í hlé og sagðist ekki vera svöng, en sú yngri tók nokkuð hraustlega til matar síns.

Veit einhver hvar hægt er að fá sviðalappir nú til dags?

Web Counter

26.9.07

Ristruflanir í Kópavogi

Þið kannist flest við þá kenningu að þá áráttu manna (=karla) að vilja reisa sem hæsta turna megi rekja til vandræða í kynlífinu. Sá vandi hlýtur að vera mjög djúpstæður hjá þeim sem ráða í Kópavogi, bæði í ljósi undanfarinna 10-15 ára og framtíðarplananna sem voru kynnt á forsíðu Blaðsins í morgun.

Þetta rifjar líka upp fyrir mér viðtal sem ég heyrði um daginn í útvarpinu við stjórnarmann í Torfusamtökunum (sonur Megasar), svona ljómandi rökfastan og málefnalegan ungan mann, sem benti ósköp hógvær á það að mörg þessi gömlu hús sem er verið að rífa sem óðast eru í raun vel byggð og samkvæmt aldagömlum og þrautreyndum hefðum en nýju húsin eru flest hroðvirknislega og illa byggð, illa teiknuð og illa úthugsuð í alla staði - ekki glæsilegur nútímaarkitektúr eins og reynt er að telja okkur trú um.

Web Counter

21.9.07

Þrettán ára snót, bleikar rósir og fleira

Yngri heimasætan er þrettán ára í dag. Það verður settleg afmælisveisla klukkan sjö með sex til borðs (fimm vinkonur boðnar). Við erum búnar að dúka með gegnsæja blúndudúknum og bleiku undirlagi, sparidesertdiskunum og servíéttum með bleiku bóndarósamynstri. Á miðju borði er diskur á fæti með bleiku kerti í miðjunni og fínlegar bleikar rósir í kring. Á skenknum eru sams konar rósir í fínlegum kristalvasa. Það skal viðurkennt að ég ber meginábyrgðina á þessu bleika þema. Mikið er ég fegin að mér skuli þykja bleikur litur fallegur - svona eins og litla stúlkan yndislega í myndinni Meet me in Saint Louis sem sagði eitthvað á þessa leið: "Mikið er ég fegin að ég skuli einmitt hafa fæðst í uppáhaldsborginni minni." Þetta sítat hefur reyndar komið ótal sinnum upp í hugann þegar ég hef heyrt til fyrrverandi landbúnaðarráðherra - er einhver hissa?

Vel á minnst, hver er annars landbúnaðarráðherra núna?

Bleik borðskreyting er afskaplega góð þerapía þegar maður er gjörsamlega búinn á því eftir langa bókargjörgæslutörn.

Web Counter

19.9.07

Kostir fjarnámsins

Ég get ekki stillt mig um að stela eftirfarandi klausu sem skemmtilegasta konan í Norðurmýrinni stal (orðrétt) af Barnalandi:

Læknanám
veit einhver hvað það tekur langan tíma að læra að verða læknir:) s.s mörg ár og hvernig ber maður sig eftir því í hvaðaskóla og svo framvegis?mér langar svo að fara í læknanám:) langar að far í fjarnám ef það er hægt:)

Didda systir ætti kannski að fara að endurskoða val sitt á fjarnámi...

Web Counter

10.9.07

Helgi fyrir norðan

Við skruppum norður að Melum á föstudaginn. Þetta var ósköp notaleg helgi og byrjaði sannarlega vel, við renndum í hlað rúmlega sex, svo það var góður tími til að elda föstudagskjúklingana (sá fugl hefur verið fastur á föstudagsmatseðli okkar hér á Kvisthaganun ansi lengi). Eins og allir vita á lífið í sumarbústaðnum (og tjaldinu/fellihýsinu/ hjólhýsinu/húsbílnum) að vera sem líkast því sem það er heima hjá manni, og þar passaði kjúklingurinn sannarlega vel. Það var gott að koma norður og ekki sakaði að veðrið batnaði eftir því sem nálgaðist heimahagana. Birtan og skýjaspilið yfir Holtavörðuheiðinni var stórbrotið, maður sá hvernig skýin ruddust yfir fjöllin og mýrarnar úr vesturátt en svo var allt bjart í austri og norðri. Gróður á heiðinni er orðinn svolítið haustlegur en maður hefur líka á tilfinningunni að sumarið hafi verið ósköp gott við hann.

Á laugardagsmorguninn var hlaupið sem snöggvast út að Fögrubrekku, ekki lengra af því að ég vildi koma snemma í réttirnar. Það var hálfgerður misskilningur því þessir fáu kallar sem enn fá sér í tána í réttunum voru ekki byrjaðir; mér er til dæmis til efs að Keli Sakk hafi verið búinn að bragða dropa, og því lítil "réttastemmning". Hrútatungurétt er orðin svolítið eins og margfalt ættarmót Staðhreppinga. Við trufluðum þau mót ekki mikið, enda stúlkurnar óþolinmóðar og vildu komast í sund. Meðan liðið var í sundi brá ég mér á berjamó upp með Ormsá. Það var heilög stund í frábæru veðri. Ég fór bara í Kambablettina en tíndi samt fulla málningarfötu (8 eða kannski 10 l?) af krækiberjum. Auðvitað horfði ég löngunaraugum upp í Kamba af brúninni en tíminn var heldur naumur og fatan farin að þyngjast svo ég hélt af stað niður og fór með fram Kambalæknum sem nú var bara orðinn dálítið vatnsfall, annað en í sumar! Og fallegt var við lækinn eins og alltaf.

Garðurinn við húsið er ljómandi fallegur, bletturinn á kafi í grasi svo Óli sló hann (að ráði Daníels bústaðareiganda á Melum) og sumarblómin enn í fullum skrúða. Trjágróðurinn skartaði líka sínu fegursta eftir fína snyrtingu Sigurgeirs í sumar. Salat og kál var notað óspart bæði kvöldin og sást varla högg á vatni (eða káli).

Hátíðarkvöldverðurinn varð enn hátíðlegri með kerta/blómabakka sem kom um daginn að vestan og var skreyttur með túrkisbláum kertum og fjólum utan af palli.

Það var ekki að undra að okkur þætti erfitt að slíta okkur burt af staðnum um kaffileytið í gær í suðvestanblæ og svipaðri töfrabirtu og þegar við komum á föstudagskvöldið.

Web Counter

4.9.07

Þetta þokast

Stundum finnst mér fólk vera svolítið óþolinmótt og svartsýnt á jafnréttið. Þá rifja ég ýmislegt upp í huganum (eða jafnvel upphátt ef einhver er til að hlusta):

  1. Mamma átti ekki peningaveski þegar ég var krakki.
  2. Við fengum mjög sjaldan egg þegar ég var krakki því peningarnir fyrir eggin sem hún seldi úr þessu fáu hænum voru einu sjálfstæðu tekjurnar hennar mömmu.
  3. Það þótti mikið undur, ef ekki argasta óréttlæti, þegar Elladís á Melum fór að vinna í sláturhúsinu á Borðeyri og það á karlmannskaupi (=sama og karlarnir).
  4. Ég lærði aldrei smíðar.
  5. Kennari sem ég var með í Reykjaskóla hélt því fram að tíðablóð væri alls ekki blóð heldur eitthvað allt annað og ófínna.
  6. Þessi sami kennari fullyrti að einn maður gæti fræðilega ekki nauðgað einni konu.
  7. Í Menntaskólanum á Laugarvatni borguðu stelpur minna í mötuneytið en strákar. (Býst við að svo sé ekki lengur en það er nú hálfgerð afturför.)
  8. Alla þessa einu meðgöngu mömmu sem ég man eftir (þá var ég á ellefta ári) minntist hún ekki á það einu orði að hún ætti von á barni.
  9. Við stelpurnar vöskuðum upp. Gústi bróðir "hjálpaði" einu sinni til með því að "herma eftir uppþvottavél" en þá var hann nýkominn af sundnámskeiði í Reykjaskóla og hafði séð slíka vél þar.
  10. Ég lærði hvorki á dráttarvél né jeppa þótt ég væri alin upp í sveit.

Web Counter