27.2.06

Kvef og Cash

Man satt að segja ekki hvenær ég fékk kvef síðast, hvort ég slapp alveg 2005, það er a.m.k. mjög langt síðan. En það lagði mig sem sé undir sig núna um helgina. Líklega hef ég smitast af Steinu sem er búin að vera með þetta síðan fyrir hina helgina.

Ég er skárri en í gær, svo líklega tekur þetta fljótt af núna (skal ekkert fjasa um breytta hegðun kvefs með aldrinum).

Aldrei slíku vant fórum við hjónin í bíó um helgina. Þessi fáheyrði atburður varð á föstudagskvöldið, í Smárabíó lúxus, meðan saumó Stínu fjölmennti á Idol. Myndin sem varð fyrir valinu, eða öllu heldur ÉG valdi, var auðvitað Walk the Line. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég er einlægur aðdáandi JC, svo sem enginn sérfræðingur, en mér fannst þetta mjög vel gert. Kannski léku lögin samt best í myndinni, og gaman hvernig tókst að láta mann upplifa tónleika eins og maður væri á staðnum. Mæli hiklaust með þessari mynd. Kannski ég skreppi bara fljótlega á myndina um fréttamanninn sem þorði að vera á móti McCarthy, og svo á Capote í framhaldi af því. Þá er þetta orðinn góður ársskammtur.

Web Counter

23.2.06

Ólíkt manni...

Mér datt si sona í hug þegar ég sá þetta blogg Tótu pönk, færsluna 20. þessa mánaðar, hvað ég er heppin með kisu, hún er sannarlega ólík kattarkvikindinu sem þarna er lýst. Kisa mín gæti sagt, ef hún læsi þetta: "Mikið er þetta ólíkt manni". Það sagði tengdamóðir mín oft ef henni blöskraði háttsemi fólks eða eiginleikar. Ég held uppi minningu hennar með því að grípa stundum til þessa orðalags.

Web Counter

20.2.06

Ferna

Fjórir sjónvarpsþættir:
Matador, Frasier, 'Allo 'Allo!, og... Beðmálí borginni, auðvitað

Fjórar bíómyndir:
Ég fer svo sjaldan í bíó; Með allt á hreinu, Cinema Paradiso, Till sammans, Some Like it Hot (á hana)

Fjórir staðir sem ég hef búið á austan lækjar (Ólöf hafði það í 101 en sveitakonan nær því ekki):
Þórsgata, Laufásvegur, Skarphéðinsgata, Laugarvatn

Fjórir staðir sem ég hef búið á vestan lækjar:
Hringbraut, Sólvallagata, Reynimelur, Kvisthagi

Fjögur störf sem ég hef gripið í:
Matráðskona, sjoppukona, grillkona, húsgagnaverslunarkona (einn dag, sem þúsund ár)

Gott að borða
hörpuskelfiskur, andabringur, fótasulta mömmu, nýheimabakað brauð

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á
í sólskini og hita að horfa út á opið haf (sama hvar)
á Melum (auðvitað)
á rölti um Vín
í heita pottinum á Hvammstanga

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum
Mondsee, Abbotsberry, Jórvík (gamla), Riva la Garda

Fjórar slóðir sem ég kíki oft á
http://www.nannar.blogspot.com/
http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/section?Category=SKODANIR02
http://www.baggalutur.is/
http://www.kistan.is

Web Counter

16.2.06

Grænmetisrétturinn minn

Hann Reynir Þór frændi minn (betur þekktur núna sem Reynir reynir) var svo sætur að koma í heimsókn um daginn og var bara ánægður með grænmetisréttinn sem ég bauð honum. Ég þakka honum sömuleiðis fyrir að koma. Einhverjir (kannski bara Elsa frænka) hafa falast eftir uppskriftinni. Hér er hún, afar frjálsleg eins og þið sjáið:

Góður bútur af hvítkáli
1 meðalgulrófa
Ca. 3 gulrætur
1 laukur
1 - 2 kartöflur (sleppi þeim stundum)
1 - 2 hvítlauksgeirar
Eitthvert annað grænmeti að vild, bara mátulegur skammtur á pönnu eða handa þeim sem eiga að borða)

Grænmetið er rifið í matvinnsluvél eða slíku áhaldi, ekkert mjög fínt. Sett á pönnu með smáolíu og steikt dálitla stund. Þá er sett út í dós af niðursoðnum tómötum og lítil dós af tómatmauki (puré). Svo má setja eins og einn grænmetistening og eitthvert gott ítalskt krydd eins og oregano og svartan pipar líka. Ég set oft líka tarragon. Þegar þetta er búið að malla dálitla stund á pönnunni og samlagast tek ég ost og sker í teninga og strái yfir allt saman og set svo lok á pönnuna og leyfi þessu að krauma í a.m.k. hálftíma. Set líka stundum á þessu stigi sveppi og súkkíní í teningum.

Mér finnst voðagott að hafa bankabygg frá Eymundi með þessu.

Stundum geri ég "austurlenska útgáfu" af réttinum. Þá nota ég karrí og/eða eitthvert annað gott austurlenskt krydd, sleppi tómatmaukinu og dreg kannski aðeins úr tómötunum en set undir lokin hálfa til eina dós af kókosmjólk. Smekkur ræður hvort ostteningar eru hafðir út á þessa útgáfu (mér finnst það ágætt, en það er kannski ekki mjög austurlenskt).

Stundum bý ég til stóran skammt og á út vikuna; Steina fær sér stundum af þessu en annar sit ég ein að krásinni.

Web Counter

14.2.06

Sumarfiðringur og holdafar

Það fór um mig einhver sumarfiðringur í dag svo ég hentist út að hlaupa kl. hálf þrjú og hljóp í hálftíma eða þar til snatttíminn hófst. Þetta hélt áfram þannig að ég dró fram gömlu hvítu sumarbuxurnar þegar ég loksins fór í þokkaleg föt síðdegis (heimavinnandi einyrkjar geta unnið í hverju sem er). Þær passa ágætlega takk, það vel að ég get ekki tosað þær niður af mér án þess að renna frá eins og ég gat reyndar um nokkurra vikna skeið eftir snarpt átak í ræktinni um árið. Mikið hugsum við konurnar annars um holdafarið, ég á varla það símtal við systur mínar að það beri ekki á góma. Hins vegar hef ég aldrei rætt þetta við bræður mína! Ég reyni samt að taka þessi mál ekki of hátíðlega, og taka létt ýmsum breytingum sem verða með aldrinum. Hafið þið t.d., sem komin eru á virðulegan aldur, prófað að standa fyrir framan spegil og halla vel undir flatt? Maður verður eitthvað svo undarlega búlduleitur á þeirri kinninni sem niður snýr. Getur verið skemmtun litlum börnum, en varla öðrum.

Web Counter

12.2.06

Sveitasæla

Vorum fyrir norðan um helgina í þessu einstaka logni og blíðu sem svo oft ríkir í Hrútafirði (á þessum árstíma a.m.k.). Þetta var mjög hefðbundin ferð, farið á föstudegi og komið síðdegis í dag. Ég gekk þarna mínar gömlu slóðir, hringinn gamla veginn út að Fjarðarhornshliði og nýja veginn til baka. Fjarðarhornshúsið hækkar óðfluga; það verður gaman að líta þangað þegar húsið verður fullklætt og komið járn á þakið.

Hefur allt Melafólk tekið eftir hríslunni undir ristinni í Fjarðarhornshliðinu? Þetta er held ég einhver víðitegund og hefur verið þarna í þó nokkur ár, lifir en vex að sjálfsögðu ekki upp fyrir ristina. Þetta finnst mér svolítið eins og líf þorra bænda; skrimta en stanslaust valtað yfir þá (og kannski grind yfir líka) svo þeir eiga ekki neina von um vöxt og viðgang hér í heimi.

Í gærkvöld var svo toppur ferðarinnar, hátíðarkvöldverðurinn, lambalæri og súkkulaðimús sem Ásgerður vinkona Stínu minnar bjó til. Ásgerður virðist vera prýðisefni í kokk. Svo var Irish coffee úr glösunum sem ég keypti í IKEA í tilefni ferðarinnar. Borðið var skreytt að venju, nú í rauðu og gulgrænu (servíettur, kerti og smá blómavírsföndur), og á það lagðir ódýrir ofnir renningar (ljósdrappaðir eða "natúr") sem ég keypti í Rúmfatalagernum. Þetta kom mjög vel út.

Sumum kann að þykja þetta heldur mikið brölt - taka sig til með heilmikinn farangur og keyra þetta til að plampa nokkra kílómetra og borða mat sem alveg eins væri hægt að elda heima hjá sér - og jafnvel betur. Ég reyni ekki að útskýra það nákvæmlega, það er bara svo gaman að hlakka til, skipta um umhverfi, koma sér fyrir þar og vera með svolítið tilstand - og síðast en ekki síst, að sjá gömlu sveitina sína enn einu sinni og finna hana undir fótunum.

Web Counter

9.2.06

Skemmtileg nöfn

Fékk þetta í pósti, ansi gott:

Bekkjarafmælið
Ósk Ýr gekk rösklega með Brand Ara í afmælið til Egils Daða því hún var
að verða of sein að sækja Leif Arnar og Loft Stein í leikskólann.
Borgar Vörður, pabbi Egils Daða, tók á móti þeim.
Þarna voru Lind Ýr, Líf Vera, Sól Hlíf, Ævar Eiður og Hreinn Bolli.
Erlendur Hreimur kom blaðskellandi innan úr stofunni og vinkonurnar
Vísa Skuld og Dís Ester fast á hæla honum.
Mýra Þoka lét lítið fyrir sér fara úti í horni.
Innan úr herbergi Egils Daða bárust ógurlegir skruðningar – “#%=&#$&/(=!z#$!/!=!
Línus Gauti, Barði Vagn og Mist Eik voru greinilega mætt. En hvar var Ríta Lín?
Fyrir utan var Sædís Líf í rauðum fólksvagni.
Hægt og sígandi nálgaðist Jökla Þoka eftir stígnum.
Hún var orðin alltof sein í afmælið.

Web Counter

8.2.06

Rannsókn á 20.000 konum...

Hvernig er hægt að vera viss um að 10.000 konum takist öllum sem einni að breyta mataræðinu og halda það út í átta (mögur) ár? Er þetta ekki eitthvað eins og skoðanakannanirnar: líst þér mjög vel, frekar vel, frekar illa, illa eða mjög vel á nýju jógúrtina og allt hitt djönkið frá MS? Maður segir bara eitthvað til að losna sem fyrst eða af því maður hefur ekki prófað/enga skoðun. Er þetta ekki þannig líka með sumar í hópnum sem á að hafa breytt matarvenjunum, setja bara eitthvað þóknanlegt á skýrsluna því þær nennna ekki að standa í þessu bókhaldi árum saman?

Ekki þar fyrir, ég hef alltaf verið dáldið skeptísk á þetta fituleysi, sérstaklega fitulítinn ost. Gefið mér frekar dálítinn bút af klósettpappír.

Web Counter

Ljós í Bláfjöllum eða hvað?

Ég gekk í ljósaskiptunum áðan eftir Ægisíðunni í austur og sá þá mikla ljósadýrð í fjöllum sem ég held að séu Bláfjöll. Ég giskaði á að þetta væru ljós á skíðasvæðinu en Óli kannast ekki við það. Þetta hafa þá verið ljós:

a) frá álfabyggð,
b) af Hellisheiði, eða
c) úr einhverju fjandans nýja hverfinu þarna uppi í fjöllunum.

Sýnir kannski best í hvurs lags vitleysu skipulagið í Reykjavík er komið. Held að ég sitji heima á kjördag.

Web Counter

7.2.06

Breskir bófar og íslenskir meðallúðar

Við hjónin horfðum í gærkvöldi, eins og oft áður, á gamlan breskan sakamálaþátt á DR1. Aðalpersónan er snjöll yfirlögreglukona, Jane Tennyson, sem gamall vinur minn segir að sé lík mér. Við hjónin erum nú ekki eftirtektarsöm þegar við horfum á svona lagað, props má hverfa milli atriða án þess að við föttum það, kannski helst gamlar brellur sem við sjáum í gegnum, eins og t.d. fuglar Hitchcocks. En allt í einu tók Óli eftir einu í gær. Það var að hefjast bílaeltingaleikur, bófarnir vinda sér af stað á undan löggunum og - gefa stefnuljós með góðum fyrirvara! Þetta fannst okkur nú ekki mjög sennilegt. En kannski er bara umferðarmenningnin svona góð í Bretlandi; að jafnvel erkibófar passi upp á stefnuljósin, innrætingin svona sterk. Munur eða íslensku meðallúðarnir, sem ekki gætu stolið eins og einu vínberi en nota aldrei stefnuljós.

En kannski leikarinn hafi bara verið svona góður strákur.

Í gær átti ég 20 ára reykbindindisafmæli! Sýnist ég búin að græða á þessu 5.475.000 kr. Miða þá við 750 kr. á dag (einn og hálfan pakka, 500 kr. stykkið). Nú fer ég og fæ mér eitthvað sætt!

Web Counter

2.2.06

Janúarblíða nú og áður

Það þurfti svo sem ekki fréttir til að minna mig á að janúar, og mánuðirnir á undan honum, fyrir tíu árum var enn hlýrri en núna. Þetta var þegar ég vann á þeirri skammlífu sjónvarsstöð Stöð 3. Þá keyrði ég ekki bíl, bjó á Þórsgötu og Stöðin var í húsi verslunarinnar. Ég gekk oft heim á kvöldin og man alltaf hvað blettirnir í görðunum í Norðurmýrinni voru lýsandi grænir í myrkrinu í desember og janúar. Sumir voru þá með hrakspár um sumarið, svona eins og okkar Íslendinga er siður því okkur finnst við ekki eiga skilið gott veður, en það var alveg frábært líka.

Sjónvarpsstöðin fór verr. Hún varð aldrei alvöru og svo komu vondir menn og keyptu hana til að leggja hana niður. Ég man að þeir voru næstum allir svartklæddir, frá hvirfli til ilja, og fluttu með sér stemmningu sem minnti á niðurlag Íslandsklukkunnar.

Eins og í flestum görðum í Reykjavík um þessar mundir vaxa túlípanar og páskaliljur hér vel. Því miður týndu vetrargosar og krókusar mjög tölunni þegar menn Alfreðs komu og ötuðust í garðinum í sumar, þeir væru aldeilis í stuði núna ef þeir hefðu lifað. En Alfreðungar gerðu garð og stétt miklu fínni en áður og það verður svei mér gaman að spóka sig hér úti í sumar.

(Í eina skiptið sem ég hef komið til Minnesóta, og seinna skiptið sem ég kom til Bandaríkjanna, var það í janúar og frostið fór í rúm 20 stig, gjóla líka. Þá fréttist af 18 stiga hita á Dalatanga.)

Web Counter